Skip to main content

Uppeldis- og menntunarfræði

Uppeldis- og menntunarfræði

Menntavísindasvið

Uppeldis- og menntunarfræði

BA gráða – 180 einingar

Viðfangsefni BA náms í uppeldis- og menntunarfræði eru til dæmis uppeldi barna og ungmenna, kyn, samskipti, fjölskyldur, samfélag, menntun og menntastofnanir, margbreytileiki, starfsvettvangur og rannsóknaraðferðir félagsvísinda. Námið felur í sér grunnmenntun sem býr fólk undir margvísleg störf á vettvangi svo sem á sviði stuðnings við börn og ungmenni, frístundastarfs, frjálsra félagasamtaka, fræðslustarfa og stjórnsýslu. Námið leggur einnig grunn að fræði- og rannsóknarstörfum.

Fjarnám eða staðnám. Fjarnám felur þó alltaf í sér einhverja mætingu í rauntíma.

Skipulag náms

X

Uppeldishlutverkið: Áskoranir í nútímasamfélagi (UME102G)

Markmið námskeiðsins er að nemendur öðlist grunnþekkingu í því hvað felst í uppeldi barna og ungmenna. Hugmyndir um uppeldi verða skoðaðar í sögulegu og menningarlegu samhengi með því að rýna í gildi og viðmið samfélagsins og áhrif þeirra á uppeldi. Fjallað verður um samspil fjölskyldna og stofnana um uppeldi barna. Rætt verður um heillavænlegt uppeldi og umönnun barna frá fæðingu til 18 ára aldurs. Sérstaklega verður hugað að hlutverki foreldra, margbreytileika fjölskyldna og ólíkum þörfum þeirra. Ræddar eru áskoranir í uppeldi í nútímasamfélagi og þörf á fræðslu og stuðningi við uppalendur. Í námskeiðinu er lögð áhersla á ígrundun nemenda á persónulegri reynslu með það að markmiði að dýpka skilning þeirra á fræðunum.

X

Vinnulag í háskólanámi (MMB101G)

Meginmarkmið námskeiðsins er að veita nemendum grundvallarfærni í fræðilegum vinnubrögðum og undirbúa þá sem best fyrir námið. Fjallað er um fagleg vinnubrögð í háskólanámi og um fræðileg skrif. Kynnt verða meginatriði í skipulagi og frágangi verkefna og ritgerða. Áhersla verður lögð á að þjálfa nemendur í að skrifa fræðilegan texta á góðri íslensku. Nemendur vinna m.a. verkefni þar sem þeir æfa sig í að finna heimildir í gegnum leitarvélar, nota og skrá heimildir á réttan hátt.

X

Inngangur að uppeldis- og menntunarfræði (UME101G)

Gert er ráð fyrir að nemendur taki þetta námskeið á fyrsta ári. Fjallað verður um grunnhugtök og nokkur helstu viðfangsefni uppeldis- og menntunarfræði kynnt. Rætt verður um þróun hennar sem fræði- og starfsgreinar og um sérstöðu hennar og tengsl við aðrar greinar. Kynnt verður ágrip af sögu evrópskra uppeldishugmynda og fjallað um íslenska uppeldis- og skólasögu. Fjallað verður um aðstæður ungs fólks í nútímasamfélagi og ýmis deiluefni í mennta- og uppeldismálum. Gerð verður grein fyrir ólíkum sjónarhornum og hugmyndum um úrlausn.

Námskeiðið er opið staðnemum og fjarnemum. Ekki er mætingaskylda í námskeiðið en nemendur eindregið hvattir til að mæta í umræðutíma. Kennarar útbúa upptökur í hverri viku með umfjöllun og leiðsögn um lesefni og nemendur mæta vikulega í umræðutíma annað hvort á staðnum eða í gegnum fjarfundabúnað. Í þessu námskeiði er fyrirkomulag fyrir fjarnema Fjarnám með virkniskyldu í rauntíma.

X

Samskipti í uppeldis- og fræðslustarfi (UME201G)

Nemar kynnast helstu kenningum og rannsóknum um árangursríka samskiptahætti í uppeldis- og fræðslustörfum á vettvangi fjölskyldna, skóla og annarra stofnana. Fjallað er um vináttu, leik, samskiptahæfni barna og unglinga og áskoranir í samskiptum jafnt innan skóla sem utan. Nemendur kynna sér og vinna verkefni um innlend og erlend samskiptaverkefni sem miða að því að efla félags-, og samskiptahæfni barna og unglinga í fjölmenningarlegu nútímasamfélagi.

Vinnulag:
Kennsla fer fram með fyrirkomulagi vendikennslu sem felst í upptökum frá kennurunum og/eða fyrirlestrum í tímum og umræðum og hópavinnu í tímum. Í þessu námskeiði er fyrirkomulag fyrir fjarnema: Fjarnám með virkniskyldu í rauntíma.

X

Fjölskyldur í nútímasamfélagi (UME202G)

Í námskeiðinu verður fjallað um nýjar kenningar og rannsóknir varðandi fjölskyldur í nútímasamfélögum og fjölskyldan sett í sögulegt samhengi. Áhersla verður lögð á umfjöllun um margbreytileika fjölskyldna, ólíkar fjölskyldugerðir, fjölskyldur minnihlutahópa og aðstæður barna og foreldra í mismunandi fjölskyldugerðum. Þá verður fjallað um fjölskyldustefnu og tengsl fjölskyldulífs og atvinnulífs.

X

Þroskasálfræði: Allt æviskeiðið (ÞRS215G)

Fjallað er um þroska mannsins yfir allt æviskeiðið. Veigamestu kenningum um þroska verða gerð skil, m.a. kenningum um vitrænan þroska, tilfinningaþroska og þróun tilfinningatengsla, kenningum um félagsþroska, þróun sjálfsmyndar og siðferðisvitundar.

Þar sem bæði þroskaþjálfar og uppeldis- og menntunarfræðingar starfa við fjölbreyttar aðstæður er lögð áhersla á umfjöllun um áhrif uppeldis og áhrif félagslegra aðstæðna og menningar á þroska einstaklingsins. Þá verður einkennum hvers æviskeiðs gerð skil og fjallað um helstu breytingar sem eiga sér stað á hverju æviskeiði. 

Kennsla fer fram með fyrirlestrum/hljóðglærum sem verða aðgengilegar í Canvas og í umræðutímum.
Staðnemar sækja jafnan umræðutíma (í rauntíma) og fjarnemar svara yfirleitt umræðuspurningum skriflega á Canvas. Verkefnatímar miða að því að nemendur fái þjálfun í að ræða námsefnið á gagnrýninn hátt, mynda tengsl milli kenninga og vettvangs og efla sjálfstæð vinnubrögð og miðlun. 

X

Aðferðafræði rannsókna í félagsvísindum I (MMB301G)

Markmið námskeiðins er að nemendur fái innsýn í aðferðafræði rannsókna í félagsvísindum. Í námskeiðinu verður fjallað um grundvallarhugtök í þekkingarfræði og vísindaheimspeki. Þá verður lögð áhersla á síðfræði rannsókna og ýmis siðfræðileg atriði sem sérstaklega tengjast rannsóknum og aðferðafræðilegum álitamálum með viðkvæmum hópum. Fjallað verður um helstu rannsóknaraðferðir og rannsóknarferlið kynnt. Nemendur rýna í rannsóknir á sínu fræðsviði í því skyni að auka hæfni þeirra til að nýta sér niðurstöður rannsókna og tileinka sér gagnrýnið hugarfar. 

Í megindlega hluta námskeiðsins er fjallað um meginatriði lýsandi tölfræði og nokkur hugtök úr ályktunartölfræði. Nemendur fá meðal annars heimadæmi í tölfræði. Þá verður sjónum beint að rannsóknum á sviði tómstunda- og félagsmálafræði, uppeldis- og menntunarfræði og þroskaþjálfafræði og þeim aðferðafræðilegu álitamálum í rannsóknum sem upp kunna að koma. 

Í eigindlega hluta námskeiðsins verður fjallað um upphaf og þróun þessarar rannsóknarhefðar og helstu aðferðir innan hennar. Sérstök áhersla verður á tengingu við rannsóknir á sviði fötlunar-, tómstunda- og uppeldisfræða. Þar á meðal verða kynntar aðferðir þátttöku- og samvinnurannsókna en þær hafa á undaförnum árum verið að þróast í rannsóknum með viðkvæmum hópum. 

