Skip to main content
1. desember 2021

Háskóli Íslands fagnar 80 brautskráðum doktorum á undangengnu ári

Háskóli Íslands fagnar 80 brautskráðum doktorum á undangengnu ári - á vefsíðu Háskóla Íslands

Háskóli Íslands hefur brautskráð 80 doktora á síðustu 12 mánuðum og var þeim fagnað á hinni árlegu Hátíð brautskráðra doktora sem fram fór í Hátíðasal skólans í dag, á fullveldisdaginn. Þetta er næstmesti fjöldi doktora sem skólinn hefur brautskráð á einu ári. Viðstaddur athöfnina var Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands.

Þetta var í tíunda sinn sem hátíðin er haldin en hún féll niður á síðasta ári vegna samkomutakmarkana sem tengdust kórónuveirufaraldrinum. Faraldurinn hafði einnig áhrif á athöfnina í dag þar sem aðeins voru viðstaddir útskrifaðir doktorar á undanliðnum 12 mánuðum, forsetar fræðasviða, rektor og aðstoðarrektor og forseti Íslands. Athöfnin var hins vegar send út í beinu streymi.

Á hátíðinni fengu doktorar, sem brautskráðst hafa á tímabilinu 1. desember 2020 til 1. desember 2021, afhent gullmerki Háskóla Íslands. Þeir koma af öllum fimm fræðasviðum skólans og eru 80 sem fyrr segir, 39 karlar og 41 kona, en árlegt markmið skólans er að brautskrá 70 doktora. Níu doktoranna eru með sameiginlega gráðu frá Háskóla Íslands og erlendum háskóla og þá eru nærri 60 prósent doktoranna með erlent ríkisfang. Það er skýr vottur um vaxandi alþjóðleg áhrif skólans á fjölbreyttum fræðasviðum.

Hefð er fyrir því að forseti Íslands ávarpi brautskráða doktora við athöfnina í Hátíðasal og færði Guðni Th. Jóhannesson doktorunum bæði hamingjuóskir og hvatningarorð í ræðu sinni í dag. Þá flutti Áróra Árnadóttir, doktor í umhverfisfræði, ávarp fyrir hönd nýbrautskráðra doktora.

doktorar

80 doktorar hafa brautskráðst frá Háskóla Íslands á undanliðnum 12 mánuðum.

Hillir undir 1.000 doktorinn frá HÍ

Háskóli Íslands fagnar í ár 110 ára afmæli og 102 ár eru liðin frá því að skólinn brautskráði fyrsta doktorinn. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar og um þessar mundir stunda rúmlega 600 einstaklingar doktorsnám við öll fimm fræðasvið skólans. Tölur frá liðnum árum sýna að rúmlega 970 manns hafa lokið doktorsprófi frá Háskóla Íslands, langflestir á síðasta áratug. Það hillir því undir 1000. brautskráða doktorinn, einungis sex árum eftir að 500. doktorinn varði sína ritgerð. Sýnir þetta vel hve doktorsnámið hefur eflst á stuttum tíma.

Heimsfaraldurinn hefur sannarlega haft áhrif á allt skólastarf í Háskóla Íslands, m.a. á doktorsnám og doktorsvarnir. „Með aðdáunarverðum hætti hafa doktorsnemendur skólans þó helgað sig af krafti rannsóknum sínum og störfum þrátt fyrir áskoranir sem hafa fylgt kórónuveirufaraldrinum sem geisað hefur í samfélaginu hátt í tvö ár,“ segja þau Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, aðstoðarrektor vísinda, í ávarpi sínu í bæklingi sem gefinn er út í tilefni hátíðarinnar og hefur að geyma yfirlit yfir brautskráða doktora á tímabilinu 1. desember 2020 til 1. desember 2021.

„Öflugt doktorsnám við Háskóla Íslands hefur styrkt stöðu hans sem alþjóðlega viðurkennds rannsóknaháskóla. Doktorsnám við skólann er eftirsótt af innlendum og erlendum nemendum og verkefnin eru iðulega unnin í alþjóðlegu samstarfi. Um leið gerir það skólanum kleift að sinna hlutverki sínu sem stærsti og víðtækasti háskóli þjóðarinnar, háskóli sem brautskráir nemendur á öllum námsstigum á 5 fræðasviðum og í 26 deildum,“ segja rektor og aðstoðarrektor enn fremur.

Háskóli Íslands er afar stoltur af þeim glæsilega hópi sem lokið hefur doktorsnámi frá skólanum undanfarna 12 mánuði en hann hefur þegar látið til sín taka á fjölbreyttum vettvangi atvinnu- og þjóðlífs og í störfum um heim allan. Skólinn óskar þeim innilega til hamingju með doktorsgráðuna og allra heilla í lífi og starfi. 

Frá Hátíð bratuskráðra doktora