Skip to main content
14. mars 2019

Finnur Dellsén hlýtur norræn fræðaverðlaun

Finnur Dellsén, dósent í heimspeki við Háskóla Íslands, hlýtur Nils Klim verðlaunin fyrir rannsóknir sínar á þekkingarfræði og vísindaheimspeki, fyrstur Íslendinga. Tilkynnt var um þetta í dag en verðlaunin eru veitt árlega norrænum fræðimanni yngri en 35 ára.

Verðlaunin eru 500.000 norskar krónur (sem samsvarar um sjö milljónum íslenskra króna) og eru veitt fyrir framúrskarandi rannsóknir á sviði hugvísinda, félagsvísinda, lögfræði og guðfræði. Nils Klim-verðlaunin heyra undir Holberg-verðlaunin sem eru í umsjá Háskólans í Björgvin fyrir hönd norska menntamálaráðuneytisins. Finnur mun taka við verðlaununum við athöfn í hátíðasal Háskólans í Björgvin þann 5. júní.

Flóknar spurningar verða einfaldari
Finnur Dellsén er dósent í heimspeki við Háskóla Íslands. Hann gegnir einnig hlutastarfi sem dósent II við Háskólann í Innlöndum í Noregi. Finnur hefur í rannsóknum sínum lagt höfuðáherslu á þekkingarfræði og vísindaheimspeki.
Tone Sverdrup, formaður Nils Klim nefndarinnar, segir Finn vera framúrskarandi og frumlegan heimspeking. „Þrátt fyrir ungan aldur er hann í fremstu röð á sínu sviði með fjölda fræðigreina í þekktum, alþjóðlegum tímaritum,“ segir hún. „Finnur fjallar um mjög flókin heimspekileg viðfangsefni á skýran og greinargóðan hátt. Hann er nákvæmur bæði í rökgreiningu sinni og eins í mati á öðrum útskýringum sem til greina koma,“ bendir Tone Sverdrup á. „Nefndin hreifst af því hvernig Finnur leysir úr heimspekilegum álitaefnum með frumleika sínum, innsæi og nákvæmni.“

Að lifa í óvissu
Finnur lauk doktorsprófi árið 2014 frá University of North Carolina í Chapel Hill með ritgerðinni „The Epistemology of Science: Acceptance, Explanation, and Realism“. Hann leitar sérstaklega svara við nokkrum spurningum sem tengjast vísindalegri hluthyggju, m.a. því hvernig maður gerir grein fyrir mismunandi útskýringum á sömu vandamálum, sem allar miða að sama marki, og muninum á því annars vegar að samþykkja vísindalega kenningu og hins vegar að trúa á hana.

„Vísindin snúast um að uppgötva staðreyndir, en það eru ekki allar staðreyndir jafn merkilegar,“ segir Finnur um rannsóknir sínar. „Stundum sýna vísindin okkur hvernig hlutir velta hver á öðrum – til dæmis í orsakasambandi – og það gerir okkur kleift að spá fyrir um, skýra og skilja heiminn í kringum okkur. Í rannsóknum mínum hef ég reynt að sýna hvernig og hvers vegna staðreyndir af þessu tagi eru grundvöllur vísindanna. Og ég hef líka rökstutt að ekki sé hægt að uppgötva staðreyndir af þessu tagi nema við lærum að lifa með þeirri óvissu sem fylgir því að smíða metnaðarfullar kenningar.“

Holberg-verðlaunin veitt fræðimanni sem er fremstur í sinni röð í rannsóknum á kynþáttahatri
Í dag var einnig tilkynnt um það að breski menningarfræðingurinn Paul Gilroy hefði hlotið Holberg-verðlaunin 2019 fyrir sérlega áhrifamiklar rannsóknir m.a. á sviði kynþáttafræða og síðnýlendustefnu. Gilroy er prófessor við King‘s College í London og einn af þekktustu núlifandi fræðimönnum og menntamönnum Bretlands. Rannsóknir hans hafa haft mikla þýðingu fyrir hin ýmsu svið, þ. á m. menningarfræði, gagnrýna kynþáttafræði, félagsfræði, sögu, mannfræði og afró-amerísk fræði.

Holberg-verðlaunin eru alþjóðleg fræðaverðlaun og er verðlaunaféð sex milljónir norskra króna (sem samsvarar 84 milljónum íslenskra króna). Verðlaunin eru veitt á hverju ári framúrskarandi fræðimönnum á sömu sviðum og Nils Klim verðlaunin ná til.
Fréttamyndir, æviágrip, álit dómnefnda og ýmsar staðreyndir um verðlaunin er hægt að finna á www.holbergprisen.no.

Finnur Dellsén