Skip to main content
16. nóvember 2022

Algjör negla á sjávarútvegsráðstefnunni

Algjör negla á sjávarútvegsráðstefnunni - á vefsíðu Háskóla Íslands

Ásta Dís Óladóttir, dósent við Viðskiptafræðideild, hélt opnunarerindið á sjávarútvegsráðstefnunni í ár sem að þessu sinni var tileinkuð konum í sjávarútvegi og bar yfirskriftina „Konur eru líka í sjávarútvegi“.

Erindi Ástu Dísar „19-0: Hvar eru konurnar í sjávarútvegi?“ vakti mikla athygli á ráðstefnunni en þar fór hún yfir stöðu kvenna í greininni og nýkjörna stjórn Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, sem nú er skipuð 19 körlum. Engin kona ætti sæti í stjórn samtakanna þrátt fyrir að sýn og reynsla kvenna gæti mögulega haft mikil áhrif á hagsmunamál samtakanna, sem eru m.a. að efla ímynd atvinnugreinarinnar, stuðla að hagkvæmni, styðja við nýsköpun og menntun, taka þátt í alþjóðastarfi og styrkja samkeppnisstöðu Íslands, svo eitthvað sé nefnt. 

Ásta Dís hóf erindið sitt á umfjöllun um stöðu kynjanna í samfélaginu almennt og hvernig Alþjóðaefnahagsráðið hefði hrósað Islendingum fyrir að hafa þrettánda árið í röð verið í efsta sæti þegar kemur að því að loka því kynjabili sem ríkir í samfélaginu. Líkt og Ásta Dís nefndi er það ekki vegna þess hversu margar konur eru í forsvari fyrir fyrirtæki á almennum markaði heldur vegna annarra þátta, m.a. menntunarstigs kvenna, atvinnuþátttöku og fjölda kvenna í opinberum stöðum og pólitík. 

Asta dis

Óbreytt staða í stjórnendastöðum innan sjávarútvegsfyrirtækja

Þá fór hún yfir kynjakvarðann í Kauphöllinni og benti á að þrjú skráð félög á markaði hefðu hvorki kvenkynsforstjóra né nokkra konu í framkvæmdastjórn, þar af tvö sjávarútvegsfyrirtæki. Ásta Dís sýndi viðstöddum stöðu kvenna í stóli forstjóra fyrirtækja í sjávarútvegi, en frá árinu 2010 hefur staðan verið eins, þ.e. að konur eru rétt tæplega 11% stjórnenda. Því væri ekki hægt að tala um neina þróun, þetta væri nánast stöðnun. Þegar litið væri til stjórna sjávarútvegsfyrirtækja hefði hlutfall kvenna farið úr 18% árið 2010 í 20% árið 2021, en það væri öll aukningin á rúmum áratug. Þá benti hún á að nær öll stóru sjávarútvegsfyrirtækin uppfylla lög um kynjakvóta en því miður þó ekki öll. 

Hvar eru konurnar?

Ásta Dís fór einnig yfir nokkur atriði úr könnun sem Félag kvenna í sjávarútvegi stóð fyrir í lok árs 2021 og var birt í upphafi árs 2022. Könnunin tók til stöðu kvenna í greininni og viðhorfs til kvenna í sjávarútvegi. Það var Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri sem vann könnunina en Ásta Dís tók þátt í framkvæmd hennar. Í stuttu máli má skipta þátttakendum í könnuninni í tvo flokka: stjórnendur í sjávarútvegsfyrirtækjum og stjórnendur í stoðfyrirtækjum í sjávarútvegi. Undir sjávarútvegsfyrirtæki féllu fyrirtæki í veiðum, vinnslu, aukaafurðum, líftækni, fullvinnslu, fiskeldi og sölu og fiskmarkaðir en til stoðfyrirtækja teljast fyrirtæki í þjónustu, aðföngum og búnaði, þekkingu og innviðum. 

