Auðna tengir saman vísindasamfélag og atvinnulíf | Háskóli Íslands Skip to main content
7. desember 2018

Auðna tengir saman vísindasamfélag og atvinnulíf

""

Tækniveitan Auðna – tæknitorg ehf., sem ætlað er að vera gátt fyrir atvinnulífið inn í vísindasamfélagið og farvegur fyrir uppfinningar og niðurstöður rannsókna út í samfélagið, var formlega sett á laggirnar í Sjávarklasanum að Grandagarði í gær að viðstöddu fjölmenni. Tækniveitan mun bæði styrkja innviði nýsköpunar og efla samkeppnishæfni Íslands á alþjóðavettvangi. 

Að Auðnu – tæknitorgi standa allir háskólar landsins og helstu rannsóknastofnanir ásamt atvinnu- og nýsköpunarráðuneyti og mennta-og menningarmálaráðuneyti.

Ísland stendur sig almennt vel í alþjóðlegum samanburði þegar horft er til vísindastarfs og birtinga vísindagreina í alþjóðlega virtum tímaritum og alþjóðasamstarfi. Ísland er hins vegar eftirbátur annarra þjóða þegar kemur að hagnýtingu rannsókna, hugverkavernd og tengslum vísinda við atvinnulífið. Hið öfluga vísindatarf sem fram fer innan háskóla og rannsóknastofnana hefur heldur ekki verið nógu aðgengilegt eða sýnilegt fjárfestum og atvinnulífi hér á landi eða erlendis og mikilvæg tækifæri til verðmæta- og nýsköpunar hafa því forgörðum. Þá hafa bæði innlendar og erlendar úttektir bent á skort á faglegri tækniyfirfærslu sem einn veikasta hlekkinn í nýsköpunarumhverfinu hér á landi en slíkt veikir samkeppnishæfni Íslands og heldur aftur af þróun þekkingarsamfélagsins hér á landi.

Með stofnun Auðnu – tæknitorgs er brugðist við þessu og mun félagið sinna tækni- og þekkingaryfirfærslu úr vísindasamfélaginu í hendur þeirra sem skapa úr þeim verðmæti fyrir samfélagið: frumkvöðla, fjárfesta og atvinnulífs. Tækniveitur sem þessa er víða að finna við háskóla og rannsóknastofnanir erlendis en Auðna – tæknitorg er einstök að því leyti að hún sinnir heilu landi.

Tákn Auðnu - tæknitorgs byggist á rúninni Óss sem er rún Óðins og stendur fyrir visku, uppsprettu, tengsl, tilurð, sköpun og árósa þar sem ferskvatn mætir hafinu. Allt á þetta vel við fyrifhugaða starfsemi Auðnu sem tengir vísindin við atvinnulífið, fjárfesta og samfélagið og stuðlar þannig að nýsköpun. 

Auðna – tæknitorg verður til húsa í Sjávarklasanum við Grandagarð 16 og á stofnfundi tækniveitunnar sem fram fór þar í gær kom saman stór hópur aðstandenda verkefnisins. Þar tengdi Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ráðherra nýsköpunar, iðnaðar og ferðamála, saman vísindin og atvinnulífið með táknrænum hætti en í stað þess að klippa á borða eins og oft tíðkast batt hún saman borða milli fulltrúa vísindastofnana og atvinnulífs.

Framkvæmdastjóri undirbúningsfélags Auðnu - tæknitorgs er Einar Mäntylä. Hann segir atvinnulíf og fjárfesta hafa kallað eftir brú á milli vísinda og atvinnulífs og með samhentu átaki stórs hóps sé brúin nú að verða að veruleika. „Auðna verður gátt fyrir atvinnulífið inn í vísindasamfélagið og farvegur fyrir uppfinningar og niðurstöður rannsókna út í samfélagið. Markmiðið er aukin verðmætasköpun með hjálp vísindanna og efling þekkingarsamfélags á Íslandi. Því er óhætt að segja að með stofnun Auðnu – tæknitorgs sé bókvitinu komið kyrfilega í askana,“ segir Einar.

Fleiri myndir frá stofnun Auðnu - tæknitorgs

Við stofnun Auðnu - tæknitorgs í Sjávarklasanum í gær tengdi Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ráðherra nýsköpunar, iðnaðar og ferðamála, saman vísindin og atvinnulífið með táknrænum hætti en í stað þess að klippa á borða eins og oft tíðkast batt hún saman borða milli fulltrúa vísindastofnana og atvinnulífs. MYND/Kristinn Ingvarsson