Björg Thorarensen hlýtur fálkaorðuna | Háskóli Íslands Skip to main content
2. janúar 2019

Björg Thorarensen hlýtur fálkaorðuna

""

Björg Thorarensen, prófessor við Lagadeild Háskóla Íslands, var á nýársdag sæmd heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu fyrir framlag sitt til kennslu og rannsókna á sviði lögfræði. Hún var ein fjórtán Íslendinga sem tóku við viðurkenningunni úr hendi Guðna Th. Jóhannessonar, forseta Íslands, við hátíðlega athöfn á Bessastöðum. 

Björg hefur um árabil verið í hópi fremstu fræðimanna landsins á sviði stjórnskipunarréttar, þjóðaréttar og alþjóðlegra mannréttindareglna. Eftir hana liggur mikill fjöldi rita og greina, einkum um rannsóknir á íslensku stjórnarskránni en einnig úr alþjóðlegum rannsóknarverkefnum. Nýjast þeirra er bókin The Nordic Constitutions – A Comparative and Contextual Study sem Hart Publishing í Bretlandi gaf út síðla sumars 2018. Bókin er afrakstur samvinnuverkefnis fræðimanna í stjórnskipunarrétti í sex háskólum á Norðurlöndum og er Björg er annar ritstjóra og meðal höfunda bókarinnar.

Björg lauk kandídatsprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands árið 1991 og meistaraprófi í lögum (LL.M) frá Edinborgarháskóla tveimur árum síðar með áherslu á stjórnskipunarrétt og alþjóðleg mannréttindi. Hún hóf stundakennslu við Lagadeild Háskóla Íslands árið 1994 en hefur frá árinu 2002 gegnt stöðu prófessors við deildina og var m.a. deildarforseti á árunum 2007-2010. Björg hefur enn fremur gegnt fjölbreyttum trúnaðarstörfum fyrir Háskóla Íslands og íslensk stjórnvöld og setið í fjölmörgum og nefndum og ráðum á vegum þeirra.

Háskóli Íslands óskar Björgu innilega til hamingju með viðurkenninguna.
 

Björg Thorarensen