Skip to main content
15. mars 2024

Ljáðu mér vængi – opið hús í Loftskeytastöðinni og Veröld um helgina

Ljáðu mér vængi – opið hús í Loftskeytastöðinni og Veröld um helgina - á vefsíðu Háskóla Íslands

Sýningin „Ljáðu mér vængi. Ævi og áhrif Vigdísar Finnbogadóttur“, sem er í Loftskeytastöðinni við Suðurgötu, verður opnuð almenningi dagana 16. og 17. mars milli kl. 12-16. Boðið verður upp á fjölbreytta dagskrá samhliða opnuninni og aðgangur er ókeypis.

Formleg opnun sýningarinnar fer fram föstudaginn 15. mars kl. 15. Viðstödd verða, auk Vigdísar, Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og aðrir fulltrúar úr ríkisstjórn Íslands. Beint streymi verður frá opnuninni.

Á sýningunni í Loftskeytastöðinni er lögð áhersla á að varpa ljósi á uppvöxt Vigdísar, ævi hennar og störf og þau miklu áhrif sem hún hafði í embætti forseta Íslands og þá miklu athygli sem kjör hennar vakti. Meðal annars er fjallað um framlag Vigdísar til náttúruverndar, lista, mannréttindamála, jafnréttismála og til tungumála og menningar bæði hérlendis og á heimsvísu.  

Á sýningunni má sjá listmuni, fatnað, bréf, skjöl og ljósmyndir úr fórum Vigdísar en munirnir eru hluti af gjöf hennar til Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum við Háskóla Íslands. Áhersla er lögð á að setja fram sögu um ævi og áhrif Vigdísar á lifandi hátt til gagns og gamans fyrir jafnt leika sem lærða. 

Nánar um sýninguna

Á sýningunni í Loftskeytastöðinni er lögð áhersla á að varpa ljósi á uppvöxt Vigdísar, ævi hennar og störf og þau miklu áhrif sem hún hafði í embætti forseta Íslands og þá miklu athygli sem kjör hennar vakti. MYND/Kristinn Ingvarsson

Fjölbreytt dagskrá á opnunarhelgi

Opnunarhelgi sýningarinnar verður 16. og 17. mars og verður opið milli kl. 12 og16. Samhliða opnuninni verður boðið upp á fjölbreytta dagskrá fyrir fólk á öllum aldri í Veröld – húsi Vigdísar. 

Laugardaginn 16. mars í Veröld            

  • 12.15-14.00 í stofum 007 og 008 – Fjölskyldusmiðja með Silju Jónsdóttur þar sem færi gefst á að að skapa lítinn lund þar sem við gróðursetjum tré og uppáhaldsblómin hennar Vigdísar. Allt sem þarf í gróðurlundinn gerum við úr pappír þar sem ungir sem aldnir láta sköpunarkraftinn ráða för. 
  • 13.00-14.30 í Vigdísarstofu – Átta ungskáld stíga á stokk og lesa frumsamin ljóð bæði á íslensku og fleiri tungumálum til heiðurs fjölbreytileikanum sem Veröld stuðlar að. Fram koma: Alec Elías Sigurðarson, Ása Þorsteinsdóttir, Jana Björg Þorvaldsdóttir, Karólína Rós Ólafsdóttir, Ragnheiður Guðjónsdóttir, Steinunn Kristín Guðnadóttir, Sölvi Halldórsson og Unnar Ingi Sæmundarson. Viðburðurinn er skipulagður af Yrkjum, ritlistarkollektívu sem samanstendur af Ásu Þorsteinsdóttur, Eyrúnu Úu Þorbjörnsdóttur, Jönu Björgu Þorvaldsdóttur, Ragnheiði Guðjónsdóttur og Steinunni Kristínu Guðnadóttur.
  • 15.00-16.00 í sýningarsal Máls í mótun – Mikael Nils Lind, tónlistarmaður og aðjunkt í sænsku við Háskóla Íslands, flytur frumsamið tónverk þar sem taktur ólíkra tungumála kallast á við sýninguna Mál í mótun. Í verkinu flæða tungumálin hvert inn í annað og verða partur af tónverkinu sem virkar eins og síbreytileg innsetning án skýrs ramma um upphaf og endi. 

Sunnudaginn 17. mars

  • •    12.15-14.00 í stofum 007 og 008 – Fyrirlestur og fjölskyldusmiðja um Loftskeytastöðina og mors-samskipti. Prófessorarnir Kristinn Andersen og Sæmundur Þorsteinsson, sem báðir eru í félaginu Íslenskir radíóamatörar, fræða okkur um mors-skeyti. Í stofunni við hliðina á verður listakonan Anna Júlía Friðbjörnsdóttir með fjölskylduvinnustofu þar sem unnið verður með mors-skeyti á skapandi hátt. 
  • •    14.00-15.30 í Auðarsal – Tíu valinkunnir einstaklingar heiðra Vigdísi með örfyrirlestrum sem lýsa lífi hennar og störfum á ólíkan hátt. Þetta eru þau Páll Valsson, Guðfinnur Guðjón Sigurvinsson, Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir, Andri Snær Magnason, Heimir Már Pétursson, Guðrún Pálsdóttir, Auður Hauksdóttir, Ásdís Rósa Magnúsdóttir, Aþena Vigdís Eggertsdóttir, Harpa Þórsdóttir, Irma Jóhanna Erlingsdóttir og Kolbrún Halldórsdóttir. Brynhildur Guðjónsdóttir, leikhússtjóri Borgarleikhússins, stýrir. Þessi viðburður verður einnig í streymi.

Sýningarnar Mál í mótun í Veröld og Gildi orðanna á neðri hæð Loftskeytastöðvarinnar verða einnig opnar.

Kaffihúsið Súpustöðin í Veröld verður einnig opin.

Eftir helgina verður sýningin opin miðvikudaga til laugardaga frá kl. 13-17 og fyrst um sinn verður ókeypis inn á hana.

Vigdís Finnbogadóttir.