Vinnulag: Fyrirlestrar, umræður og verklegir tímar. Jafnframt fá nemendur heimaverkefni og dæmi í tölfræði. Þá gera nemendur viðtalskönnun á vettvangi.

X

Félagsfræði uppeldis og menntunar (UME303G)

Viðfangsefni námskeiðsins er félagsfræði uppeldis og menntunar. Helstu kenningarlegu sjónarhorn verða kynnt til sögunnar og skoðuð í ljósi fjölbreyttra viðfangsefna og álitamála á sviði uppeldis og menntunar í gegnum tíðina. Má þar nefna hlutverk og tilgang menntunar, ólíkar áherslur í uppeldi, stofnun skóla og þróun skólakerfis, hlutverk fjölskyldu og samfélags, aðgengi að menntun, nútímavæðingu og einstaklingshyggju, jafnrétti og félagslegan hreyfanleika. Í námskeiðinu verður lögð áhersla á samspil sögulegs sjónarhorns og kenninga um uppeldi og menntun, þar sem sjónum verður beint að sérkennum uppeldis- og menntunar með hliðsjón af samfélagsþróun. Aðaláherslan verður á íslenskt samhengi en með tilliti til almennrar þróunar í nágrannalöndunum.

X

Heimspeki og hugmyndasaga menntunar (UME304G)

Meginmarkmið námskeiðsins er að nemendur verði færir um að taka málefnalega afstöðu til hugmynda og aðferða í kennslu og uppeldi í fortíð og nútíð, og geti tekið þátt í gagnrýninni umræðu um skólamál og gert grein fyrir eigin hugmyndum um menntun og uppeldi.

Viðfangsefni:

Á námskeiðinu verður fjallað um uppeldis- og menntunarhugmyndir allt frá tímum Forn-Grikkja og fram á okkar daga. Áhersluatriði í kennslunni eru eftirfarandi:

1. Maðurinn: Skynsemi, skilningur og siðvit
Fjallað verður um mannskilning á ólíkum tímum. Hvernig hugmyndir hugsuða um eðli mannsins höfðu áhrif á hugmyndir hvers tíma um uppeldi og menntun.

2. Markmið menntunar
Fjallað verður um markmið menntunar og forsendur þessara markmiða á hverjum tíma s.s að tileinka sér dygð, að uppfylla hlutverk sitt í samfélaginu, verða meiri maður, að axla ábyrgð í samfélagi, að verða virkur þátttakandi í lýðræðissamfélagi, að tileinka sér sjálfstæða og gagnrýna hugsun.

3. Frelsi og lýðræði
Fjallað verður um áhrif hugmynda um frelsi og sjálfræði mannsins í lýðræðissamfélagi á hugmyndir um menntun. Sérstaklega verður hugað að áhrifamikilli hugmyndafræði í samtímanum sem lýtur að menntun til lýðræðis, borgaralegri menntun, skóla án aðgreiningar og jafnréttis til náms.

Meðal viðfangsefna námskeiðsins verða þekkingar-, stjórn-, og siðspeki Platons, hugmyndir Rousseau um frelsi og sjálfræði, hugmyndir Kants um skynsemi og upplýsingu og hugmyndir Wollstonecraft um jafnrétti. Einnig verður frelsishugtakið skoðað í ljósi kenninga E. Key, A.S. Neill og P. Freire. Fjallað verður ítarlega um kenningar John Dewey um menntun, gagnrýna hugsun og lýðræði.

X

Aðferðafræði rannsókna II: Megindlegar aðferðir (UME402G)

Inntak / viðfangsefni
Fjallað verður um ólíkar rannsóknarstefnur og tengsl þeirra við uppbyggingu og útfærslu rannsókna. Kynnt verða algeng rannsóknarsnið megindlegra rannsókna, aðferðir við öflun gagna og greiningu þeirra, og fjallað um ritun og framsetningu niðurstaðna.  Nemendur nota tölvuforrit til að reikna algenga tölfræðistuðla og halda utan um og vinna úr gögnum. Sérstök áhersla verður lögð á þjálfun í túlkun matsniðurstaðna.

Vinnulag: Fyrirlestrar, umræður og verkefni. 

X

Aðferðafræði rannsókna II: Eigindlegar aðferðir (UME403G)

Fjallað verður um ólíkar rannsóknarstefnur og tengsl þeirra við uppbyggingu og útfærslu rannsókna. Einnig verður fjallað um siðfræði vísinda með áherslu á hagnýt atriði og um gæðahugtök, s.s. trúverðugleika og ólíka sýn á þessi hugtök. Í námskeiðinu beinist athyglin að eigindlegum aðferðum. Kynnt verða algeng rannsóknarsnið eigindlegra rannsókna, aðferðir við öflun gagna og greiningu þeirra, og fjallað um ritun og framsetningu niðurstaðna. Nemar fá nokkra þjálfun í að beita algengum aðferðum rannsókna m.a. vettvangsathugunum, viðtölum og heimildaathugunum. Þá vinna nemar með öflun, skráningu, flokkun, greiningu og túlkun gagna, og með framsetningu þeirra og gera heildstæða rannsóknaræfingu.

X

Vald og jaðarsetning: hagnýting félagsfræðikenninga (ÞRS214G)

Markmið námskeiðsins er að nemendur læri að þekkja og nota mismunandi félagsfræðilegar kenningar sem tengjast líkamlegu og andlegu atgervi. Farið verður yfir hugtök sem tengjast valdi, til dæmis stigma, valds, öráreitni og ableisma, sem nemendur geta nýtt sér til að greina hvernig normi er viðhaldið og hvernig samfélagslegar skilgreiningar á normi eru til komnar. Þær kenningar sem farið verður í ættu að geta nýst nemendum til þess að átta sig á því hvernig jaðarsetningu hópa er viðhaldið í samfélaginu og hvernig ögun líkama fer fram.

X

Unglingsárin: Áskoranir og tækifæri (UME404G)

Í námskeiðinu er fjallað um áhættuhegðun ungmenna og velferð þeirra. Fjallað er um ýmsa uppeldislega, félagslega og sálfræðilega þætti sem tengjast styrkleikum ungmenna og áskorunum sem þeim mæta. Rætt er um kenningar og rannsóknir á eftirfarandi sviðum í tengslum við unglingsárin: Líffræðilegar og félagslegar breytingar; margvíslegan sálfélagslegan þroska; sjálfsmynd; heilsu og líðan; forvarnir; vímuefnanotkun; skólagöngu; samskipti við fjölskyldu og vini; og framtíðarmarkmið.

Verkefni í námskeiðinu hafa að markmiði að auka þekkingu og skilning nemenda á forvörnum ýmiss konar bæði á og því hvernig megi best styðja ungmenni til sjálfseflingar, heilbrigðs lífstíls og lífsviðhorfa.

Í umræðutímum er lögð er áhersla á að nemendur geti skoðað viðfangsefni frá mörgum hliðum og rökrætt um álitamál.

ATH: Hægt er að taka námskeiðið í fjarnámi. Kennsluinnlegg eru almennt tekin upp og sett inn á námsumsjónarkerfið CANVAS fyrirfram en ef kennsla fer fram í rauntíma þá er hún tekin upp. Vikulega eru umræðutímar (90 mín.) þar sem nemendur geta valið milli þess að koma á staðinn eða vera með á netinu. Hið sama á við þegar ritgerðir eru kynntar einu sinni á önninni þá geta nemendur verið á staðnum eða með á netinu.

X

Fagmennska og siðfræði í starfi uppeldis- og menntunarfræðinga (UME504G)

Meginviðfangsefni námskeiðsins eru umræða um fagmennsku í uppeldis- og menntunarfræði og kynning á starfsvettvangi uppeldis- og menntunarfræðinga. Fjallað verður um fagmennsku bæði út frá sjónarhorni siðfræði og félags- og menntavísinda. Rædd verða hugtök og viðfangsefni tengd mannréttindum, sjálfræði og velferð. Einnig er skoðað hvaða áhrif kröfur um upplýsinga- og leiðbeiningarskyldu, trúnað, persónuvernd og annað sem borgarar mega vænta af almannaþjónustu, geta haft á störf uppeldis- og menntunarfræðinga. Skoðað verður hvað felst í sérhæfðum störfum og á hvern hátt háskólamenntaðir hópar geta gert tilkall til starfa á grundvelli þeirrar þekkingar, leikni og hæfni sem þeir afla sér í tilteknu námi. Fræðileg umræða í námskeiðinu verður tengd við starfsvettvang uppeldis- og menntunarfræðinga með verkefnum sem miða að því að nemendur öðlist hæfni í að fást við margvísleg álitamál sem upp kunna að koma í faglegu starfi. Nemendur heimsækja fimm til sjö stofnanir og fyrirtæki sem verða eins og hægt er valin í samráði við nemendur.

