Áhugi á auknu samstarfi meðal japanskra háskóla | Háskóli Íslands Skip to main content
29. október 2019

Áhugi á auknu samstarfi meðal japanskra háskóla

Mikill áhugi á auknu samstarfi kom fram á fundum sem Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, átti með rektorum japanskra háskóla þegar hann heimsótti Japan í liðinni viku. Rektor tók enn fremur þátt í málþingi um íslenska tungu og menningu ásamt íslenskum og japönskum fræðimönnum og japönskum íslenskunemum.

Rektor var í fylgdarliði forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessonar, og forsetafrúar, Elizu Reid, sem heimsóttu Japan í síðustu viku í tengslum við krýningarathöfn Naruhito Japanskeisara. 

Hópurinn átti ásamt Elínu Flygering, sendiherra Íslands í Japan, fjölmarga fundi. Þeir voru m.a. með formanni Sasakawa-friðarstofnunarinnar og stjórnanda og varaformanni Norðurlanda-Japans Sasakawa stofnunarinnar en síðarnefnda stofnunin hefur m.a. stutt nýtt starf lektors í japönsku við Háskóla Íslands sem Kristín Ingvarsdóttir gegnir. Hópurinn hitti einnig Eyþór Eyjólfsson, forstjóra Coori-hugbúnaðarfyrirtækisins, sem hefur sérhæft sig í tæknilausnum fyrir tungumálanám og hefur náð afar góðum árangri.

Rektor átti enn fremur fund með rektor Tokai-háskóla, Kiyoshi Yamada, og samstarfsfólki en þau heimsóttu einmitt Háskóla Íslands í maí sl. Mikill áhugi er á auknu samstarfi á milli skólanna. Hið sama má segja um Tokyo Institute of Technology (Tokyo Tech) en þangað fór rektor og kynnti Háskóla Íslands á fundi með Tetsuya Mizumoto, aðstoðarrektor, Takata Jun-Ichi, aðstoðarrektor alþjóðamála, og Toyoka Akitomo, forstöðumanni skrifstofu alþjóðasamskipta. Þess má geta að allmargir nemendur úr Háskóla Íslands hafa sótt framhaldsnám við Tokyo Tech. 

Rektor var einnig með forseta Íslands í för þegar Háskólinn í Tókíó var heimsóttur en þar flutti forsetinn erindi fyrir fullum sal nemenda um smáríki og möguleika þeirra til áhrifa á alþjóðavettvangi. Í þeirri heimsókn fundaði Jón Atli með með rektor skólans, Makoto Gonokami, þar sem fram kom gagnkvæmur vilji til að efla samstarf skólanna. Á myndinni eru ,frá vinstri: Jón Atli Benediktssson, Makoto Gonokami, Guðni Th. Jóhannesson og Elín Flygering.

Heimsókninni lauk síðastliðinn föstudag með mjög vel sóttu málþingi um íslenska tungu og menningu í Waseda-háskóla í Tókíó en sá skóli hefur boðið upp á íslenskukennslu í fjölda ára. Rektor flutti opnunarerindið á málþinginu en auk hans héldu Birna Arnbjörnsdóttir, Ásdís Rósa Magnúsdóttir og Kristín Ingvarsdóttir, sem allar starfa við Mála- og menningardeild Háskóla Íslands, erindi um íslenskt mál og bókmenntir. Þá tók japanskt fræðafólk úr Waseda, Tokai og fleiri háskólum einnig þátt í málþinginu ásamt nemendum sem hafa lagt stund á íslensku, ýmist í Japan eða Háskóla Íslands. Íslenska sendiráðið í Tókíó skipulagði málþingið ásamt Waseda-háskóla. 

Jón Atli fundaði með rektor Waseda, Aiji Tanaka, fyrir málþingið, en þar var rætt um að treysta samstarf skólanna á mörgum sviðum.

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, ásamt þeim Kristínu Ingvarsdóttur, Birnu Arnbjörnsdóttur og Ásdísi Rósu Magnúsdóttur, en þau tóku öll þátt í málþingi í Waseda-háskóla í Tókíó um íslenska tungu og menningu.
Rektor í pontu á málþingi um íslenska tungu og menningu.
Á fundi með fulltrúum Tokai-háskóa en mikill áhugi er á auknu samstarfi milli skólanna.