Skip to main content

Um Lagadeild

Um Lagadeild - á vefsíðu Háskóla Íslands

Lagaskóli tók til starfa á Íslandi 1. október 1908 eftir rúmlega hálfrar aldar baráttu Íslendinga fyrir því að lagakennsla flyttist frá Danmörku til Íslands. Hann starfaði í 3 ár, kennarar voru 3 og nemendur urðu samtals 15. Enginn brautskráðist þó frá skólanum, þar sem nemendurnir gengu inn í Lagadeild Háskóla Íslands þegar hann var stofnaður árið 1911.

Kennarar Lagaskólans urðu prófessorar við Lagadeildina og fyrstu laganemarnir luku þaðan embættisprófi vorið 1912. Árið 1941 var heiti deildarinnar breytt í Laga- og hagfræðideild (síðar viðskiptadeild) er formleg samvinna þessara deilda hófst. Árið 1962 varð Lagadeild aftur sérstök háskóladeild.

Kennsluhættir

Starfsemi Lagadeildar fór í fyrstu eftir háskólalögunum frá 1909 og reglugerð frá 1912. Námið var ein heild og ein próflota tekin að því loknu, embættispróf í lögum. Árið 1936 urðu töluverðar breytingar á náminu og voru próf þá tvískipt.

Með breytingum á reglugerð árið 1949 voru tekin upp sérstök forpróf í einstökum greinum, en að öðru leyti skiptist námið í fyrri og seinni hluta. Sú skipan hélst að mestu til ársins 1970, þegar gagngerar breytingar urðu á náms- og kennsluháttum í Lagadeild.

Með breytingunum var stigið merkilegt skref í þá átt að gera laganámið fjölbreyttara og nútímalegra og færa það til samræmis við breyttar aðstæður í þjóðfélaginu.

Allt til ársins 1992 byggðist starfsemi Lagadeildar í megindráttum á þessari endurskoðun háskólareglugerðar, þótt á henni væru gerðar breytingar árin 1975, 1979, 1981 og 1987.

Grundvallarbreytingar

Árið 1992 voru gerðar grundvallarbreytingar á námstilhögun í Lagadeild, einkum um kjörnám og hlutaskiptingu náms. Síðan aftur árið 1999, sérstaklega um endurskoðun kjarnanáms, afnám hlutaskiptingar og upptöku einingakerfis.

Haustið 2002 var enn tekin upp breyting á laganáminu, nú með upptöku BA-prófs í lögfræði og framhaldsnámi til embættisprófs, sem jafngildir meistaranámi.

Gilda núna ákvæði háskólareglugerðar nr. 458/2000, með síðari breytingum, um laganámið.