Skip to main content
15. apríl 2020

Jonhard fyrstur til að hljóta Vigdísarverðlaun

Jonhard Mikkelsen

Færeyski málvísindamaðurinn, kennarinn og útgefandinn Jonhard Mikkelsen hlýtur alþjóðleg menningarverðlaun sem kennd eru við Vigdísi Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta Íslands, sem veitt voru í fyrsta sinn í dag, á 90 ára afmælisdegi Vigdísar.

Íslensk stjórnvöld, Háskóli Íslands og Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum ákváðu að efna til verðlaunanna í tilefni af stórafmæli Vigdísar og þess að í vor verða liðin 40 ár frá sögulegu forsetakjöri hennar. Verðlaunin verða veitt árlega einstaklingi sem brotið hefur blað með störfum sínum í þágu menningar og þá einkum tungumála. Tilgangurinn með verðlaununum er að heiðra og vekja athygli á lofsverðu framlagi Vigdísar til tungumála og menningar, en eins og alþjóð veit hafa þessi málefni ætíð verið henni afar hugleikin. Sem velgjörðarsendiherra tungumála hjá UNESCO, Mennta-, menningar- og vísindastofnun Sameinuðu þjóðanna, hefur Vigdís lagt ríka áherslu á að efla tungumál fámennra málsamfélaga og standa þannig vörð um þann menningararf alls mannkyns sem felst í fjölbreytni tungumála.

Fyrsti handafi Vigdísarverðlaunanna, Jonhard Mikkelsen, hlýtur þau fyrir einstakt framlag sitt til að efla og þróa færeyska tungu bæði inn á við og út á við. Jonhard er fæddur í Vestmanna árið 1953 þar sem hann er búsettur ásamt fjölskyldu sinni. Jonhard nam ensku við Árósarháskóla og færeysku við Fróðskaparsetur Færeyja. Hann hefur kennt færeysku á mennta- og háskólastigi, haft með höndum námsstjórn í færeysku fyrir framhaldsskóla, átt sæti í Málráði Færeyja og tekið þátt í blaðaútgáfu, en hann var ritstjóri helgarblaðsins Fregnis á árunum 2001-2004.

Árið 1993 stofnaði hann forlagið Sprotan og frá árinu 2016 hefur hann helgað því krafta sína. Forlagið Sprotin hefur m.a. staðið fyrir útgáfu kennslubóka, fræðsluefnis og þýddra skáldverka. Alls hafa komið út um 400 bækur hjá forlaginu. Þá hefur Jonhard unnið að gerð orðabóka milli færeysku, ensku og dönsku og stuðlað að samningu og þróun fjölda rafrænna tvímála orðabóka, nú síðast milli færeysku og grænlensku. Frábærlega hefur tekist til með að aðlaga orðabækurnar og notkun þeirra að nýjustu tækni. Á vefsvæði Sprotans er nú að finna 20 veforðabækur í opnum aðgangi sem nota má án endurgjalds. Veforðabækurnar eru mikið notaðar bæði af Færeyingum og fólki af öðru þjóðerni. Þær hafa gerbreytt aðgengi útlendinga að færeysku og færeyskra málnotenda að erlendum tungum.   

Með störfum sínum hefur Jonhard Mikkelsen lagt drjúgan skerf til að styrkja færeyska tungu og festa hana í sessi sem lifandi tungumál á tímum alþjóðavæðingar. Verðlaunaupphæðin er sex milljónir íslenskra króna. 

Það var Benedikt Jónsson sendiherra, aðalræðismaður Íslendinga í Færeyjum, sem afhenti Jonhard Mikkelsen fyrstu Vigdísarverðlaunin með þökkum fyrir einstakt framlag hans í þágu tungumálanna. Með því hefur hann stuðlað að fjölbreytni tungumála og menningar, en það er einmitt kjarninn í þeim boðskap sem Vigdís hefur haldið á loft sem velgjörðarsendiherra tungumála hjá UNESCO. Færeyska Kringvarpið tók afhendinguna upp en hún var kunngerð í hátíðardagskrá til heiðurs Vigdísi í Ríkissjónvarpinu á afmælisdaginn

Í úthlutunarnefnd verðlaunanna sátu Guðmundur Hálfdanarson, formaður, tilnefndur af rektor Háskóla Íslands, Auður Hauksdóttir, tilefnd af Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur, og Sveinn Einarsson, tilnefndur af mennta- og menningarmálaráðherra, en Magnús Diðrik Baldursson starfaði með nefndinni.
 

Jonhard Mikkelsen