Skip to main content
9. október 2020

Helgarkveðja rektors - 9. október

""

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sendi meðfylgjandi orðsendingu til stúdenta og starfsfólks í dag (9. október):

„Þakklæti er mér efst í huga enn á ný vegna seiglu ykkar, kæru nemendur og samstarfsfólk. 

Það er svo langt í frá sjálfgefið að halda starfsemi Háskólans gangandi við þær krefjandi aðstæður sem nú eru uppi. Ég hvet ykkur kæru nemendur til að láta ekki deigan síga heldur halda ótrauð áfram í náminu, horfa á fyrirlestra, sækja tíma og taka þátt í umræðum á netinu – og hikið ekki við að leita eftir aðstoð. Við munum öll leggjast á eitt við að styðja ykkur áfram við þessar flóknu kringumstæður.

Við höfum öll séð þá miklu alvöru sem fylgir heimsfaraldrinum og oft á dag erum við hvött til að gæta að ítrustu sóttvörnum. Það er ekki nema eðlilegt að það setjist að okkur þreyta og kvíði í þessum stöðuga mótbyr en eftir sem áður gildir að núverandi bylgja verður ekki kveðin niður nema með samstilltu átaki okkar allra. Ég biðla því enn til ykkar að vera varkár, halda fjarlægð, nota hlífðargrímurnar og þvo hendur reglulega og rækilega. Engin starfsemi fer fram í húsnæði Háskólans nema fylgt sé ítrustu reglum sóttvarnalæknis hverju sinni. 

Við þær aðstæður sem nú eru uppi er afar mikilvægt að hvert og eitt okkar hugi vel að líkamlegri og andlegri heilsu. Leitið strax eftir stuðningi ef þið finnið til kvíða eða vanlíðanar og styðjið líka aðra eftir bestu getu.

Ég hvet ykkur einnig eindregið til að kynna ykkur afar gagnleg ráð sem sálfræðingar skólans hafa tekið saman.  

Ég hélt fyrr í vikunni upplýsingafund fyrir starfsfólk um mál á döfinni í Háskóla Íslands. Upptöku af fundinum má nálgast hér

Nú, þegar dagarnir styttast hægt og bítandi, verður hver morgunn á einhvern veg svo mikils virði. „Alla þjóð til orku vekur eilíf – fögur morgunsól,“ orti Júlíana Jónsdóttir sem gaf út ljóðabók fyrst íslenskra kvenna. Föngum nú birtuna meðan hennar nýtur við, ekki síst um komandi helgi, kæru nemendur og samstarfsfólk. Haustið skartar enda sínu fegursta og það er mikils virði að hafa náttúruna í sjálfri borginni og allstaðar í útjaðri hennar. 

Njótið helgarinnar. 

Jón Atli Benediktsson, rektor“
 

Frá Aðalbyggingu