X

Sjálfboðaliðastarf: Verkefni tengd menntun og velferð (UME005M)

Í námskeiðinu er fjallað um sjálfboðaliðastarf og þær félagslegu, menntunarlegu og sálfræðilegu kenningar sem tengdar hafa verið við þessa tegund borgaralegrar þátttöku. Einnig er rætt um hvata að slíkri þátttöku og kynjamun í því sambandi. Loks er fjallað um mikilvæga þætti í skipulagi og uppbyggingu sjálfboðaliðastarfs sem eru til þess fallnir að þátttakendur upplifi tilgang með því að taka þátt og séu líklegri til frekari sjálfboðaliðaþátttöku í framtíðinni. Nemendur munu jafnframt fá tækifæri til að kynnast sjálfboðaliðastarfi af eigin raun og taka þátt í starfi hjá stofnunum og félagasamtökum sem veita fólki aðstoð með félagslegt jafnrétti og velferð að leiðarljósi.

Vinnulag: Fyrirlestrar, umræður og tímaverkefni í fjögur skipti, tvisvar í staðlotu I og tvisvar í staðlotu II. Skyldumæting er í staðlotum. Sjálfboðaliðastarf á vettvangi fer fram í sex skipti í vissan klukkustundafjölda og þarf þátttaka að vera 100%.

X

Hið hæfa foreldri? Orðræður um foreldrahlutverkið (FFU102M)

Í þessu námskeiði verða orðræður um foreldrahlutverkið teknar til skoðunar. Fjallað verður um samfélagslegt samhengi þeirra krafna sem gerðar eru til foreldra, meðal annars um einstaklingsvæðingu foreldrahlutverksins og ákafa mæðrun. Til skoðunar verða þær kröfur sem eru gerðar til foreldra í dag svo sem skólaval, tómstundaval, samskipti heimilda og skóla/tómstunda, heimanám, matarræði, skjátímastjórnun, örvun, brjóstagjöf og kröfuna um að vera upplýst og meðvitað foreldri. Skoðað verður í gagnrýnu ljósi hvaðan þessar kröfur koma, hvaða áhrif þær hafa á foreldra og þær settar í samhengi við nýfrjálshyggju, markaðsvæðingu og orðræðu frá sérfræðingum. Ríkjandi menntastraumar gera ráð fyrir foreldrum sem eins konar „neytendum“ á „menntamarkaði“ og því er skólaval og –þátttaka á menntavettvangi vaxandi rannsóknarsvið í skóla- og uppeldisrannsóknum. Lesnar verða erlendar og íslenskar rannsóknir um foreldrahlutverkið og hvernig forréttindi og jaðarsetning mótar möguleika foreldra til að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru. Áhersla verður lögð á að skoða sérstaklega þá hópa fólks sem hafa fengið stöðu „hæfra“ og „vanhæfra“ foreldra og tengja við kenningar um kyn, stétt, uppruna, fötlun, kynhneigð og kynvitund. Nemendur fá innsýn inn í foreldrarannsóknir á sviði gagnrýnnar félagsfræði, félagssálfræði, menntunarfræði og kenninga um vald og jaðarsetningu.

X

Inngangur að foreldrafræðslu og uppeldisráðgjöf (FFU101M)

Viðfangsefni
Markmið námskeiðsins er að nemendur kynnist helstu kenningum og rannsóknum um uppeldi barna og undirbúi sig undir að geta frætt foreldra um þær aðferðir sem best hafa reynst. Fjallað verður um efnið á breiðum grunni, þannig að nemar fái sem víðasta sýn á uppeldishlutverkið og aðferðir til að sinna því sem best.

Vinnulag
Námskeiðið er skipulagt sem staðbundið. Kennsla fer fram í samræðum og gagnvirkum fyrirlestrum. Námið er auk þess byggt upp á lestri, hópvinnu, kynningum og skriflegum verkefnum.

Fyrirkomulag kennslu miðar við að nemendur geti stundað námið óháð búsetu. Þá er fjarfundabúnaður notaður í rauntíma fyrir nemendur sem búsettir eru fjarri höfuðborgarsvæðinu.

X

Fræðileg skrif og ráðstefna (UME601G)

Námskeiðinu er ætlað að veita nemendum leiðsögn og stuðning við ritun lokaverkefnis í BA-námi. Æskilegt er að nemendur séu að vinna að BA-verkefni samhliða þessu námskeiði. Teknir verða til umfjöllunar þættir sem snúa að fræðilegum skrifum. Nemendur fá æfingu í að gera fræðilega samantekt á þekkingu um ákveðið rannsóknarefni á sviði uppeldis- og mennunarfræði. . Nemendur fá æfingu í að setja fram skýra rannsóknarspurningu, leggja drög að umræðukafla, setja fram niðurstöður rannsókna og tengja þær við fyrirliggjandi þekkingu. Haldin verður nokkurs konar rannsóknardagbók / ígrundunarskrif í ferlinu. Nemendur skipuleggja ráðstefnu í lok misseris, útbúa útdrátt á íslensku og ensku, setja efni á samfélagmiðla og flytja erindi um BA-ritgerð sína á ráðstefnunni.

Vinnulag
Námskeiðið byggist á  umræðum, hópvinnu og verkefnavinnu. Námskeið er kennt rafrænt og eftir aðstæðum á staðnum í tilteknum námslotum.

X

Lokaverkefni (UME602L)

Lokaverkefni til BA prófs í uppeldis- og menntunarfræði er 10e og er gert ráð fyrir að það sé tekið samhliða námskeiðinu UME601G Fræðileg skrif og ráðstefna 5e.

X

Menntun og kyngervi (UME004M)

Markmið: Markmið námskeiðsins er að nemar kynnist hugmyndum, kenningum  og rannsóknum um uppeldi og menntun í ljósi kynjafræðilegra sjónarmiða og hugtaksins kyngervi (gender).

Viðfangsefni. Unnið verður með hugtökin, kyngervi, kynjun, kynímyndir, staðalmyndir, kvenfrelsi, félagsleg mismunun, kynhlutverk, kynjablinda, tvíhyggja og valdatengsl. Fjallað verður um hvernig hugmyndir um menntun kynjanna hafa þróast sögulega, rýnt í orðræðuna um drengi og stúlkur og staðreyndir og gagnrýni á menntun og kynferði á öllum skólastigum. Sjónarmið félagslegar mótunarhyggju og eðlishyggju verða notuð til að útskýra mismunandi hugmyndir um kynjamismunun. Athyglinni verður beint sérstaklega að nýjum rannsóknum á sviðinu og fræðilegri nálgun mismunandi fræðimanna. Að síðustu verður athyglinni beint að íslenska skólakerfinu, stöðu drengja og stúlkna, leiðtogum og stjórnendum, námskrám og stöðu lögbundinnar jafnréttisfræðslu á öllum skólastigum. Lesnar verða nýjar íslenskar og erlendara rannsóknir á kyngervi og skólastarfi, t.d. rannsóknir á námsframmistöðu kynjanna, mismunandi hugmyndum stelpna og stráka um námsgreinar, námshæfni og námsval og hvernig skólar bregðast við kynjun skóla og samfélags.

Vinnulag
Námskeiðið er skipulagt sem staðnám, með möguleikum til fjarnáms ef þörf krefur. Námskeiðið byggist á fyrirlestrum, umræðum, málstofum, hópvinnu og verkefnavinnu.

X

Skóli margbreytileikans og hið óvenjulega samfélag (INT002M)

Námskeiðið er inngangsnámskeið um inngildandi menntun og skóla án aðgreiningar. Söguleg dæmi um sérkennslu eru skoðuð og sett í samhengi við kenningar og sjónarmið frá fötlunarfræði, hugtök um brennimerkingu og öðrun, lýðræði og félagslegt réttlæti. Námskeiðið veitir nemendum skilning á því hvernig vinna má með margbreytilegum hópum í námi og kennslu, og hvernig kennarar og skólar geta unnið með nemendum sem hafa sérstakar þarfir og fjölskyldum þeirra í almennum skólum.

