Skip to main content
20. apríl 2022

Gleðilegt sumar

Gleðilegt sumar - á vefsíðu Háskóla Íslands

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sendi meðfylgjandi tilkynningu á starfsfólk og stúdenta í dag (20. apríl 2022):

„Kæru nemendur og samstarfsfólk.

Undanfarna daga höfum við séð hvernig veturinn víkur undan vorinu og fyrstu fíflarnir stinga upp kolli á sama tíma og grasið grænkar undir veggjum húsanna sem snúa í sólarátt. Í dag er enda síðasti dagur vetrar og fyrr en varir verður landið í sumarsins algræna skrúði eins og Margrét Jónsdóttir orti í lofgjörð sinni til lands og tungu. Margrét nam í Kennaraskóla Íslands og lauk þaðan kennaraprófi árið 1926. Hún tilheyrir því þeim stóra hópi sem hefur aflað sér menntunar til að hafa jákvæð áhrif á íslenskt samfélag.

Þótt Háskóli Íslands sé opinn og alþjóðlegur er það skylda hans að standa vörð um íslenska tungu sem Margrét kallaði hinn dýrasta arf. Í framtíðarstefnu Háskóla Íslands er lögð áhersla á að efla íslenskuna í heimi örra breytinga. En íslenskan er ekki eina tungumálið sem þarf að styrkja í veröld sem tekur stakkaskiptum með stafrænni tækni. Á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna árið 2019 var áratugurinn 2022-2032 útnefndur alþjóðlegur áratugur frumbyggjatungumála til að vekja athygli á alvarlegri fækkun slíkra tungumála og brýnni þörf á að varðveita þau og efla. Það er því sérstaklega ánægjulegt að á föstudag verður hér í HÍ haldin opnunarhátíð alþjóðlegs áratugar frumbyggjatungumála þar sem m.a. Lilja Dögg Alfreðsdóttur, ráðherra menningar og viðskipta, heldur ávarp og handhafar Vígdísarverðlaunanna taka þátt í pallborðsumræðum. Vigdísarverðlaunin hafa verið veitt árlega frá árinu 2020 einstaklingi sem brotið hefur blað með störfum sínum í þágu menningar og þá einkum tungumála. 

Á föstudag fögnum við líka tíu ára afmæli Lífvísindaseturs Háskóla Íslands sem unnið hefur framúrskarandi frumkvöðlastarf á sviði grunnrannsókna í lífvísindum þvert á fræðasvið og einingar HÍ og í náinni samvinnu við aðra háskóla, rannsóknastofnanir og atvinnulíf.

Rannsóknir eru undirstaða framfara enda er þekkingin óbrigðult veganesti inn í framtíðina. Veigamikill liður í starfi Háskóla Íslands er einnig að varpa ljósi á rannsóknirnar sjálfar og mikilvægi þeirra fyrir samfélag, umhverfi og lífríki. Núna þegar vorar flykkjast farfuglarnir heim og stór hluti af íslenska sumrinu er fólginn í því að hlýða á fuglasönginn í mónum eða í trjánum í borgarlandinu. Í stefnu Háskólans, HÍ26, er sérstök áhersla á heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna þar sem sjónum er meðal annars beint að glímunni við loftslagsvána. Vísindamenn Háskóla Íslands hafa sýnt fram á að hegðun fugla hefur breyst í kjölfar loftslagssviptinga. Rannsóknir á fuglum eru mikilvægar því þær veita okkur ekki aðeins upplýsingar um ástand einstakra stofna heldur er afkoma fugla jafnframt áviti á stöðu og þróun heilla vistkerfa. Á laugardag býður Háskóli Íslands til fuglaskoðunarferðar í Grafarvogi með Ferðafélagi Íslands og verður þá hægt að fræðast um fjölda þeirra fugla sem boða sumar hér á hjara veraldar. Fuglaferðin er á fæðingardegi nóbelsskáldsins Halldórs Laxness sem orti um betri tíð með blóm í haga, sæta langa sumardaga. Og í því vísukorni kemur fuglasöngurinn við sögu, sem á sér svo ríkan sess í hjörtum okkar Íslendinga. 

Kæru nemendur og samstarfsfólk. Þetta misseri hefur verið okkur flestum flókið og stundum þungt en seigla ykkar allra hefur skilað miklu. Nú líður að lokum kennslu á þessu misseri og við tekur undirbúningur prófa og vinna við fjölbreytt lokaverkefni. Þetta er tími uppskerunnar. Ég óska ykkur öllum velgengni í þeim mikilvægu verkefnum sem fara í hönd. Álagið er sannarlega mikið en gleymum samt ekki að njóta sem best við getum alls þess sem vorið býður með ljósi og litum. Lítum andartak upp úr bókunum og finnum að birtan er í stöðugri sókn enda er vornóttin albjört sem dagur eins og Margrét Jónsdóttir orti.

Gleðilegt sumar.

Jón Atli Benediktsson, rektor“
 

Maður á hjóli í Vatnsmýri