Metfjöldi doktora heiðraður á fullveldisdaginn í Háskóla Íslands | Háskóli Íslands Skip to main content
1. desember 2019

Metfjöldi doktora heiðraður á fullveldisdaginn í Háskóla Íslands

""

Metfjöldi doktora, eða 95, hefur brautskráðst frá Háskóla Íslands á síðustu tólf mánuðum og var þessum stóra hópi fagnað á árlegri Hátíð brautskráðra doktora sem fram fór í Hátíðasal skólans í dag, á sjálfan fullveldisdaginn. Viðstaddur var Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, en þetta er í níunda sinn sem Háskólinn heiðrar doktora frá skólanum með þessum hætti.

Hundrað ár voru í haust frá því að fyrsta doktorsvörnin fór fram við skólann. Óhætt er að segja að doktorsnám í skólanum hafi tekið algjörum stakkaskiptum á þeim tíma sem liðinn er síðan Páll Eggert Ólason, síðar prófessor og rektor, varði ritgerð sína um Jón Arason biskup 25. október 1919. Fyrstu áratugina brautskráðust eingöngu karlar með doktorspróf frá Háskólanum en fyrst kvenna til þess að verja doktorsritgerð við skólann var Selma Jónsdóttir listfræðingur árið 1960. Undanfarin ár hafa konur verið í meirihluta þeirra sem útskrifast með þessa æðstu lærdómsgráðu frá Háskólanum.

Segja má að á 20. öldinni hafi fjöldi doktorsnema í skólanum vaxið hægt en örugglega á hverjum áratug en samhliða skýrri og markvissri stefnumótun og eflingu Háskóla Íslands sem alþjóðlegs rannsóknarháskóla á 21. öldinni hefur doktorsnám styrkst til muna. Til marks um það stunda nú um 600 manns slíkt nám við öll fimm fræðasvið skólans. 

Samhliða þessu hefur fjöldi doktorsnema sem brautskráist árlega margfaldast á þessari öld. Árið 2001 voru fjórir nýir doktorar brautskráðir frá Háskóla Íslands en síðustu ár hafa þeir verið á bilinu 60-70 árlega og þeir hafa aldrei verið fleiri en í ár. Nemur fjöldi brautskráðra doktora frá skólanum frá upphafi nú á níunda hundrað.

Doktorsnemar leggja mikið af mörkum til bæði kennslu og rannsókna innan skólans og styðja þannig m.a. við afar góðan árangur skólans í birtingu vísindagreina í alþjóðlegum tímaritum og stöðu hans á tveimur áhrifamestu matslistunum yfir bestu háskóla heims, Times Higher Education World University Rankings og Shanghai University Rankings.

Doktorarnir, sem tóku við gullmerki skólans á athöfninni í dag, eiga það sameiginlegt að hafa brautskráðst frá Háskóla Íslands á tímabilinu 1. desember 2018 til 1. desember 2019. Sem fyrr segir eru þeir 95 talsins, 24 karlar og 71 kona. Sameiginlegar doktorsgráður með erlendum háskólum eru 9 talsins og þá er rúmur þriðjungur hópsins með erlent ríkisfang sem undirstrikar stöðu skólans sem alþjóðlegs rannsóknarháskóla. 

Hefð er fyrir því að forseti Íslands ávarpi brautskráða doktora við athöfnina í Hátíðasal og færði Guðni Th. Jóhannesson doktorunum bæði hamingjuóskir og hvatningarorð í ræðu sinni í dag. Þá flutti Árdís Kristín Ingvarsdóttir, doktor í félagsfræði, ávarp fyrir hönd nýbrautskráðra doktora.

Háskóli Íslands færir hinum glæsilega hópi sem tók við gullmerki skólans í dag innilegar hamingjuóskir með áfangann og óskar honum velgengni í þeim fjölbreyttu störfum sem taka við í framtíðinni.

Yfirlit yfir brautskráða doktora á tímabilinu 1. desember 2018 til 1. desember 2019 og verkefni þeirra má finna í meðfylgjandi bæklingi.

 

Doktorahópurinn sem mætti á hátíðina í dag ásamt forseta Íslands, rektor Háskólans, aðstoðarrrektorum, forsetum fræðasviða, forstjóra Landspítala og forseta Stúdentaráðs