Skip to main content
4. nóvember 2021

Háskóli Íslands tekur við formennsku í NUAS

Háskóli Íslands tekur við formennsku í NUAS - á vefsíðu Háskóla Íslands

Guðmundur Ragnar Jónsson, framkvæmdastjóri sameiginlegrar stjórnsýslu hjá Háskóla Íslands, hefur tekið við sem formaður NUAS, samvinnuvettvangs starfsfólks í stjórnsýslu háskóla á Norðurlöndunum, næstu tvö árin. 

NUAS-samtökin eða „Det Nordiska Universitets Administratörs Samarbetet“ voru stofnuð árið 1976 og stóðu í byrjun fyrir einu sameiginlegu málþingi á ári. Starfið hefur hins vegar orðið mun víðtækara með árunum og nú eiga 65 háskólar aðild að samtökunum. Innan þeirra starfa 14 hagsmunahópar sem leggja áherslu á ólíkar hliðar stjórnsýslunnar og virkir félagar innan þeirra eru 125. Hóparnir standa fyrir málþingum, veffyrirlestrum og ráðstefnum sem starfsfólki háskólanna stendur til boða að sækja. 

Markmiðið með samtökunum er að miðla þekkingu innan stjórnsýslu háskólanna, byggja upp tengslanet milli fólks innan sama geira á Norðurlöndunum og stuðla að faglegri þróun starfsfólks í gegnum NUAS-hópastarfið.

NUAS stendur einnig fyrir prógrammi fyrir millistjórnendur í stjórnsýslu þar sem þátttakendur fara á 4-5 námskeið, eitt í hverju landi, í einum af aðildarháskólunum. Í prógramminu er lögð áhersla á hlutverk stjórnsýsluleiðtoga í fræðilegu umhverfi. 

Háskóli Íslands fer með forsæti í samtökunum næstu tvö árin sem þýðir að formaður NUAS og ritari eru starfsmenn HÍ. Formaður NUAS er, eins og áður, sagði Guðmundur Ragnar Jónsson og ritari er Snæfríður Ólafsdóttir.

Frekari upplýsingar um starf samtakanna er að finna á vefsíðu NUAS og Facebook-síðu samtakanna

Guðmundur R. Jónsson