X

Inngangur að táknmálsfræði (TÁK108G)

Í námskeiðinu verður fjallað um táknmálssamfélög, sér í lagi samfélag íslenska táknmálsins (ÍTM). Fjallað verður um döff menningu og sögu ÍTM, um málhugmyndafræði og um stöðu og lífvænleika íslenska táknmálsins. Beitt verður nálgunum döff fræða, mannfræði og félagslegra málvísinda.

 

X

Færninámskeið I (TÁK102G)

Markmið og viðfangsefni námskeiðsins:

Nemendum eru kynnt grundvallaratriði íslenska táknmálsins. Megináhersla verður lögð á mál sem tengist daglegu lífi og þær meginreglur sem gilda um táknmálssamtalið. Áhersla verður lögð á bæði tjáningu og skilning táknmáls. Í námskeiðinu er fjallað um skyldubundin látbrigði með táknum og próformasögnum og mikilvægi þeirra í táknmáli. Nemendur nota myndbandsupptökur til þess að ná auknu valdi á málinu. Námskeiðið er byggt upp á fyrirlestrum og æfingum í tímum sem nemendur taka virkan þátt í.

Námsmat: Verkefni, aðallega upptökuverkefni, sem dreifast yfir misserið. Standast þarf alla þætti námsmats til að ljúka námskeiði sem og uppfylla mætingaskyldu.

X

Mannréttindi: Efling félags- og vistfræðilegrar velferðar (UME011M)

Þverfaglegt mannréttindanámskeið þar sem áhersla er lögð á að beita mannréttindasjónarhorni sem tæki til að knýja fram umbætur í félags- og velferðarmálum. Með því að rýna á heildstæðan og gagnrýninn hátt ríkjandi kerfi og ferla sem skapa og viðhalda ójöfnuði, mismunun og útilokun, er ætlunin að styðja við og auka þekkingu og leikni í að stuðla að uppbyggingu friðsamlegra samfélaga, án aðgreiningar.  

 

Í námskeiðinu er lögð áhersla á að nota gagnrýna mannréttindanálgun til að virkja nemendur í umræðum um félags- og velferðarmálefni í nútímasamfélagi. Nemendur greina viðfangsefni í nærsamfélagi sínu og alþjóðasamfélaginu með aðferðum tilviksrannsókna. Viðfangsefnin geta til að mynda tengst hælisleitendum og flóttafólki, fötlun, kynferði, fátækt, kynhneigð eða samþættingu framangreindra þátta.  

 

Nemendur fá æfingu í að rýna viðfangsefni á gagnrýninn hátt og tækifæri til að staðsetja sig og skoðanir sínar með tilliti til áskoranna samtímans. Áhersla verður lögð á samskipti og umræður, sjálfsígrundun, mikilvægi inngildingar og gagnrýna kennslufræði til að tryggja umbreytandi og þvermenningarlega námsaðferð.   

 

Námskeiðið er kennt bæði á íslensku og ensku og áhersla lögð á hugmyndafræði algildrar hönnunar þannig að tekið sé tillit til ólíkra þarfa nemenda hvað varðar tungumál, menningarlegan bakgrunn, fötlun og nauðsynlega aðlögun námsefnis. Námsefni sem byggt verður á í námskeiðinu (ritað efni, mælt mál og sjónrænt efni) verður aðgengilegt bæði á íslensku og ensku, með texta og í auðlesnu formi. Námsefnið mun endurspegla alþjóðlega nálgun á mannréttindum og byggja á hugmyndum fræðimanna, fólks af vettvangi og aðgerðasinna.

X

Samvinna og samfélagsleg nýsköpun í velferðarþjónustu (FRG111G)

Markmið námskeiðsins er að nemendur þrói hæfni til að hafa frumkvæði að og setja fram nýjar lausnir í velferðarþjónustu í samvinnu við samnemendur. Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna verða  höfð til hliðsjónar við val á verkefnum. Áhersla verður lögð á  forsendur samstarfs og samvinnu.  Nemendur vinna með eigin hugmyndir að samfélagslegri nýsköpunog vinna verkefni þar sem reynir á samstarf milli og innan hópa. 

X

Áhrifaþættir heilsu (HÍT504M)

Í þessu námskeiði verður farið yfir grunnskilgreiningar á hugtökunum: heilsa og heilbrigði, sjúkdómar og fötlun. Farið verður yfir helstu áhrifaþætti heilbrigðis og ræddir verða sérstakir áhrifavaldar á heilsufar. Bæði verða kynntir þættir sem geta ógnað heilsu og heilbrigði en einnig skoðað hvaða þættir geta haft jákvæð heilsueflandi áhrif. Sérstök áhersla verður á áhrif umverfis á heilsu. Fjallað verður um ólíkar nálganir í heilsueflingu og hverjir beri ábyrgð á heilsueflingu

Athugið: Námskeiðið hét áður Hugur, heilsa og heilsulæsi.

X

Afbrotafræði (FÉL309G)

Í námskeiðinu verður afbrotafræðin og helstu viðfangsefni hennar kynnt. Í grófum dráttum skiptist námskeiðið í tvennt. Í fyrri hlutanum verður farið í helstu kenningar og rannsóknir til að varpa ljósi á eðli afbrota og samfélagslegra viðbragða við þeim. Í þessu skyni verður klassísk og pósitívísk afbrotafræði skoðuð. Sérstök áhersla verður lögð á ýmsar félagsfræðilegar kenningar og rannsóknir á afbrotum, s.s. framlag formgerðarhyggju, samskiptaskólans og átakakenninga. Í síðari hluta námskeiðsins verða fjórar tegundir afbrota teknar fyrir (ofbeldisglæpir, kynferðisbrot, fíkniefnabrot og viðskiptaglæpir) og þær metnar í ljósi kenninga úr fyrri hluta og opinberrar stefnumörkunar í þessum málaflokkum.

X

Áfengis- og vímuefnamál (FRG103G)

Áhersla er á að nemandi tileinki sér: Kenningar um áfengis- og vímuefnamál, skilgreiningar á vímuefnaröskun og helstu líkamlegum og sálrænum viðbrögð einstaklinga með vímuefnavanda. Fjallað er um skýringarlíkön um áfengis- og vímuefnasýki og áhrif þeirra á meðferð, ásamt því hvaða afleiðingar og áhrif vímuefnaneysla getur haft á fjölskyldur, löggjöf og uppbyggingu þjónustu. Áhersla er lögð á starfshlutverk félagsráðgjafa við fræðslu, ráðgjöf og forvarnarstarf á sviði áfengis- og vímuefnamála.

X

Alþjóðleg og samanburðarmenntunarfræði (INT001M)

Áhersla er á umræðu og kenningar um alþjóðlega menntun og samanburðarmenntunarfræði sem kerfisbundna greiningu á því sem er líkt og því sem er ólíkt í menntakerfum á ólíkum svæðum, löndum og í ólíkum menningarheimum. Mikilvægi hnattvæðingar fyrir samanburðarmenntunarfræði verður skoðuð. 

Námskeiðið fer fram sem málstofur og vinnustofur þar sem fá nemendur þjálfun í að ræða þau margvíslegu málefni sem eru viðfangsefni námskeiðsins í gagnrýnu umhverfi og setja þau víðara kenningalegt og verklegt samhengi. Samanburðar alþjóðleg menntunarfræði er skildu áfangi fyrir grunn og framhaldsnema í alþjóðlegum menntunarfræðum.

X

Kynjamyndir og kynusli: Inngangur að kynjafræði (KYN106G)

Í námskeiðinu er fjallað um helstu viðfangsefni kynjafræða í ljósi margbreytileika nútímasamfélaga. Kynjafræðilegu sjónarhorni er beitt til að gefa yfirlit yfir stöðu og aðstæður ólíkra hópa í samfélaginu. Kynnt verða helstu hugtök kynjafræða svo sem kyn, kyngervi, eðlishyggja og mótunarhyggja. Skoðað er hvernig kyn er ávallt samtvinnuð öðrum samfélagslegum áhrifabreytum.

