Skip to main content
30. ágúst 2021

Hátt í fjörutíu afreksnemar fá styrki við Háskóla Íslands

Hátt í fjörutíu afreksnemar fá styrki við Háskóla Íslands - á vefsíðu Háskóla Íslands

Háskóli Íslands fagnaði upphafi nýs skólaárs með því að veita 37 nýnemum styrki úr Afreks- og hvatningarsjóði skólans við hátíðlega athöfn í dag. Styrkþegarnir koma úr 15 framhaldsskólum víða um land og innritast í hátt í 30 mismunandi námsleiðir.

Úthlutunarathöfnin fór nú fram í Hátíðasal Háskóla Íslands í annað sinn. Viðstaddir voru aðeins styrkþegar, rektor og stjórn sjóðsins en athöfninni var hins vegar streymt á netinu fyrir aðstandendur styrkþega og önnur áhugasöm.

Þetta var í 14. sinn sem styrkjum er úthlutað úr Afreks- og hvatningarsjóði en þeir eru veittir nýnemum sem náð hafa framúrskarandi árangri í námi til stúdentsprófs og jafnframt látið til sín taka á öðrum sviðum, svo sem í félagsstörfum í framhaldsskóla eða listum og íþróttum. Í hópi styrkþega eru einnig nemendur sem hafa sýnt fádæma seiglu og þrautseigju og hafa, þrátt fyrir afar erfiðar aðstæður, staðið sig afar vel í námi. 

Styrkþegarnir koma úr 15 framhaldsskólum víða af landinu og innritast í 28 mismunandi námsleiðir á öllum fimm fræðasviðum Háskóla Íslands. Í hópi styrkþega eru 14 dúxar og semidúxar úr framhaldsskólum landsins á síðustu misserum og árum.

Fyrstu styrkirnir voru veittir úr Afreks- og hvatningarsjóði stúdenta Háskóla Íslands árið 2008 en frá þeim tíma hafa hátt í 400 nýnemar tekið við styrkjum úr sjóðnum. Hver styrkur nemur 375 þúsund krónum og er samanlögð styrkupphæð því nærri 14 milljónir króna.

Styrkhafarnir eru: Aníta Lind Hlynsdóttir, Anna Elísabet Stark, Arnór Daði Rafnsson, Auðun Bergsson, Áróra Friðriksdóttir, Berenika Bernat, Berglind Bjarnadóttir, Bragi Þorvaldsson, Daníel Hreggviðsson, Elín Kolfinna Árnadóttir, Embla Rún Halldórsdóttir, Eva Bryndís Ágústsdóttir, Freydís Xuan Li Hansdóttir, Guðríður Ósk Þórisdóttir, Hafrún Alexia Ægisdóttir, Hilmir Vilberg Arnarsson, Ingibjörg Halla Ólafsdóttir, Ingunn Ósk Grétarsdóttir, Jón Valur Björnsson, Kjartan Óli Ágústsson, Kolbrún Sara Haraldsdóttir, Kristján Bjarni Rossel Indriðason, María Tinna Hauksdóttir, Ragnheiður María Benediktsdóttir, Ragnhildur Björt Björnsdóttir, Ragnhildur Elín Skúladóttir, Rakel María Ellingsen Óttarsdóttir, Rakel Rún Eyjólfsdóttir, Sigrún Meng Ólafardóttir, Sindri Bernholt, Steinunn Kristín Guðnadóttir, Thelma Lind Hinriksdóttir, Tinna Rúnarsdóttir, Tómas Helgi Harðarson, Trausti Lúkas Adamsson, Uloma Lisbet Rós Osuala og Weronika Klaudia Wdowiak.

Styrkirnir úr Afreks- og hvatningarsjóði stúdenta Háskóla Íslands eru veittir með stuðningi Aldarafmælissjóðs Háskóla Íslands og Happdrættis Háskóla Íslands. Stjórn Afreks- og hvatningarsjóðs stúdenta Háskóla Íslands í ár skipa Róbert Haraldsson, prófessor og sviðsstjóri kennslusviðs sem er formaður, Ólafur Pétur Pálsson, prófessor við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild, og Guðbjörg Vilhjálmsdóttir, prófessor við Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild.

Nánari upplýsingar um styrkhafana.
 

Fleiri myndir frá athöfninni

Styrkþegar og fulltrúar þeirra í Hátíðasal ásamt rektor og stjórn sjóðsins.