Skip to main content
3. apríl 2019

HÍ í hópi þeirra háskóla sem hafa mest samfélagsleg áhrif á heimsvísu

Háskóli Íslands er í sæti 101-200 yfir þá háskóla í heiminum sem hafa mest samfélagsleg og efnhagsleg áhrif út frá sjálfbærnimarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Þetta sýnir nýr listi tímaritsins Times Higher Education, sem nefnist University Impact Rankings og var birtur í fyrsta sinn í dag.

Háskóli Íslands hefur um árabil verið í hópi 300 bestu háskóla heims samkvæmt öðrum lista Times Higher Educaton, sem nefnist World University Rankings. Sá listi tekur einkum til rannsókna, kennslu og áhrifa í alþjóðlegu vísindasamfélagi. Hlutverk háskóla  er hins vegar ekki aðeins að sinna kennslu og rannsóknum heldur er gerð sívaxandi krafa um að þeir efli þau samfélög sem þeir starfa í, m.a. með nýtingu og miðlun þekkingar og nýsköpun í þágu samfélagsins.

Í þessari nýju úttekt nýtir Times Higher Education tiltekna mælikvaða til að meta samfélagsleg og efnahagsleg áhrif háskóla og framlag þeirra til 11 af 17 sjálbærnimarkmiða Sameinuðu þjóðanna. Sjálfbærnimarkmið SÞ gilda fyrir árin 2015-2030 og er þeim ætlað að leiða þjóðir heims í átt að sjálfbærari lifnaðarháttum. Markmiðin snerta m.a. fátækt, fæðuöryggi og hungur, heilsu og vellíðan, jafnrétti kynjanna, aðgengi að vatni og orku, sjálfbæra neyslu og framleiðslu, aðgerðir gegn loftslagsbreytingum, verndun úthafanna og sjálfbæra nýtingu vistkerfa.

Sem fyrr segir er Háskóli Íslands í 101.-200. sæti á þessum nýja lista Times Higher Education, en röðun háskólanna byggist m.a. á frammistöðu þeirra á sviði þriggja sjálfbærnimarkmiða þar sem hver háskóli stendur sterkastur að vígi. Í tilviki Háskóla Íslands eru það markmið sem snerta sjálfbæran hagvöxt og mannsæmandi atvinnu fyrir alla (37. sæti á lista Times Higher Education), góða heilsu og vellíðan (52. sæti)  og kynjajafnrétti (72. sæti). Times Higher Education birtir einnig mat á frammistöðu háskóla með tilliti til einstakra sjálfbærnimarkmiða og auk góðrar frammistöðu samkvæmt ofangreindum markmiðum er skólinn í 51. sæti þegar kemur að sjálfbærri neyslu og framleiðslu, í 95. sæti varðandi innviði og iðnvæðingu og í 101.-200. sæti á sviði sjálfbærnimarkmiða sem stuðla að minni ójöfnuði, öruggari og sjálfbærari borgum, aðgerðum gegn loftslagsbreytingum og friðsælli og réttlátari samfélögum.

„Þetta eru afar ánægjuleg tíðindi fyrir Háskóla Íslands. Heimurinn stendur nú frammi fyrir stærri áskorunum en nokkru sinni fyrr og eru heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna mikilvægur áttaviti til að að meta stöðuna og varða leiðina til að forða mannkyni frá því að lenda í ógöngum. Háskóli Íslands hefur í vaxandi mæli horft til heimsmarkmiðanna sem mælikvarða fyrir starf sitt og mun halda því áfram. Þessi dómur Times Higher Education – að Ísland eigi háskóla sem úr hópi þúsunda æðri menntastofnana er meðal þeirra 100-200 fremstu í heiminum þegar kemur að samfélagslegri og efnahagslegri ábyrgð – er mikilvæg staðfesting og um leið hvatning um að halda áfram á þeirri braut sem mörkuð hefur verið“, segir Jón Atli og bætir við: „Það er þó alveg ljóst að við gerum þetta ekki ein. Stjórnvöld hér á landi gera sér grein fyrir mikilvægi menntunar, rannsókna og nýsköpunar sem gjaldmiðils framtíðar. En betur má ef duga skal og við trúum því og treystum að stjórnvöld geri allt sem í þeirra valdi stendur til að bæta fjármögnun háskólanna, sérstaklega nú þegar blæs á móti í íslensku efnahagslífi.“

Yfirlit yfir áhrifamestu háskóla heims samkvæmt University Impact Rankings er að finna á heimasíðu Times Higher Education.
 

Aðalbygging Háskóla Íslands