X

Almenn sálfræði (SÁL103G)

Inngangur að viðfangsefnum sálfræði. Helstu viðfangsefni eru skynhrif, skynjun, minni, hugsun, áhugi, nám, þroski, persónuleiki, greind, félagsskilningur og sálmein.

X

Tölvuleikir, leikheimar og leikjamenning (SNU019G)

Fjallað verður um tölvuleiki í námi og kennslu með sérstakri áherslu á leikheima og netleiki og opna leikvanga á netinu og tengsl slíkra leikja við nám og tómstundastarf. Leikjamenning verður skoðuð, flokkunarkerfi og einkenni tölvuleikja, vægi þeirra í tómstundamenningu og tengsl við þjóðfélagsmál. Sérstaklega verður skoðað jafnréttissjónarhorn í tölvuleikjum og tölvuleikjamenningu og ýmis álitamál til dæmis tengd kynferði, ávanabindingu og/eða spilafíkn.  Unnið verður með  verkfæri til að smíða kennsluleiki/námsleiki og fjallað um þróun á „leikjun“ (e. gamification) í námi. Fjallað verður um námsleiki í ýmis konar tölvuumhverfi, jafn þrívíddarheimi á Interneti og leiki sem nota snjalltölvur eða síma.

Námskeiðið verður með fjarkennslusniði

X

Tjáning og samskipti (TÓS104G)

Nemendur lesa texta um viðfangsefni námskeiðsins og hagnýta sér, ásamt fyrirlestrum og leiðsögn kennara, til að æfa sig í þeirri sköpun, tjáningu og athugun sem skilgreind er í hæfniviðmiðum.

Námskeiðið er skipulagt með það fyrir augum að tengja saman fræði og framkvæmd á þann veg að nemendur vinni þau verk sem námskeiðið snýst um, ræði saman (eða skrifist á) um reynslu sína af viðfangsefnum og læri af henni. Í þessu felst meðal annars ræðuþjálfun, leikræn tjáning og greining á samskiptum. Að auki verður áhersla á stofnun og stjórnun félagasamtaka, fundarstjórn og fundarsköp.

X

Einelti, forvarnir og inngrip (TÓS509M)

Þetta námskeið er um einelti og markmiðið er að þeir sem ljúka námskeiðinu öðlist þekkingu, leikni og hæfni til að geta tekist á við og komið í veg fyrir einelti meðal barna og unglinga.

Námskeiðið byggir á kenningum og rannsóknum á einelti. Námskeiðið er bæði fræðilegt og hagnýtt. Námskeiðið er ætlað öllum þeim sem hafa hug á að vinna með börnum og unglingum og hentar því vel fyrir nemendur á menntavísindasviði HÍ. Nemendur á öðrum sviðum eru einnig velkomnir. Á námskeiðinu verður fjallað um fjölmarga þætti sem snúa að einelti, þar á meðal mismunandi birtingarmyndir, árangursríkar aðferðir við forvarnir og inngrip, samstarf við foreldra og forsjáraðila og árangursríka vinnu með þolendum, gerendum og áhorfendum. Námskeiðið fer fram á íslensku en lesefni er á íslensku og ensku.

Námskeiðið byggir á fyrirlestrum, umræðu- og verkefnatímum, reynslusögum af vettvangi og kynningum nemenda.

Skyldumæting er í námskeiðið (lágmark 80%). Skyldumæting er fyrir fjarnema í staðlotur námskeiðsins. Missi þeir af staðlotu verða þeir að vinna það upp með því að mæta í aðra tíma í staðinn. Fjarnemum er frjálst að mæta í aðrar kennslustundir. Fjarnemar vinna virkniverkefni um kennslustundir sem þeir mæta ekki í. 

X

Fötlun, heilsa og færni (ÞRS308G)

Efni námskeiðs skiptist í megindráttum í þrennt. Í fyrsta lagi er fjallað um einkenni og orsakir mismunandi skerðinga hjá fötluðu fólki. Í öðru lagi er fjallað um heilsu og heilsutengda þætti í lífi fatlaðs fólks. Í þriðja lagi er fjallað um áhrif umhverfis á heilsu. Stefnt er að því að nemendur öðlist færni í að greina mismunandi sjónarhorn á heilsu og fötlun (læknisfræðileg- og félagsleg) og hvernig megi yfirfæra þau á gagnrýninn hátt á starfsvettvang þroskaþjálfa. Sérstök áhersla verður á umfjöllun umhverfis á heilsu fatlaðs fólks

X

Trúarbrögð og lífsgildi í fjölmenningarsamfélagi (KME003M)

Námskeiðið miðar að því að nemendur dýpki þekkingu sína á stöðu og áhrifum trúarbragða í fjölmenningarsamfélagi. Fjallað verður um ýmsar kenningar er snerta trúarþörf og trúarreynslu mannsins, trúarlega sjálfsmynd og valda þætti nokkurra helstu trúarbragða heims. Einnig siði og venjur tengdar trúariðkun, einkum er haft geta áhrif á skólastarf. Þá verður fjallað um trúarbrögð og siðfræði, sameiginleg gildi ólíkra trúarbragða, stöðu trúarbragða, menningarleg og trúarleg átök sem eiga sér stað í dag og fordóma og misskilning tengdan trúarbrögðum. Nemendur velja sér trúarbrögð sem þeir dýpka þekkingu sína á, einkum með tilliti til þess að þau endurspegli vaxandi menningarlegan og trúarlegan fjölbreytileika hér á landi og vinna jafnframt vettvangstengd verkefni.

Vinnulag
Fyrirlestrar, samræður, mat og beiting fræða á tiltekin viðfangsefni, samstarf í hópum. Verkefni, m.a. vettvangstengt rannsóknarverkefni, og kynning í málstofum.

X

Kyn, fjölmenning og margbreytileiki (KYN201G)

Fjallað um helstu viðfangsefni margbreytileika- og kynjafræða í ljósi gagnrýnnar fjölmenningarhyggju og margbreytileika nútímasamfélaga. Áhersla er á hvernig viðfangsefnin tengjast íslenskum veruleika og stjórnmálum.

Skoðað er hvernig félagslegar áhrifabreytur á borð við kyn, kynhneigð, þjóðernisuppruna, trúarskoðanir, fötlun, aldur og stétt eiga þátt í að skapa einstaklingum mismunandi lífsskilyrði og möguleika.

Kynnt verða helstu hugtök kynja- og margbreytileikafræða svo sem kyngervi, eðlishyggja og mótunarhyggja og skoðað hvernig félagslegar áhrifabreytur eru ávallt samtvinnaðar í lífi fólks. Áhersla er á hvernig málefni kyns, fjölmenningar og margbreytileika tengjast íslenskum veruleika og stjórnmálum. 

X

Áföll, sorg og sálræn skyndihjálp (FRG205G)

Markmið námskeiðsins er að nemendur öðlist grunnþekkingu á áföllum og áhrifum þeirra á samfélög og einstaklinga. Fjallað verður um skipulag almannavarna og áfallastjórnun og sérstök áhersla lögð á að kynna hlutverk félagsráðgjafa á þeim vettvangi. Þá er rætt um gildi sálræns stuðnings við þolendur áfalla og helstu þætti sálrænnar skyndihjálpar og áfallahjálpar. Einnig verður rætt um skilgreiningar á áföllum, líkamleg og sálræn einkenni þeirra og áfallastreituviðbrögð.

X

Sjálfbærnimenntun og sjálfbærni (INT401G)

Meginmarkmið þessa námskeiðs er að veita nemendum tækifæri til að beina sjónum að hugtökum og hugmyndum sjálfbærni og áhrifum þeirra á sjálfbærnimenntun. Kennslutímar og umræður byggjast á upplýstri rökræðu. Unnin verða nokkur verkefni og krafist virkrar þátttöku í umræðum. 

