Skip to main content
3. nóvember 2021

Kennsluakademía opinberu háskólanna stofnuð – 11 fá inngöngu

Kennsluakademía opinberu háskólanna stofnuð – 11 fá inngöngu - á vefsíðu Háskóla Íslands

Kennsluakademía opinberu háskólanna var stofnuð 1. nóvember um leið og fyrstu meðlimir hennar hlutu inngöngu. Akademían er sett á laggirnar með stuðningi og hvatningu frá mennta- og menningarmálaráðuneyti og aðild allra opinberu háskólanna, Háskóla Íslands, Háskólans á Akureyri, Landbúnaðarháskóla Íslands og Háskólans á Hólum.

Hlutverk Kennsluakademíu opinberu háskólanna er að efla samtal um kennslu og kennsluþróun innan og milli háskóla, styðja við öflugt náms- og kennslusamfélag og hvetja til kennsluþróunar. 

Sæti í Kennsluakademíunni er viðurkenning sem hlotnast þeim kennurum sem hafa sinnt kennslu sinni og kennsluþróun af einstakri fagmennsku og fræðimennsku og eru reiðubúnir að deila reynslu sinni með  samstarfsfólki sínu og fræðasamfélaginu. Fræðimennska náms og kennslu felst í því að beita fræðilegum vinnubrögðum, rannsóknum og ígrundun í kennslu og miðla þeirri reynslu á faglegum og fræðilegum vettvangi svo hún verði öðrum gagnleg. Með tilkomu Kennsluakademíu opinberu háskólanna á Íslandi skapast því nýr vettvangur faglegrar umræðu um kennslu og kennsluþróun.

Kennsluakademían er stofnuð að norrænni fyrirmynd og hefur verið litið til háskóla á borð við Háskólann í Lundi, Háskólann í Bergen, UiT í Noregi og Háskólannn í Helsinki og fleiri við þróun hennar. Kennsluakademían byggist enn fremur á alþjóðlegri áherslu á fræðimennsku í kennslu (e. Scholarship of teaching and learning - SoTL). 

Strangt umsóknarferli fyrir inngöngu

Samhliða formlegri stofnun Kennsluakademíunnar 1. nóvember voru fyrstu kennararnir teknir inn í hana eftir strangt umsóknarferli sem fólst m.a. í vinnustofum með erlendum sérfræðingum og örnámskeiðum. Fjögur viðmið voru höfð til hliðsjónar við inntöku:

  • Nemendamiðuð kennsla
  • Fagþekking – færni til þess að setja fagþekkingu fram í samhengi náms og kennslu
  • Skýr kennsluþróun til framtíðar – fagmennska í kennslu
  • Virk þátttaka í samtali um nám og kennslu

Alþjóðleg matsnefnd, skipuð þremur erlendum sérfræðingum og einum innlendum, lagði mat á umsóknirnar og boðaði umsækjendur eftir atvikum til viðtals. Nefndina skipuðu Thomas Olsson, dósent og sérfræðingur í kennsluþróun við Háskólann í Lundi, Guðrún Geirsdóttir, dósent og deildarstjóri Kennslumiðstöðvar Háskóla Íslands, Oddfrid Terese Kårstad Førland, ráðgjafi og sérfræðingur í kennsluþróun við Háskólann í Bergen, og  Petter Holm, prófessor og deildarstjóri kennslusviðs UiT – The Arctic University of Norway.

Matsnefndin byggði niðurstöður sínar á umsóknum, kennsluferilskrá, ferilskrá, bréfi frá deildarforseta og viðtölum eftir atvikum. Alls bárust 20 umsóknir og af þeim voru 11 talin hafa uppfyllt þau viðmið sem lögð eru til grundvallar inngöngu í Kennsluakademíuna. Þau eru:

Anna Helga Jónsdóttir  Dósent við Raunvísindadeild Háskóla Íslands
Ásdís Helgadóttir Dósent við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild Háskóla Íslands
Benjamín Ragnar Sveinbjörnsson Lektor við Raunvísindadeild Háskóla Íslands
Eva Marín Hlynsdóttir Prófessor við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands
Hjálmtýr Hafsteinsson Dósent við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild Háskóla Íslands
Jessica Faustini Aquino Lektor við Háskólann á Hólum
Margrét Sigrún Sigurðardóttir Dósent við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands
Matthew James Whelpton Prófessor við Mála- og menningardeild Háskóla Íslands
Sean Michael Scully  Aðjúnkt við Háskólann á Akureyri
Thamar Melanie Heijstra   Prófessor við Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild Háskóla Íslands
Tómas Philip Rúnarsson Prófessor við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild Háskóla Íslands

Hópurinn mun á næstu vikum sitja stofnfund þar sem stjórn verður skipuð og verkefni Kennsluakademíunnar ákveðin. Starfsemi akademíunnar verður áfram í mótun þótt markmiðin séu ljós, að efla samtal um kennslu og kennsluþróun innan og milli háskóla, styðja við öflugt náms- og kennslusamfélag og hvetja til kennsluþróunar. 

Áætlað er að opnað verði fyrir umsóknir í Kennsluakademíuna að nýju næsta vor. 

Fleiri myndir myndir frá stofnun Kennsluakademíu opinberu háskólanna

Fyrstu meðlimir Kennsluakademíu opinberu háskólanna. Efsta röð frá vinstri: Tómas Philip Rúnarsson, Hjálmtýr Hafsteinsson og Anna Helga Ólafsdóttir. Miðröð frá vinstri: Thamar Melanie Heijstra, Jessica Faustini Aquino og Benjamín Ragnar Sveinbjörnsson. Fremsta röð frá vinstri: Margrét Sigrún Sigurðardóttir, Ásdís Helgadóttir, Eva Marín Hlynsdóttir og Matthew James Whelpton. Á myndina vantar Sean Michael Scully.