Skip to main content
9. janúar 2023

Íslenskt táknmál í Ritinu

Íslenskt táknmál í Ritinu - á vefsíðu Háskóla Íslands

Íslenskt táknmál, ÍTM, er þema síðasta tölublaðs Ritsins, tímarits Hugvísindastofnunar Háskóla Íslands, á nýliðnu ári. ÍTM er eina hefðbundna minnihlutamálið á Íslandi og er fyrsta mál um 2-300 Íslendinga. Það var viðurkennt sem „jafnrétthátt íslensku sem tjáningarform í samskiptum manna í milli“ með lögum árið 2011. Málið er viðkvæmt sökum þess hve jaðarsett það er og líður endurtekið fyrir það að vera minnihlutamál sem litið er á sem hjálpartæki en ekki tungumál og menningararfur.

Innan þemans birtast þrjár ritrýndar greinar og auk þess stutt grein með myndefni um listir. Um sögu og uppruna ÍTM hefur lítið verið vitað hingað til en um það er fjallað í grein Valgerðar Stefánsdóttur, doktorsnema í mannfræði við Félags- og mannvísindadeild. Jóhannes Gísli Jónsson, prófessor við Íslensku- og menningardeild, ber í sinni grein saman táknmál og raddmál og gerir grein fyrir áhrifum miðlunarháttar á tungumál. Rannveig Sverrisdóttir, lektor í táknmálsfræði við Íslensku- og menningardeild, og Kristín Lena Þorvaldsdóttir, forstöðumaður Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra, ræða þingályktunartillögu um málstefnu ÍTM í ljósi málstefnufræða og hvort tillagan geti bætt málumhverfi barna og unnið gegn útrýmingu ÍTM. Þá er í heftinu kafli þar sem fjallað er um döff listir, ýmsa anga listarinnar sem lifir góðu lífi á meðal þeirra sem tala ÍTM. Hér er rafræn útgáfa tímaritsins nýtt til hins ýtrasta og myndbönd sem sýna táknmálsbókmenntir og viðtal við myndlistarmann gerð aðgengileg. Með því að rannsaka, fjalla um, sýna og ekki síst tala ÍTM er von til þess að málið lifi og þróist enn frekar. 

Gestaritstjórar Ritsins eru að þessu sinni þær Rannveig Sverrisdóttir og Valgerður Stefánsdóttir.

Í tölublaðinu er að finna tvær greinar utan þema. Alda Björk Valdimarsdóttir, prófessor í almennri bókmenntafræði við Íslensku- og menningardeild, fjallar um samlíðan sem pólitíska og félagslega stýringu á meðan að Sigurður Kristinsson, prófessor við Hug- og félagsvísindasvið Háskólans á Akureyri, beinir sjónum að sambandi háskóla við lýðræði. 

Forsíðuna prýðir teikning Arnþórs Hreinssonar en um myndlist hans er fjallað í heftinu. Um umbrot sá Helgi Hilmarsson og Dagbjört Guðmundsdóttir um prófarkalestur. Aðalritstjóri Ritsins er Guðrún Steinþórsdóttir.

Smellið hér til að opna Ritið í rafrænu formi.

Rannveig Sverrisdóttir og Valgerður Stefánsdóttir.