Skip to main content
21. nóvember 2019

Jón Atli og Kári í hópi áhrifamestu vísindamanna heims

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar og prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands, eru á nýjum lista á vegum hins virta greiningarfyrirtækis Clarivate Analytics yfir áhrifamestu vísindamenn heims sem var birtur fyrr í vikunni. 

Clarivate Analytics hefur undanfarin fimm ár birt slíkan lista og en hann nær til þess eins prósents vísindamanna innan hverrar fræðigreinar sem mest er vitnað til í vísindagreinum sem birtast í alþjóðlegum vísindatímaritum. Listinn byggist á gögnum úr gagnabankanum Web of Science og í ár er tekið mið af tilvitnunum á árabilinu 2008-2018. Listinn í ár nær til um 6.200 vísindamanna á 21 fræðasviði en þess má geta að í hópnum eru 23 Nóbelsverðlaunahafar.

Jón Atli Benediktsson er prófessor í Rafmagns- og tölvuverkfræðideild og hefur starfað við Háskóla Íslands frá árinu 1991. Hann tók við embætti rektors Háskóla Íslands 1. júlí 2015 sem kunnugt er. Jón Atli hefur alla tíð verið afkastamikill í rannsóknum og er höfundur meira en 300 fræðigreina og bókarkafla á sviði rafmagns- og tölvuverkfræði. Hann er í hópi fremstu vísindamanna heims á sviði fjarkönnunar en hún felst í því að taka stafrænar myndir úr flugvélum, drónum og gervitunglum og vinna úr þeim hvers kyns upplýsingar um yfirborð jarðarinnar. Mikið er vitnað til verka Jóns Atla og þá hefur hann fengið margvíslegar viðurkenningar á alþjóðavettvangi og hér heima fyrir rannsóknir sínar.

Kára Stefánsson þarf vart að kynna en hann stofnaði Íslenska erfðagreiningu fyrir rúmum tveimur áratugum og hefur leitt fyrirtækið í fremstu röð í rannsóknum á tengslum erfða og sjúkdóma. Kári hefur verið prófessor við Háskóla Íslands frá árinu 2008. Hann hefur hlotið fjölmargar alþjóðlegar viðurkenningar fyrir störf sín, nú síðast hin alþjóðlegu KFJ -verðlaun frá Ríkissjúkrahúsinu í Kaupmannahöfn sem afhent voru á dögunum.

Við þetta má bæta að Bernharð Örn Pálsson, prófessor við Kaliforníuháskóla í San Diego og gestaprófessor við Háskóla Íslands, er einnig á listanum yfir áhrifamestu vísindamenn heims. Hann er prófessor í líftækni og læknisfræði og hefur m.a. sérhæft sig í svokallaðri kerfislíffræði og beitti sér m.a. fyrir stofnun Kerfislíffræðiseturs við Háskóla Íslands fyrir um áratug.

Lista Clarivate Analytics yfir áhrifamestu vísindamenn heims má nálgast á vef fyrirtækisins.
 

Jón Atli Benediktsson og Kári Stefánsson