Dæmi um viðfangsefni eru:

  • Hugtök sjálfbærrar þróunar og sjálfbærni
  • Þróunarmarkmið sjálfbærrar þróunar (SDG)
  • UNESCO – Áratugur um menntun til sjálfbærrar þróunar
  • Sjálfbærnihæfni
  • Lýðræði, jafnrétti og sjálfbærni
  • Hugmyndir að viðfangsefnum frá nemendum

X

Ofbeldi og vanræksla í fjölskyldum (FRG408G)

Markmið námskeiðsins er að nemendur öðlist fræðilega þekkingu á fyrirbærunum ofbeldi og vanrækslu í fjölskyldum.  Fjallað verður um ofbeldi og vanrækslu í fjölskyldum út frá sögulegu sjónarhorni í félags- og heilbrigðisvísindum og rannsóknir á sviðinu. Ennfremur verður fjallað um hin ýmsu afbrigði ofbeldis í fjölskyldum, til dæmis ofbeldi gagnvart börnum, systkinaofbeldi og ofbeldi í parasamböndum. Einnig verður farið í ofbeldi gagnvart fötluðum og öldruðum. Farið verður ítarlega yfir skilgreiningar og mismunandi birtingarmyndir þessara fyrirbæra og helstu afleiðingar fyrir þolendur.  Jafnframt verður fjallað um vinnuferli sem tengist löggjöf þessa málaflokks, ásamt helstu úrræðum.  

X

Algild hönnun (ÞRS002M)

Námskeiðið er bæði fræðilegt og hagnýtt. Hugmyndafræði algildrar hönnunar verður rædd út frá sjónarhornum jafnréttis, fötlunarfræða og hönnunar. Skoðuð verða tengsl við aðstæðubundið sjálfræði, inngildandi menntun og heilsu. Sjónum verður beint að ólíkum leiðum til að ná markmiðum algildrar hönnunar og það skoðað í samhengi við hugtökin viðeigandi aðlögun og viðeigandi stuðningur.

Nemendur kynnast útfærslum og lausnum í anda algildrar hönnunar á ólíkum sviðum og fá tækifæri til að hanna umhverfi og móta algildar leiðir til þátttöku á völdu sviði.

Námskeiðið er skipulagt út frá hugmyndum algildrar hönnunar í námi. Lagt er upp með að nemendur öðlist þannig hagnýta þekkingu og færni í því að skipuleggja námsumhverfi, kennslu, fræðslu og upplýsingamiðlun á algildan hátt ásamt reynslu af því að læra í slíku námsumhverfi. 

X

Menning og vegferð ungmenna (UME009M)

Námskeiðið tekur til félagsfræðilegra og þverfaglegra kenninga og rannsókna um ungmenni, menningu þeirra, vegferð og menntun. Ungmennahugtakið á við breytilegan aldurshóp eftir samfélögum og söguskeiðum en í okkar síðnútíma einkum aldurshópinn 16-25 ára. Líf og aðstæður ungmenna verða skoðuð sitt á hvað frá ólíkum sjónarhornum félagsfræði og ýmissa skyldra greina og áhersla lögð á þverfaglega, menntavísindalega samþættingu. Hugtakið vegferð ungmenna (e. transition to adulthood) var fram undir 1990 notað um leið ungmenna frá skólanámi til fastrar atvinnu, en hefur síðan verið víkkað út til fjölskyldumyndunar, samfélagsþátttöku og fleiri atriða.

Í námskeiðinu verður sjónum beint að nýlegum rannsóknum á vegferð í mismunandi löndum og eftir félagslegum bakgrunni. Rýnt verður sérstaklega í rannsóknir sem gerðar hafa verið á menningu ungmenna á Íslandi og öðrum Norðurlöndum. Vegferðin er sérstaklega könnuð í gegnum þrenns konar kerfi, þ.e. a) reynslu og val þeirra innan framhalds- og háskólakerfisins, b) vegferð innan vinnumarkaðar og c) í kynverundarkerfinu.

X

Kynbundið ofbeldi: forvarnir og fræðsla (TÓS009G)

Efni námskeiðsins er kynbundið ofbeldi, ólíkar birtingarmyndir þess og forvarnir. Áhersla er lögð á að auka skilning nemenda á kynbundu ofbeldi og birtingarmyndum þess í samfélaginu. Markmið námskeiðsins er tvíþætt, annars vegar að efla fræðilegan grunn nemenda og hins vegar að efla færni nemenda í vinna gegn kynbundnu ofbeldi í starfi. Markmiðið er að nemendur þekki birtingarmyndir kynbundins ofbeldis og efli færni sína í að leiða umræðu, vinna með viðhorf og vinna að málum tengdum kynbundnu ofbeldi sem kunna að koma upp í starfi á vettvangi.

Kynbundið ofbeldi verður skoðað út frá helstu birtingarmyndum þess í samfélagi okkar. Farið verður í helstu fræðilegu hugtök kynjafræðinnar sem nýtast til þess að greina og skilja kynbundið ofbeldi eins og það birtist okkur í daglegu lífi. Farið verður yfir ólíka stöðu og möguleika karla og kvenna í samfélagi okkar og áhrif hugmynda um karlmennsku og kvenleika á viðhorf okkar og væntingar. Þá verða viðteknar hugmyndir samfélagsins um jafnrétti, ofbeldi og klám teknar til gagnrýninnar skoðunar.

Rík áhersla er lögð á að nemendur geti ígrundað eigin viðhorf og vinnu út frá kynjasjónarmiðum en nemendum gefst kostur á að tengja hugmyndir sínar, reynslu og þekkingu við starf á vettvangi.

Námskeiðið er kennt í tveimur staðlotum, auk vikulegra fyrirlestra og kennsluhlés sem nýtist í verkefnavinnu á vettvangi.

X

Tómstundir og börn (TÓS202G)

Megin viðfangsefni námskeiðsins eru tómstundir barna á aldrinum 6-12 ára í víðum skilningi. Fjallað er um helstu uppeldisfræðislegu sjónarhornin með þennan aldurshóp í huga. Fjallað verður um margvíslegar áskoranir sem börn á þessum aldri standa frammi fyrir.

Viðfangsefni námskeiðsins snúa meðal annars að lýðræðislegum starfsháttum í starfi með börnum, grunnþáttum menntunar, viðmiðum um gæði í frístundastarfi, öryggis- og velferðarmálum í æskulýðsstarfi, mikilvægi leiksins, fjölmenningu og inngildingu, samskiptum og gagnrýnni hugsun, listum, menningu og skapandi starfi og tómstundastarfi með margbreytilegum barnahópum.

Markmiðið með námskeiðinu er að nemendur

  • öðlist þekkingu á kenningum um þroska, nám og félagsfærni allra barna á aldrinum 6-12 ára
  • fái innsýn í tómstundir barna á aldrinum 6-12 ára og öðlist skilning á hlutverki grunnskóla, frístundaheimila og æskulýðstarfs
  • efli eigin færni og styrk í að vinna með börnum á vettvangi frítímans og efli þekkingu sína á mikilvægi leiks í starfi með börnum
  • átti sig á mikilvægi lýðræðislegra vinnubragða í öllu starfi með börnum og tileinki sér slík vinnubrögð.
X

Tómstundir og unglingar (TÓS211G)

Markmið: Að nemendur

  • Kynnist því tómstundastarfi sem sérstaklega er boðið upp á fyrir unglinga á Íslandi.
  • Efli eigin færni og styrk í að vinna með unglingum á vettvangi frítímans.
  • Öðlist innsýn í þann heim sem unglingar búa við í dag, má þar nefna hnattvæðingu, fjölmiðla, unglingamenningu og samvistir fjölskyldunnar.
  • Kryfji rannsóknir á gildi tómstunda fyrir unglinga.
  • Öðlist færni í að greina og bregðast við ofbeldi gegn unglingum, ásamt því að þekkja skyldur og ábyrgð leiðbeinenda.
  • Öðlist innsýn í hverskonar frávikshegðun unglinga og hvernig helst megi koma í veg fyrir hana.
  • Þrói hugmyndir sínar um tómstundastarf fyrir unglinga með því að gera verkefni á vettvangi.
  • Átti sig á mikilvægi lýðræðislegra vinnubragða í öllu starfi með unglingum.
  • Geti skipulagt og stjórnað tómstundastarfi fyrir unglinga.

