Skip to main content
19. maí 2021

Aurora samfélagið á rafrænni vorráðstefnu

Aurora samfélagið á rafrænni vorráðstefnu  - á vefsíðu Háskóla Íslands

Dagana 20.-21. maí fer fram rafræn ráðstefna á vegum Aurora-samstarfsins, Aurora Spring Biannual. Ráðstefnan er haldin tvisvar á ári og er þetta sú 10. í röðinni. Háskóli Íslands skipuleggur ráðstefnuna að þessu sinni sem er blanda af opnum erindum og málstofum og lokuðum vinnufundum þar sem vinnuhópar innan Aurora koma saman. 

Markmið ráðstefnunnar er að skapa tækifæri fyrir starfsfólk og nemendur Aurora-háskólanna til að kynnast betur verkefnum Aurora, hitta samstarfsfólk, læra hvert af öðru og velta fyrir okkur framtíð Aurora-samstarfsins. 

Jón Atli Benediktsson, rektor HÍ og forseti Aurora-háskólanetsins, opnar ráðstefnuna. Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra flytur ávarp ásamt Adrienn Király frá Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og Paul Boyle, rektor Swansea-háskóla og varaforseta European University Association (EUA). Auk þess taka fjölmargir áhugaverðir fyrirlesarar úr Aurora-háskólasamfélaginu þátt. 

Aurora leggur ríka áherslu á að raddir nemenda hafi áhrif á alla stefnumótun, verkefni og nýsköpun Aurora háskólanna. Emily Reise, alþjóðafulltrúi Stúdentaráðs og ritari nemendafélags Aurora, tekur þátt í pallborðsumræðum um framtíð samstarfs við breska háskóla í kjölfar Brexit og gerir þar grein fyrir sjónarmiðum og framtíðarsýn nemenda.

Nánari upplýsingar um fyrirlesara, erindi og opnar málstofur má finna í dagskrá ráðstefnunnar. Þeir sem eru áhugasamir um Aurora-samstarfið og vilja hlýða á opnu erindin geta skráð sig til þátttöku fram til miðvikudagskvölds 19. maí. 

Ný vefgátt og kortlagning námskeiða
Nýverið var opnuð vefgátt á vefsíðu HÍ um Aurora-samstarfið. Eitt af lykilmarkmiðum Aurora er að efla samfélagslega nýsköpun með menntun og þjálfun nemenda til að gera þeim betur kleift að takast á við áskoranir samtímans. Í þessu felst að fjölga námskeiðum innan háskólans sem tengja nám við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, nota kennsluaðferðir sem þróa markvisst þverfaglega lykilhæfni nemenda, bjóða upp á alþjóðlega reynslu sem hluta af námi eða eru kennd sameiginlega með einum eða fleiri af hinum Aurora-háskólunum. Um þessar mundir er í gangi Aurora könnun sem ætlað er að kortleggja námskeið innan HÍ sem falla að markmiðum Aurora og hjálpar okkur að tengja saman fræðimenn innan Aurora háskólanna sem eru áhugasamir um samstarf á sömu sviðum.