Skip to main content
4. júlí 2020

HÍ kemur að nýju rannsókna- og nýsköpunarsetri á Akranesi

aðilar undirrita viljayfirlýsingu

Háskóli Íslands er meðal fjölmargra aðila sem munu koma að uppbyggingu rannsókna- og nýsköpunarseturs og samvinnurýmis sem unnið er að á Breið á Akranesi. Viljayfirlýsing þar að lútandi var undirrituð í vikunni á Akranesi um leið og Akraneskaupstaður og Brim stofnuðu sameiginlegt þróunarfélag í tengslum við verkefnið. 

Þessir tveir aðilar eiga meirihluta lóða og fasteigna á Breið en þar liggja einstök tækifæri til uppbyggingar. Unnið hefur verið að verkefninu frá síðasta hausti og er verndari verkefnisins Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

Markmið þeirra fjölmörgu aðila sem koma að verkefninu er að skapa umhverfi þar sem miðlun ólíkrar þekkingar á sviði tækni, lýðheilsu og umhverfismála muni stuðla að rannsóknum og nýsköpun í fremstu röð sem muni leysa úr ólíkum áskorunum og vandamálum sem að heiminum steðja.

Gert er ráð fyrir áfangaskiptri uppbyggingu til langs tíma þar sem lagt verður upp með uppbyggingu í ferðaþjónustu, heilsu og hátækni. Félaginu er ætlað að efla atvinnutækifæri, nýsköpun og skapandi greinar á svæðinu og þá er gert ráð fyrir nýrri íbúabyggð á Breið.

Í nýsköpunar- og rannsóknasetrinu verður áhersla lögð á þróun og hátækni í tengslum við atvinnulíf á Vesturlandi, á sviði rannsókna, sjávarútvegs, snjalltækni, landbúnaðar, orkufreks iðnaðar, heilbrigðis- og ferðaþjónustu og skapandi greina. Stafrænni smiðju (Fab Lab) verður komið fyrir í húsnæði sem gerir frumkvöðlum kleift að vinna saman að hönnun og útfærslu hugmynda. Þá verður samstarf við lykilatvinnugreinar og öflug fyrirtæki um rannsóknir og nýsköpun í snjallvæðingu í samstarfi við skóla landsins, þar á meðal Háskóla Íslands.

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, undirritaði viljayfirlýsinguna fyrir hönd Háskóla Íslands og hér er hann ásamt Valdísi Fjölnisdóttur, framkvæmdastjóra nýs þróunarfélags um verkefnið á Breið á Akranesi. MYND/Myndsmiðjan

Enn fremur verður komið upp aðstöðu á Breið á Akranesi – aðlaðandi og lifandi samvinnuvinnurými, þar sem heimamenn og aðrir eiga að getað stundað fjarvinnu frá vinnustað að hluta eða öllu leyti. Ráðuneyti og opinberar stofnanir eiga enn fremur að geta nýtt samvinnurými á Breið til að styðja við framkvæmd stefnumarkandi byggðaáætlunar um „Störf án staðsetningar“. 

Auk Akraneskaupstaðar og Brims koma eftirtaldir aðilar að verkefninu: Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið, Álklasinn, Breið Þróunarfélag, Coworking Akranes,  Fasteignafélagið Hús ehf., Faxaflóahafnir, Fjölbrautaskóli Vesturlands, Háskólinn á Bifröst, Háskóli Íslands, Heilbrigðisstofnun Vesturlands, Landbúnaðarháskóli Íslands, Matís, Samtök sveitafélaga á Vesturlandi, Skaginn 3X og Þróunarfélagið á Grundartanga.

Á næstunni verður efnt til hugmyndasamkeppni um nafn á setrinu auk þess sem opinn dagur verður síðar í sumar þar sem öllum gefst kostur á að skoða húsnæðið. 

Fleiri myndir frá undirritun viljayfirlýsingarinnar