Skip to main content
23. mars 2022

Horft úr brúnni – hvar eru konurnar?

Horft úr brúnni – hvar eru konurnar? - á vefsíðu Háskóla Íslands

Þriðjudaginn 22. mars áttu nemendur í námskeiðinu Rekstur í sjávarútvegi stefnumót við lykilaðila í sjávarútvegi. Þetta er í fimmta skipti sem slíkt stefnumót fer fram og var yfirskriftin að þessu sinni Horft úr brúnni – hvar eru konurnar?

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, fagnaði þessu framtaki Viðskiptafræðideildar og skipuleggjanda þess, Ástu Dísar Óladóttur, er hann setti stefnumótið. Jón Atli sagði að ef það væri einhver íslensk atvinnugrein sem er sannarlega á heimsmælikvarða þá væri það sjávarútvegurinn. Hvort sem litið væri til reynslu, arðsemi, nýsköpunar eða sjálfbærni hefðu Íslendingar um nokkurt skeið verið meðal fremstu þjóða. Að hans mati er það ekki tilviljun. Ein af lykilforsendunum er farsælt samstarf atvinnulífsins og Háskólans. Samstarfið byggist á reynslu þeirra sem þekkja rekstur og útgerð annars vegar og sérfræðiþekkingu rannsakenda við Háskóla Íslands hins vegar. Úr þessu samstarfi hafa orðið til fjölmargir spennandi sprotar og margir þessara sprota hafa orðið burðarásar í íslensku atvinnulífi og ekki sér fyrir endann á því.

Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra flutti ávarp og fagnaði því að sérstök áhersla væri lögð á konur í sjávarútvegi á þessu stefnumóti. Í ávarpi sínu kom hún meðal annars inn á þá staðreynd að þrátt fyrir karllæga slagsíðu í sjávarútvegi í gegnum tíðina væru til fjölmargar frásagnir af konum eins og Þuríði formanni sem hefðu sýnt hugdirfsku og útsjónarsemi við sjósókn. Þuríður stundaði sjóinn frá ellefu ára aldri þangað til hún varð 66 ára gömul, jafnan sem formaður á áttæringi og fékk sérstakt leyfi sýslumanns til að mega klæðast „karlmannsfötum.“

Ásta Dís Óladóttir dósent flutti erindið „Horft úr brúnni, hvar eru konurnar?“ og byggði það á rannsókn sem Félag kvenna í sjávarútvegi lét gera í lok árs 2021. Ásta Dís fór yfir stöðu kvenna í sjávarútvegi á heimsvísu enda er sjávarútvegur á Íslandi í harðri alþjóðlegri samkeppni. Af 100 stærstu sjávarútvegsfyrirtækjum heims eru tvö íslensk fyrirtæki og konur eru 4% forstjóra þeirra 100 stærstu. Þetta er svipað hlutfall og hér á landi þar sem konur eru 4% forstjóra 50 stærstu sjávarútvegsfyrirtækja Íslands, en það er lægra hlutfall en gengur og gerist almennt í atvinnulífinu. Það er eins með sjávarútveginn og aðrar atvinnugreinar hér á landi að því minni sem fyrirtækin eru, því líklegra er að konur standi í stafni.

Þá er eins og við mátti búast enn mikill munur á konum og körlum í sjávarútvegi hvað varðar fjölda starfa, ábyrgð í starfi og eignarhald fyrirtækja. Meðal fyrirtækjanna sem tóku þátt í rannsókninni eru það enn þannig hjá 39% þeirra að engin kona er meðal æðstu stjórnenda og hjá rúmlega 28% þeirra er engin kona á meðal eigenda. Konum hefur fjölgað í flestum tegundum starfa í greininni en körlum líka, samkvæmt rannsókninni. Þá hefur þeim vinnustöðum fjölgað þar sem konur eiga 41% eða meira í fyrirtækinu. Líkt og 2016 má sjá að konur eru líklegri til að eiga hlut í og gegna stjórnunarstöðum hjá fjölskyldufyrirtækjum en meirihluti fyrirtækja í sjávarútvegi er í fjölskyldueigu. Fjölgun og aukin áhrif kvenna í greininni endurspeglast einnig í viðhorfum til kvenna í sjávarútvegi. Fleiri telja nú en áður að konur og karlar fái sömu tækifæri til starfsframa og virðast þá skýra kynjamun fremur en áður með því að konur og karlar sækist eftir ólíkum störfum og starfsframa. Það er áhugavert að þetta á sérstaklega við um þá sem eru yngri en 40 ára. Einnig hefur þeim fækkað frá 2016 sem telja að konur ættu að vera fleiri á vinnustaðnum og að þær ættu að hafa meiri áhrif. Áhugavert er að karlar voru fremur á þessari skoðun en konur.
 

