Skip to main content
24. nóvember 2021

Áfram í hópi háskóla sem búa nemendur best undir atvinnulífið

Áfram í hópi háskóla sem búa nemendur best undir atvinnulífið - á vefsíðu Háskóla Íslands

Háskóli Íslands er áfram á árlegum lista tímaritsins Times Higher Education yfir þá háskóla í heiminum sem þykja skila nemendum hvað best undirbúnum út í atvinnulífið. Aðeins 250 skólar komast á listann og hefur Háskóli Íslands verið sá eini hér á landi sem náð hefur þeim áfanga.

Times Higher Education birtir eins og kunnugt er fjölbreytta lista yfir framúrskarandi háskóla en þeir tengjast m.a. rannsóknum, kennslu og samfélagslegum áhrifum. Listinn sem birtur er nú ber heitið Global Employability University Ranking and Survey (GEURS) og hefur hann verið gefinn út í áratug. 

Listinn byggist á könnun sem franska ráðningarstofan Emerging gerir í samstarfi við þýska markaðsrannsóknafyrirtækið Trendence meðal forsvarsmanna og stjórnenda innan stórra alþjóðlegra fyrirtækja á ýmsum sviðum um allan heim. Könnunin í ár náði til nærri 11.000 svarenda í 22 löndum og en þar var m.a. spurt um þá háskóla sem þátttakendur telja undirbúa nemendur sína best fyrir þátttöku á atvinnumarkaði. Listinn þykir gefa mikilvæga innsýn í hversu vel skólarnir eru tengdir atvinnulífi og hversu vel námið undirbýr nemendur fyrir þátttöku í því. 

Háskóli Íslands er í 164. sæti á listanum í ár en var í 162. sæti í fyrra og 181. sæti árið 2019. 

Háskóli Íslands hefur frá upphafi lagt þunga áhersla á að mennta fólk til áhrifa í samfélagi og atvinnulífi og hefur á undanförnum árum stigið fjölmörg ný skref til að skapa enn fleiri tækifæri fyrir nemendur á ótal sviðum atvinnulífs. Skólinn rekur til að mynda Tengslatorg sem miðar að því að fjölga tækifærum stúdenta til að nýta þekkingu sína og færni úr háskólanámi úti í atvinnulífinu og stuðla að enn frekara samstarfi nemenda og rannsakenda við starfsvettvang, stofnanir og atvinnulíf. Þá hefur skólinn eflt samstarf sitt við þau alþjóðlegu fyrirtæki sem flutt hafa starfsemi sína á Vísindagarða Háskóla Íslands, m.a. með tækifæri nemenda í huga, og auk þess gert fjölmarga samstarfssamninga við bæði fyrirtæki, stofnanir og sveitarfélög þar sem nemendur fá tækifæri til þess að nýta menntun sína. 

Nýjan lista Times Higher Education má nálgast á vef tímaritsins

 

Nemendur við Háskólatorg