Skip to main content
19. júní 2020

Hátt í 40 verkefni vísindamanna á sviði samfélagsvirkni fá styrk

Háskóli Íslands hefur veitt 37 styrki sem ætlað er að styðja við virka þátttöku akademískra starfsmanna í samfélaginu í krafti rannsókna þeirra og sérþekkingar. Þetta er í fyrsta sinn sem slíkum styrkjum er úthlutað.

Alls voru 50 milljónir til ráðstöfunar að þessu sinni og af 66 umsóknum sem bárust var unnt að styrkja 37 verkefni. Rúmlega 50% umsókna frá hverju fræðasviða Háskólans hlutu styrk og er kynjahlutfall styrkþega nánast jafnt. Umsóknirnar voru mjög góðar og sýna það blómlega starf sem fram fer í Háskóla Íslands á sviði samfélagsvirkni og nýsköpunar. Verkefnin sem fá styrk að þessu sinni eru afar fjölbreytt og snúast m.a. um ný hlaðvörp og vefsíður, ráðstefnur og námskeið sem nýst geta íslensku samfélagi á ýmsan hátt. 

Styrkirnir miða að því að skapa starfsfólki aukið svigrúm til „samtals við samfélagið“. Náið samstarf við aðila í samfélaginu hefur frá fyrstu tíð verið mikilvægur þáttur í starfsemi skólans og með þessum nýju styrkjum vill Háskólinn efla þann þátt starfseminnar enn frekar. 

Háskóli Íslands þakkar öllum umsækjendum fyrir framlag þeirra til verkefna á sviði samfélagsvirkni. Styrkþegum er óskað hjartanlega til hamingju með styrkinn með von um að hann komi til með að gagnast vel.

Miðað er við að úthluta samfélagsstyrkjum næst í byrjun árs 2021.

Nöfn þeirra sem hlutu styrk er að finna á vef Háskóla Íslands

 

""