Skip to main content
15. nóvember 2021

Fylgist með áhugaverðum erindum á Aurora-ráðstefnu á Spáni 

Fylgist með áhugaverðum erindum á Aurora-ráðstefnu á Spáni  - á vefsíðu Háskóla Íslands

Fulltrúar Aurora-háskóla halda til Tarragona á Spáni dagana 16.-17. nóvember til að taka þátt í ráðstefnunni Aurora Autumn Biannual. Ráðstefnan er haldin tvisvar á ári og skipuleggur University of Rovira i Virgili ráðstefnuna að þessu sinni.

Markmið ráðstefnunnar er að skapa tækifæri fyrir starfsfólk og nemendur sem vinna að því að byggja upp Aurora-samstarfið til að ræða saman og læra hvert af öðru. Ráðstefnan er einnig mikilvægur vettvangur til að móta áfram sameiginlega sýn háskólanna á það hvernig megi auka gæði og samfélagsleg áhrif náms, rannsókna og nýsköpunar. Ein lykilspurning sem verður til umræðu á ráðstefnunni er „hvað á að einkenna útskrifaða Aurora-nemendur?“.

Þá munu fulltrúar háskólanna meðal annars kynna Aurora-hæfnirammann og tæki sem styðja við árangursríka alþjóðavæðingu háskóla, s.s. SUCTI-þjálfunarverkefnið og BEVI-mælingar til að meta áhrif alþjóðlegs náms á viðhorf og gildismat nemenda. Einnig mun rannsókna- og nýsköpunarverkefni Aurora, sem HÍ stýrir, vera formlega hleypt af stokkunum. 

Nemendur munu jafnframt gera grein fyrir sinni sýn á framtíð háskólanáms og kynna tillögur að lausnum fyrir háskóla til að tryggja að allir nemendur fái alþjóðlega reynslu sem hluta námi sínu. Lausnirnar mun hópur nemenda frá HÍ hanna ásamt nemendum frá öðrum Aurora-háskólum á Aurora Student Design Jam sem fer einnig fram í Tarragona frá 13.-15. nóvember. 

Nánari upplýsingar má nálgast í dagskrá ráðstefnunnar.

Öll áhugasöm geta fylgst með kynningum og umræðum á opnum erindum í beinu streymi frá Spáni hér. 
 

Bygging University of Rovira i Virgili