Skip to main content
18. nóvember 2016

Hagnýtingarverðlaun HÍ fyrir nýtt bólguhemjandi efni

""

Nýtt efni sem unnið hefur verið úr sjávarlífveru og hefur sérlega mikil bólguhemjandi áhrif varð hlutskarpast í samkeppni um Hagnýtingarverðlaun Háskóla Íslands sem veitt voru í gær, 17. nóvember. Þá voru tvö önnur verkefni verðlaunuð við þetta tækifæri. Annað þeirra snýr að þróun gagnvirkrar sýningar um álfa, huldufólk og aðra vætti en hitt að gagnvirku vinnuumhverfi sem ætlað er að einfalda og auðvelda samstarf um þróun hugbúnaðar. Samanlögð upphæð verðlaunafjár er 3,5 milljónir króna.

Þetta var í 19. sinn sem Hagnýtingarverðlaun Háskóla Íslands voru veitt en markmið þeirra er að laða fram hagnýtanlegar hugmyndir frá starfsmönnum og nemendum Háskóla Íslands og tengdum stofnunum. Höfundar fjölbreyttra verkefna á afar ólíkum fræðasviðum hafa undanfarin ár hlotið verðlaun í samkeppninni og engin undantekning var á því í ár. 

Alls bárust 19 hugmyndir í samkeppnina frá flestum fræðasviðum skólans. Sérstök dómnefnd fór yfir hugmyndirnar en við mat á þeim horfði hún meðal annars til nýnæmis og frumleika, hversu fljótt væri unnt að hagnýta hugmyndirnar, hvort hagnýtingin styddi við stefnu og starfsemi Háskóla Íslands, hver ávinningur samfélagsins væri af hugmyndinni og hvernig verðlaunafé myndi nýtast við hagnýtingu verkefnisins.

Fyrstu verðlaun, að upphæð tvær milljónir króna, voru veitt til verkefnisins „Bólguhemjandi áhrif efnis upprunnu úr sjávarlífveru“. Jóna Freysdóttir, prófessor við Læknadeild, leiðir verkefnið en að því koma einnig Ingibjörg Harðardóttir, prófessor við Læknadeild, Sesselja Ómarsdóttir, prófessor við Lyfjafræðideild, Xiaxia Di, doktorsnemi við sömu deild, og Jón Þórir Óskarsson, meistaranemi við Læknadeild. 

Teyminu hefur, eftir áralangar rannsóknir og gott samstarf, tekist að einangra hreint efni úr sjávarlífveru sem hefur mikil bólguhemjandi áhrif.  Stöðugt er verið að leita nýrra leiða til að hemja bólgu og framþróun bólgutengdra sjúkdóma eins og hjarta- og æðasjúkdóma, liðagigtar, krabbameins og Alzheimer-sjúkdóms. Flest lyf sem til eru á markaði og draga úr bólgum hafa víðtæk áhrif á ónæmiskerfið auk þess sem þau hafa ýmsar aukaverkanir. Efninu sem teymið hefur einangrað hefur ekki verið lýst áður og virðist það sérlega áhrifaríkt í að bæla bólgusvar.  

Dómnefndin telur verkefnið vera afar gott dæmi um þá framúrskarandi rannsóknarvinnu sem á sér stað innan Háskóla Íslands og möguleikana sem skapast þegar færir vísindamenn sameina þekkingu sína og starfa saman að skýrum markmiðum. Miklar líkur sé á að niðurstöður verkefnisins verði hagnýttar samfélaginu til góða.

Önnur verðlaun, að upphæð ein milljón króna, komu í hlut aðstandenda verkefnisins „Huliðsheimar – gagnvirk upplifunarsýning um álfa, huldufólk og aðra vætti“. Fyrirtækið Jaðarmiðlun ehf. er á bak við verkefnið en að því standa Ólöf Magnúsdóttir, Svanhvít Tryggvadóttir, Sólrún Ingvadóttir og Kristín Mjöll Jakobsdóttir. Þær eru allar meistaranemar í hagnýtri menningarmiðlun við Sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands, með bakgrunn í þjóðfræði, félagsfræði og tónlist. 

Huliðsheimar byggist á fræðilegum rannsóknum á þjóðsögum um álfa, huldufólk og aðra vætti. Sögnunum er gefið líf með aðstoð nýjustu tækni á sviði sýndarveruleika í sýningarrými þar sem skynfærunum er ögrað. Aðstandendur Huliðsheima telja að með því að blanda saman nýjustu tækni og fornum þjóðsögum megi skapa stórbrotinn heim sem hægt er að fræðast um í gegnum upplifun. 

Dómnefndin telur verkefnið vera spennandi og glæsilegt dæmi um hvernig hægt er að hagnýta efnivið og góðar rannsóknir sem stundaðar eru innan Háskólans og miðla þeim með nýstárlegum hætti með nútímatækni. Verkefnið stuðli enn fremur að því að varðveita athyglisverðan og verðmætan menningararf þjóðarinnar. 

Þriðju verðlaun, að upphæð 500 þúsund krónur, voru veitt fyrir verkefnið „Augmented Interaction Room (AugIR)“.  Að verkefninu standa Matthias Book, dósent við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild Háskóla Íslands,  og Volker Gruhn, Simon Grapenthin, Markus Kleffmann og Erik Hebisch.

Verkefnið snýst um að einfalda og auðvelda samstarf um þróun hugbúnaðar. Það getur verið erfitt að sjá fyrir þau vandamál sem upp koma í ferlinu og að samræma skilning annars vegar þeirra sem koma til með að nota hugbúnaðinn og hins vegar hugbúnaðarsérfræðinganna sem þróa hann. Jafnframt því sem stuðningur við hönnun hugbúnaðar er að aukast með innleiðingu þrautreyndra ferla er hugbúnaðurinn sjálfur sífellt að verða flóknari. Oft koma vandamál ekki í ljós fyrr en á síðari stigum þróunarinnar en það felur í sér meiri kostnað og vinnu en ef þau hefðu verið greind fyrr. Verkefnið felur í sér hönnun á vinnuumhverfi og herbergi sem í eru gagnvirkar tússtöflur. Hver og ein þeirra býr yfir upplýsingum sem tengjast sínu sjónarhorni á hugbúnaðinn. Töflurnar eru svo allar tengdar saman og séu gerðar breytingar á einhverjum þáttum í einu sjónarhorni sést um leið hvaða áhrif þær hafa á önnur sjónarhorn á hinum töflunum. Með þessum hætti má greina snemma vandamál og ósamræmi sem annars væri hætta á að fólki sæist yfir. 

Dómnefndin telur verkefnið hafa mikla möguleika og eiga mikið erindi í hugbúnaðarþróun sem er vaxandi, hérlendis sem erlendis. Verkefnið sé auk þess langt á veg komið, byggt á rannsóknum og þekkingu, faglega unnið og með skýra fyrirhugaða framvindu. 

Hagnýtingarverðlaun Háskóla Íslands er samstarfsverkefni Háskóla Íslands, fyrirtækisins Árnason|Faktor og Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands en síðastnefndu aðilarnir leggja sigurvegurum m.a. til sérfræðiráðgjöf auk þess að taka þátt í dómnefndarstörfum.

Verðlaunahafar ásamt Jóni Atla Benediktssyni, rektor Háskóla Íslands, og Kristni Andersen, formanni dómnefndar Hagnýtingarverðlaunanna.