Mikill fjöldi sótti sjávarútvegsráðstefnuna í Hörpu í liðinni viku þar sem staða kvenna í sjávarútvegi var í brennidepli. „Í alveg frábæru erindi sínu á opnunarmálstofu ráðstefnunnar benti Ásta Dís á að árið 2010 voru konur 10,7% framkvæmdastjóra í sjávarútvegsfyrirtækjum. Ellefu árum seinna voru 10,8% framkvæmdastjóra íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja konur. Þetta er einfaldlega ekki í lagi,“ segir Hólmfríður Sveinsdóttir, rektor Háskólans á Hólum og formaður sjávarútvegsráðstefnunnar, sem er hér með Ástu Dís og fleir gestum ráðstefnunnar.

Könnunin var send á stjórnendur í 422 fyrirtækjum og stofnunum og 185 stjórnendur tóku þátt í henni. Var svarhlutfallið því 44%. Skiptast þátttakendur nánast jafnt í flokkana tvo sem nefndir eru að ofan. Langflest fyrirtækin voru á höfuðborgarsvæðinu eða 73, önnur dreifðust nokkuð jafnt um landsbyggðirnar og velta þeirra var frá nokkrum tugum milljóna til nokkurra milljarða. 

Þegar skoðað var í könnuninni hvar konurnar starfa mátti sjá að í rúmlega 65% tilfella voru þær í skrifstofustörfum í fyrirtækjum í sjávarútvegi og tengdum greinum. Þær starfa einnig sem millistjórnendur (47%), í ósérhæfðum störfum (30,4%) og tæp 20% í þjónustu- og sölustörfum. Samkvæmt rannsókninni voru konur framkvæmdastjórar í 24,3% tilfella og æðsti stjórnandi fyrirtækja í 16,6% tilfella. Það er hærra hlutfall en gögn Creditinfo gefa til kynna og Ásta Dís tilgreindi í erindi sínu. 

gestir radstefnunnar

Gestir á sjávarútvegsráðstefnunni í Hörpu.

„Erindið var algjör negla“

Að sögn Hólmfríðar Sveinsdóttur, rektors Háskólans á Hólum og formanns sjávarútvegsráðstefnunnar, var erindi Ástu Dísar „algjör negla“.  Hólmfríður benti á að ráðstefnan hefði ekki verið haldin í þrjú ár vegna COVID-19 og var samdóma álit gesta að einstaklega vel hefði tekist til í ár með viðfangsefni og erindin heilt yfir mjög góð. „Yfirskrift ráðstefnunnar í ár var „Konur eru líka í sjávarútvegi“ og vildum við með því benda á þær fjölmörgu konur sem starfa í sjávarútvegi. En við vildum líka benda á þá skrítnu staðreynd að þrátt fyrir að margar konur starfi í sjávarútvegi þá virðast þær ekki ná upp í stjórnunarstöðurnar,“ segir Hólmfríður. 

„Í alveg frábæru erindi sínu á opnunarmálstofu ráðstefnunnar benti Ásta Dís á að árið 2010 voru konur 10,7% framkvæmdastjóra í sjávarútvegsfyrirtækjum. Ellefu árum seinna voru 10,8% framkvæmdastjóra íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja konur. Þetta er einfaldlega ekki í lagi, ekki frekar en kynjasamsetning stjórnar Samstaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) þar sem 19 karlar sitja og engin kona. En dropinn holar steininn, íslenskur sjávarútvegur er framsækinn atvinnugrein og hefur heldur betur sýnt að þar er hægt að gera betur í nýtingu og umgengni við auðlindirnar, loftlagsmálum og öryggi starfsmanna o.fl. Þeir geta gert betur í jafnréttismálum og munu gera það, öðru trúi ég ekki,“ segir Hólmfríður.

Ásta Dís Óladóttir, dósent við Viðskiptafræðideild, ávarpar gesti sjávarútvegsráðstefnunnar.