Inntak / viðfangsefni: Fjallað verður um starf félagsmiðstöðva, íþróttafélaga, skáta og um trúarlegt starf fyrir unglinga, ásamt félagsstarfi í grunnskólum. Áhersla verður lögð á starfshlutverk tómstundafræðinga við fræðslu, ráðgjöf og forvarnarstarf. Farið verður í skoðun á samfélaginu út frá unglingunum sjálfum og nemendur kryfja gildi tómstunda fyrir unglinga til mergjar. Fjallað verður um helstu einkenni og vandamál sem börn og unglingar eiga við að etja, meðal annars verður fjallað um kenningar, áhættuþætti, eðli og umfang ofbeldis og vanrækslu og mismunandi birtingarform þess. Jafnframt verður fjallað um ofbeldi í fjölskyldum og áhrif þess á unglinga. Ennfremur verður fjallað um löggjöf, úrræði og forvarnarstarf, vinnuaðferðir, viðhorf og viðbrögð fagfólks í slíkum málum. Að lokum verður fjallað um hlutverk og ábyrgð leiðbeinenda og mikilvægi lýðræðislegra vinnubragða í starfi með unglingum.

Vinnulag: Fyrirlestrar, umræður, einstaklingsvinna, hópavinna og vettvangsheimsóknir. Nemendur fara í vettvangsheimsóknir og kynna sér starf með unglingum. Nemendur hanna starf í frítíma fyrir unglinga.

X

Lífsleikni (TÓS404G)

Námskeiðinu er ætlað að efla færni nemenda í að vinna að velferð og hamingju fólks á öllum aldri, þó með áherslu á börn, unglinga og ungt fólk. Áhersla er lögð á starfsaðferðir og leiðir sem nýtast í eigin lífi sem fyrirmynd á vettvangi uppeldis og tómstundastarfs og í vinnu með öðrum. Rík áhersla er lögð á verkefnavinnu og samvinnu. Við lok námskeiðs ættu nemendur því að búa yfir aukinni færni sem nýtist í eigin lífi sem og í starfi á vettvangi. Námskeiðinu er ætlað að mæta aukinni áherslu á þá þætti í starfi með börnum og unglingum sem styðja við farsæld og gott líf á vettvangi skóla – og frístundastarfs.

Á námskeiðinu munum við fjalla um lífsleikni, hvernig við lifum lífinu, líðan og hvernig hægt er að hafa áhrif á líf okkar og annarra.  Við munum leggja áherslu á hagnýtar leiðir sem byggja á fræðilegum grunni og tengjast sjálfsþekkingu og hæfni einstaklings til að lifa farsælu lífi. Fjallað verður um seiglu, tilfinningar, núvitund, streitu og líkamlega og andlega velferð og unnið verður með starfsaðferðir og kennsluaðferðir leiklistar auk annarra leiða.

Vinnulag:
Fyrirlestrar, umræður og verkefnavinna. Námskeiðið er að hluta til með vendikennslufyrirkomulagi þar sem stuttir fyrirlestrar um viðfangsefni hverrar viku verða aðgengilegir á vef og umræðu- og verkefnatímar eru í hverri viku. Í námskeiðinu vinna nemendur einstakingsverkefni, þeir prófa aðferðir í lífsleiknikennslu á eigin skinni sem og hópverkefni sem felast í að reyna aðferðir í kennslu/starfi með öðrum. Að auki rýna nemendur í eigin vinnu og samnemenda. Munnlegt próf er í lok námskeiðs. Skyldumæting er í einn umræðu- og verkefnatíma í hverri viku en að öðru leyti er fyrirkomulag fjarnáms kynnt sérstaklega í upphafi námskeiðs og tímaáætlun að hluta til unnin með nemendum. Þriggja vikna kennsluhlé er í námskeiðinu í mars vegna vettvangsnáms í tómstunda- og félagsmálafræði.

X

Hinsegin menntunarfræði (SFG004M)

Markmið: Markmið námskeiðsins er að nemar kynnist hugmyndum, kenningum  og rannsóknum í hinsegin menntunarfræðum. Enn fremur að þeir fái góða innsýn inn í fræðaheim hinsegin fræða. Áhersla verður lögð að að nemar tileinki sér gagnrýna sýn á uppeldi og menntun og að þeir verði meðvitaður um veruleika hinsegin ungmenna.

Viðfangsefni: Unnið verður meðal annars með hugtökin kyngervi, kynhneigð, kynvitund, samtvinnun, karlmennska, kvenleiki, kynhlutverk, kynjatvíhyggja, gagnkynhneigðarhyggja og síshyggja. Fjallað verður um megininntak hinsegin menntunarfræða og hvernig nálgun þeirra getur varpað ljósi á menntun, uppeldi, tómstunda- og félagsstarf og samfélag. Nálgunin verður í anda hinsegin fræða og félagslegrar mótunarhyggju sem verða notuð til að útskýra ólíkar hugmyndir um kynhneigð, kynvitund og hinsegin kynverund. Enn fremur verður fjallað um skólakerfi, hérlendis og erlendis, og hvernig það viðheldur margs konar mismunun og ýtir jafnvel undir stofnanabundna gagnkynhneigðarhyggju og síshyggju. Lesnar verða nýjar íslenskar og erlendar rannsóknir í tengslum við kynhneigð, kynvitund, skólakerfi, kennslu og námsbækur. Þá verður lögð áhersla á að þjálfa verðandi fagfólk sem starfar með börnum og ungmennum í að búa til hinseginvænt andrúmsloft í barna- og ungmennahópi, að flétta hinsegin veruleika inn í starf sitt og bregðast við neikvæðum viðhorfum í garð hisneginleika.

X

Trans börn og samfélag (UME204M)

Markmið:

Markmið námskeiðsins er að nemar kynnist hugmyndum, kenningum og rannsóknum í fræðum sem koma inn á veruleika og upplifanir trans fólks (trans fræði). Einnig verða meginhugmyndir gagnrýnna bernskufræða kynntar. Áhersla verður lögð á að þátttakendur verði meðvitaðir um veruleika trans ungmenna og trans barna og samfélagslega orðræðu um málaflokkinn.

Viðfangsefni:

Unnið verður meðal annars með hugtökin kyngervi, kynjatvíhyggja, kynsegin, kynvitund, samtvinnun, trans* hugtakið, síshyggja, umhyggja, barnavernd og réttindi barna. Fjallað verður um megininntak transfræða/hinseginfræða og hvernig hægt er að nýta sér þá nálgun til varpa ljósi á uppeldi, menntun, samfélag, tómstunda- og félagsstarf og íþróttir. Nálgunin verður í anda gagnrýnna trans- og bernskufræða og félagslegrar mótunarhyggju. Enn fremur verður fjallað um skólakerfi og aðrar stofnanir, hérlendis og erlendis, og hvernig margs konar mismunun skapast og viðhelst og getur ýtt undir stofnanabundna transfóbíu og síshyggju. Lesnar verða nýjar íslenskar og erlendar rannsóknir í tengslum við efnið. Þá verður lögð áhersla á að þjálfa verðandi uppeldis- og menntunarfræðinga, þroskaþjálfa, foreldrafræðara, kennara, tómstunda- og félagsmálafræðinga, stjórnendur og annað fagfólk til að skapa hinsegin/trans vænt andrúmsloft í viðeigandi hópum sem unnið er með.

X

Innbyrðing kúgunar (ÞRS003M)

Kúgun minnihlutahópa er málefni sem félagsvísindi hafa skoðað töluvert síðustu áratugina en styttra er síðan farið var að rannsaka sálfræðileg áhrif kúgunar sem birtist oft í innbyrðingu kúgunarinnar. Í þessu námskeiði verða nemendum kynntar gagnrýnar kenningar sprottnar upp úr síð-nýlendu sálfræði. Farið verður bæði í það hvernig kúgun er innbyrt en einnig verður varpað ljósi á innbyrðingu kúgunar ákveðinna hópa, t.d. fatlaðra, innflytjenda og hinsegin fólks. Þekking samfélagsins á sálrænum áhrifum innbyrðingar þessara hópa er mikilvæg og þegar fagfólk starfar á vettvangi er þýðingarmikið bregðast rétt við birtingarmyndum innbyrðingar og reyna að draga úr neikvæðum áhrifum hennar eins og hægt er. 

X

Mentor í Spretti (GKY001M)

Í námskeiðinu felast verkefni nemenda í  að vera mentor fyrir þátttakendur á framhalds- og háskólastigi í verkefninu „Sprettur”. Mentorar sinna því mikilvæga starfi að styðja og hvetja ungmenni í námi og félagslífi. Hlutverk mentora er að skapa uppbyggjandi samband við þátttakendur, vera jákvæð fyrirmynd og taka þátt í sameiginlegum viðburðum skipulögðum í Spretti. Mentorhlutverkið snýst um tengslamyndun og samveru sem felur í sér skuldbindingu gagnvart ungmennunum sem mentor styður.  