Ásta Dís Óladóttir, dósent við Viðskiptafræðideild og skipuleggjandi Stefnumóts við sjávarútveginn, fór í erindi sínu yfir stöðu kvenna í sjávarútvegi en rannsóknir sýna að hlutfall þeirra meðal stjórnenda í greininni er töluvert minna en gengur og gerist almennt í íslensku atvinnulífi. MYND/Kristinn Ingvarsson

Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, ræddi um viðamikil samfélagsleg áhrif sjávarútvegs. Með veiðum í samræmi við vísindalega ráðgjöf og arðsömum atvinnurekstri hefði tekist skila verulegum ábata til samfélagsins. Ljóst væri að títtnefnt veiðigjald væri aðeins eitt púsl í miklu stærri heildarmynd samfélagslegra áhrifa. Nefndi Heiðrún Lind þar fimm þætti sem hún vildi leggja sérstaka áherslu á í því samhengi. Um var að ræða blómlegar fjárfestingar umliðinna ára, verulegan samdrátt í olíunotkun, vel launuð störf á sjó og í fiskvinnslu ef miðað væri við landsmeðaltal, umfangsmiklar skattgreiðslur sem frá greininni koma og mikilvægan sess sjávarútvegs sem aflvaka nýsköpunar og tækni. Þá vék Heiðrún einnig að mikilvægri stöðu sjávarútvegs sem grunnatvinnuvegar. Hann hefði því margfalt meiri efnahagslega þýðingu fyrir hagkerfið en umfang hans gæfi til kynna. Benti Heiðrún Lind á að í rannsóknum Ragnars Árnasonar og Sveins Agnarssonar upp úr síðustu aldamótum var niðurstaðan sú, að margföldunaráhrif sjávarútvegs væru að líkindum þreföld. Í því fælist að milljarðsaukning í framleiðslu í sjávarútvegi leiddi til þriggja milljarða aukningar í landsframleiðslu. Með almennt hagfelldum rekstrarskilyrðum á umliðnum árum, taldi Heiðrún Lind jafnframt að þessi áhrif væru hugsanlega orðin töluvert meiri.

Agnes Guðmundsdóttir, markaðsstjóri Icelandic Asia og formaður Félags kvenna í sjávarútvegi, sagði að margt hefði breyst í sjávarútvegi, sérstaklega frá þeim tíma er skipstjórar kepptust um hver væri helsti aflakóngur tímabilsins. Fiskveiðistjórnunarkerfið hefði verið sett á, meiri meðvitund væri um meðhöndlun og gæði afurða og fjölbreytt sölufyrirtæki hefðu litið dagsins ljós. Mikil samþjöppun hefur verið í greininni og veiðar og vinnsla sífellt að tvinnast meira saman. Vinnsla í dag krefst gæðahráefnis, stöðugs framboðs og hraðs viðbragðstíma við mismunandi pöntunum. Þetta hefur gert það að verkum að stýring veiða hefur færst frá skipstjóranum og yfir til vinnslunnar. Einnig hefur það sýnt sig að gott samtal milli framleiðanda og sölufyrirtækja eru öllum í hag þegar markaðir lokast og ófyrirsjáanlegar aðstæður blossa upp. Stöðug vöruþróun er mikilvæg fyrir framtíðina ásamt því að viðhalda sjálfbærni greinarinnar, en Íslendignar hafi náð frábærum árangri á því sviði og mikilvægt að viðhalda því og efla eftir því sem kröfur markaðarins verða meiri.

Síðasta erindið var í höndum Erlu Óskar Pétursdóttur, framkvæmdastjóra Marine Collagen. Erla ræddi verðmætasköpun úr hliðarafurðum í sjávarútvegi en Marine Collagen er gott dæmi um það. Fyrirtækið hóf starfsemi í ágúst 2020 og framleiddi gelatín og kollagen úr 1.400 tonnum af þorskroði á síðasta ári. Samhliða aukinni nýtingu hefur eftirspurn og verð á roði líka aukist sem hefur komið fyrirtækjum í sjávarútvegi til góða. Hún benti á að það væru mikil tækifæri fólgin í að ná eins miklu af virðiskeðjunni til Íslands og mögulegt er því sérstaða hráefnisins og þá góðu sögu sem það hefur að segja nýtist vel á neytendamarkaði. 

Að erindum loknum var pallborð sem nemendurnir Þorvaldur Birgir Arnarsson og Yan Ping Lee stýrðu og komu fjölmargar áhugaverðar spurningar frá nemendum og öðrum gestum í sal. 

Fleiri myndir frá Stefnumóti við sjávarútveginn má finna hér að neðan.

Ásta Dís Óladóttir, dósent við Viðskiptafræðideild, Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands