Skip to main content
3. október 2018

Hávaxnari plöntur taka yfir hlýnandi heimskautalönd

gróður á hálendi Íslands

Gróður heimskautatúndrunnar hefur einkennst af lágvöxnum jurtum og lyngi. Nú er þetta hins vegar að breytast með hávaxnari tegundum sem dreifast inn á túndruna og aukinni hæð plantna sem fyrir eru. Þetta hefur almennt leitt til hækkunar gróðurs á síðustu áratugum eins og fram kemur í nýrri vísindagrein 130 líffræðinga sem birt er í tímaritinu Nature. Tveir íslenskir vísindamenn tóku þátt í rannsókninni, þau Ingibjörg Svala Jónsdóttir, prófessor í vistfræði við Líf- og umhverfisvísindastofnun Háskóla Íslands, og Borgþór Magnússon, vistfræðingur við Náttúrufræðistofnun Íslands.

„Niðurstöður okkar sýndu að aukin hæð var ekki bundin við örfá svæði heldur eru þetta almenn viðbrögð plantna á túndrusvæðum. Ef hlutdeild hávaxinna plantna heldur áfram að aukast í sama mæli og verið hefur kann hæð gróðurs að aukast um 20 til 60 prósent fyrir lok aldarinnar,” segir fyrsti höfundur greinarinnar, Anne Bjorkman við Senckenberg Biodiversity and Climate Research Centre í Frankfurt í Þýskalandi.

Erfið loftslagsskilyrði á heimskauta- og háfjallatúndru hafa takmarkað gróður þessara svæða við lágvaxnar tegundir. Loftslag heimskautasvæða hlýnar nú mun hraðar en í öðrum lífbeltum jarðar sem gerir hávaxnari tegundum kleift að nema þar land. Jafnframt ná tegundir sem fyrir voru meiri hæð en áður. Niðurstöður greinarinnar byggjast á greiningu umfangsmesta gagnasafns sem til er um plöntur á heimskautasvæðum. Gögnin eru frá meira en 100 rannsóknasvæðum víðs vegar á túndrunni og íslensku þátttakendurnir lögðu til gögn bæði frá Íslandi og Svalbarða. „Rannsóknin sýnir glöggt að hlýnandi loftslag er megindrifkrafur gróðurbreytinganna,“ segir Borgþór Magnússon. 

Rannsóknin tók einnig til breytinga á fleiri eiginleikum plantna en hæð, þar á meðal blaðstærð og næringarefnainnihaldi plantnanna. Þessir eiginleikar sýndu ekki sams konar svörun á rannsóknarsvæðunum heldur tengdust betur við jarðvegsraka en hitastig. Þetta sýnir að það er ekki aðeins hlýnun heldur einnig breytingar í úrkomu sem geta orsakað gróðurbreytingar á heimskautasvæðunum. „Mjög líklegt er að þessar gróðurbreytingar muni hafa áhrif á líffræðilegan fjölbreytileika og starfsemi vistkerfa haldi áfram sem horfir,“ segir Ingibjörg Svala.

Rannsóknin staðfesti enn fremur vel gildi langtíma vöktunarrannsókna og alþjóðlegs samstarfs. Stór hluti gagnasafnsins kemur frá tilraunasvæðum sem voru sett upp á tíunda áratug síðustu aldar sem hluti af Alþjóðlega túndrutilraunanetverkinu ITEX. Þá voru undir forystu Ingibjargar Svölu sett upp tvö slík svæði á Íslandi og tíu árum seinna einnig á Svalbarða. Einnig hefur staðið yfir frá árinu 1997 vöktun á gróðurfari og ástandi beitilands á láglendi og til heiða hér á landi og hefur Borgþór haft umsjón með því verkefni sem unnið er í samstarfi Náttúrufræðistofnunar Íslands, Landgræðslu ríkisins og Landbúnaðarháskóla Íslands. Gögn úr verkefninu voru m.a. nýtt í þessari fjölþjóðlegu rannsókn. „Við teljum mikilvægt næsta skref að afla þekkingar á því hvernig breytt gróðurfar og beit villtra grasbíta á túndrunni og búfjár spilar saman í hlýnandi loftslagi,“ segir Ingibjörg Svala. 

Slóð á greinina í Nature
 

Blóm
Ingibjörg Svala Jónsdóttir og Borgþór Magnússon
Vísindamenn að störfum