Skip to main content
26. nóvember 2020

Lærum af list

""

„Verkefnið er ætlað kennurum og öðru fagfólki í menntakerfinu sem er að leita eftir heildrænni og skapandi kennsluaðferð til að örva sköpunarhæfileika nemenda sinna. Æðri menntastofnanir sem styðja listræna nálgun verða að vera opnar fyrir fjölbreyttari og skapandi leiðum. Einnig væntum við þess að listamenn geti þjálfað hæfni sína í að nálgast hversdagslegar aðstæður út frá listrænu viðhorfi. Þegar niðurstöðurnar liggja fyrir verða útbúin námsgögn til notkunnar í æðri menntastofnunum víðs vegar um Evrópu,“ segir Rannveig Björk Þorkelsdóttir, dósent við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hún vinnur ásamt Jónu Guðrúnu Jónsdóttur aðjunkt um þessar mundir að alþjóðlegri rannsókn sem miðar að því að þróa tilraunaramma að kennsluaðferðum sem byggja á listgreinum. Auk Íslands taka sjö önnur Evrópuríki þátt í rannsókninni.

„Rannsóknarhópurinn sem stendur að baki ALL-verkefninu (Artist-Led Learning in Higher Education) vill leggja sitt að mörkum til að auka sköpunarhæfni nemenda, kennara og listamanna innan háskólasamfélagsins. Afurð verkefnisins er tilraunakennsla sem innleidd verður í námsefni menntastofnana í samstarfi við menningarstofnanir. Markmiðið er að ramminn ýti undir þróun nýstárlegra námsgagna sem byggja á listgreinum og samstarfi þátttakenda.“

Rannveig segir að brýnt sé að auka gæði menntunar sem byggir á listum. „Við viljum einbeita okkur að meiri frumleika í verkefnum innan menntakerfisins og nánari samvinnu milli nemenda og listamanna. Enn fremur viljum við stuðla að auknu vægi skapandi menntunar á vinnumarkaði og bættum árangri með því að leggja áherslu á lifandi lærdóm sem byggir á listrænum viðfangsefnum.“

Óheft skapandi námsumhverfi

Háskólar í þátttökulöndunum munu eiga aðild að samstarfinu ásamt öðrum hagsmunaaðilum sem eru sérfróðir í listrænni túlkun, hafa skilning á listrænum aðferðum og beitingu þeirra í æðri menntun. „Verkefnið snýst í stuttu máli um að setja upp ókeypis vinnustofu þar sem ástundaðar eru skipulegar tilraunir á listrænu sviði, þ.e.a.s. skapandi samstarf leiðandi fræðimanna sem einnig búa yfir hagnýtri reynslu á sviði listsköpunar. Vinnustofan er ekki endilega efnisleg bygging heldur félagslegt svæði sem felur í sér óheft skapandi umhverfi. Við slíkar aðstæður skapast svigrúm til að raungera þekkingu en einnig til að gagnrýna, endurskipuleggja og hugsa upp á nýtt,“ lýsir Rannveig og bætir við að aðferðirnar megi að hluta rekja til uppeldisfræði, námshátta og leiðtoga- og fyrirtækjaþjálfunar.

Rannveig starfaði áður sem leiklistarkennari í Háteigsskóla um árabil. „Í gegnum leiklist lærir nemandinn að setja sig í spor annarra og hún stuðlar markvisst að því að styrkja sjálfsmynd hans. Þannig er líklegra að nemandinn taki ákvarðanir sem byggðar eru á eigin skoðunum og tilfinningum frekar en áhrifum frá félögum. Börn hafa sérstaka þörf fyrir að tjá sig í hlutverkaleik og þau hafa líka einstakt lag á að breyta umhverfi sínu í þágu þess hlutverkaleiks sem þau eru í hverju sinni. Rannsóknir sýna fram á eflingu málþroska í gegnum leiklist og nemendur sem eiga við námsörðugleika að stríða gengur alla jafna betur að læra tungumál og auka félagsfærni sína í gegnum leiklist. Þá eykst gjarnan skilningur nemenda á efni sem unnið er með þegar aðferðir leiklistar eru notaðar. “

Rannsóknarhópurinn áætllar að niðurstöður liggi fyrir á næsta ári. „Við munum dreifa sem víðast þróuðu námsefni með aðstoð opins hugbúnaðar og sýndarumhverfis. Við viljum tryggja að þátttakendur finni merkingarbæran samhljóm um leið og aðferðirnar  verði þeim hvatning til að nýta þennan farveg í skólastarfi,“ segir Rannveig að lokum og bætir við að verkefnið hafi mikla þýðingu fyrir íslenskt skólasamfélag.

Rannveig Björk Þorkelsdóttir, dósent við Menntavísindasvið Háskóla Íslands vinnur ásamt Jónu Guðrúnu Jónsdóttur aðjunkt um þessar mundir að alþjóðlegri rannsókn sem miðar að því að þróa tilraunaramma að kennsluaðferðum sem byggja á listgreinum. Auk Íslands taka sjö önnur Evrópuríki þátt í rannsókninni. MYND/ Kristinn Ingvarsson