Sprettur er verkefni sem styður við nemendur með innflytjenda- eða flóttamannabakgrunn sem koma úr fjölskyldum þar sem fáir eða engir hafa háskólamenntun.  Nemendur í námskeiðinu eru mentorar þátttakenda og eru þeir tengdir saman með hliðsjón af sameiginlegu áhugasviði. Hver mentor ber ábyrgð á að styðja tvo þátttakendur. Mentorar skipuleggja samveru og verja þremur klukkustundum á mánuði (frá ágúst fram í maí) með þátttakendum í Spretti, þremur klukkustundum í mánuði í heimavinnuhópi og mæta í fimm málstofur sem dreifast yfir skólaárið. Nemendur skila dagbókarfærslum á Canvas í nóvember og mars. Dagbókarfærslur byggjast á lesefni og hugleiðingum nemenda um mentorstarfið. Námskeiðið er kennt á íslensku og ensku.  

 Nemendur sækja um þátttöku á námskeiðinu. Sjá rafrænt umsóknareyðublað.  Umsækjendur fara í viðtal og eru 15-30 nemendur valdir til þátttöku.   

Frekari upplýsingar um verkefnið „Sprettur” má nálgast hér: www.hi.is/sprettur 

X

Lífið sem mig langar í II - hagnýtar leiðir í uppeldi og menntun (UME007G)

Þetta námskeið er seinna námskeið af tveimur sem byggja á grundvallar spurningum um farsæld og mannlega tilvist: „Hvað gerir lífið þess virði að lifa því?“, „Hvernig getum við lifað farsælu og merkingarbæru lífi?” eða „Hvernig er lífið sem mig langar í?“. Námskeiðin byggja á Life Worth Living nálgununni sem var þróuð í Yale háskóla.

Grunnnámskeiðið miðar að því að gefa innsýn í ólíka lífsspeki um hamingjuna og hið verðuga líf t.d. útfrá heimspeki, (jákvæðri) sálfræði, gagnrýnum fræðum og fjölbreyttum menningarsamfélögum. Þetta seinna námskeið byggir á því fyrra en leggur áherslu á faglega þróun og hagnýta nálgun í formlegri og óformlegri menntun. Í námskeiðinu læra nemendur hagnýtar aðferðir til að leiða sjálfsrýni um hið farsæla og merkingarbæra líf. Unnið er með fjölbreytt verkefni og æfingar sem byggja bæði einstaklings- og hópvinnu, samkennd, virkri hlustun og samtali ásamt því að nemendur deila hugmyndum og gildum. Aðferðirnar sem lagðar eru til grundvallar eru sóttar til jákvæðrar sálfræði, markþjálfunar, núvitundar, samkenndar, heimspeki með börnum og mannkostamenntunar.

Námskeiðið er sérstaklega hugsað fyrir nemendur í uppeldis og menntunarfræðum, til dæmis nemendur sem eru að undirbúa sig sem fagfólk í skóla-, frístunda- og uppeldisstörfum. Athugið að aðeins þeir sem hafa lokið fyrra námskeiðinu, Lífið sem mig langar í I. Farsæld og sjálfsrýni (eða sambærilegu námskeiði) geta setið þetta námskeið.

X

Réttindi barna og samtímaógnir (UME203M)

Námskeiðið setur barnið í forgrunn, velferð þess og réttindi í daglegu lífi. Þessir þættir eru skoðaðir í tengslum við nærumhverfi barnsins; fjölskyldulíf, skólastarf, tómstundir, félagsleg tengsl og þátttöku, andlega og líkamlega líðan, ofbeldi og vernd og félags- og efnahagslega stöðu. Áhersla er á samfélagslega umgjörð í málefnum barna en einnig á úrræði og stuðning með hliðsjón af fjölbreytileika og stöðu barna og ungmenna sem upplifa að vera berskjölduð eða finna sig á jaðri samfélagsins. Hugtök tengd líðan, farsæld og réttindum barna verða skoðuð á gagnrýninn hátt, út frá sjónarhorni bernskufræða og í ljósi samtímaáskorana. Fjallað verður um innlenda, norræna og alþjóðlega stefnumótun í málefnum barna og unglinga og sú stefna skoðuð í ljósi nýrra áherslna á farsæld í menntastefnu bæði hér á landi og erlendis.  Nemendur öðlast þjálfun í að greina þætti sem ýta undir eða draga úr velfarnaði barna og ungmenna og fá tækifæri til að nota ný íslensk rannsóknargögn í verkefnavinnu námskeiðsins.

X

Lífið sem mig langar í -farsæld og sjálfsrýni (UME006G)

Þetta námskeið er fyrra námskeið af tveimur sem byggja á grundvallar spurningum um farsæld og mannlega tilvist: „Hvað gerir lífið þess virði að lifa því?“, „Hvernig getum við lifað farsælu og merkingarbæru lífi?” eða „Hvernig er lífið sem mig langar í?“. Námskeiðin byggja á Life Worth Living nálgununni sem var þróuð í Yale háskóla. Áhersla er lögð á gagnrýna nálgun gagnvart fjölbreyttri lífspeki og hvatt til samtals og ígrundunnar um megin spurningar námskeiðsins.

 

Grunnnámskeiðið miðar að því að gefa innsýn í ólíka lífsspeki um hamingjuna og hið verðuga líf t.d. útfrá heimspeki, (jákvæðri) sálfræði, gagnrýnum fræðum og fjölbreyttum menningarsamfélögum.  Kennslufræðileg nálgun er byggð á spurningum um hið farsæla líf og að nemendur finni sín eigin svör frekar en að læra kenningar eða verða sérfræðingur í ákveðnum fræðum. Spurningunum er ætlað að beina sjónum bæði útávið og innávið. Með skoðun innávið er vísað til þess að nemendur og kennarar eru hvattir til að taka persónulega afstöðu og nýta þær spurningar sem lagðar verða til grundvallar til að spegla eigið líf. Með skoðun útávið er vísað til þess að nemendur og kennarar taki þátt í umræðum um ólík siðferðileg gildi og ólíkar hefðir í samfélagslegu tilliti.  

Námskeiðið er sérstaklega hugsað fyrir nemendur í uppeldis og menntunarfræðum, nemendur sem eru að undirbúa sig sem fagfólk í skóla-, frístunda- og uppeldisstörfum. Á námskeiðinu fá þeir tækifæri til að fara í persónulegan leiðangur þar sem áhersla er lögð á sjálfsrýni um hið farsæla líf, í styðjandi lærdómssamfélagi. Nemendur skoða meðal annars líf sitt og framtíðarstarfsvettvang útfrá lífssýn, gildum og mannkostum. Einnig vinna nemendur fræðileg verkefni sem þau geta tengt við sinn fagvettvang.

X

Fötlun og lífshlaup (ÞRS212G)

Í þessu námskeiði verður fjallað um lífshlaupið, allt frá barnæsku til elliáranna, og þær fjölmörgu samfélagslegu og kerfislægu hindranir sem mæta fötluðu fólki á ólíkum æviskeiðum. Gagnrýnar kenningar fötlunarfræða verða notaðar til að skoða þá margþættu mismunun og undirliggjandi fordóma sem fatlað fólk verður fyrir á ólíkum aldursskeiðum og hvernig þeir verða til þess að draga úr möguleikum til virkar samfélagsþátttöku fatlaðs fólks, m.a. á sviði menntunar, atvinnu, menningar, tómstunda, stjórnmála og fjölskyldulífs. Fjallað verður sérstaklega um gagnrýni réttindasamtaka fatlaðs fólks hvað varðar upphaf og endamörk lífsins, þ.e. að segja fósturskimun og dánaraðstoð. Auk þess verða unglingsárin skoðuð sem sérstakt aldurskeið, sem og aðgengi fatlaðs fólks að rafrænum heimi sem hluta að réttinum til fullrar og virkrar þátttöku á fullorðinsárunum. Þá verður sjónum beitt að því hvernig viðteknar hugmyndir um viðfangsefni ólíkra æviskeiða, t.d. bernsku, unglings-, fullorðins- og efri ára, geta verið bæði hamlandi og frelsandi fyrir fatlað fólk og sjálfsmyndarsköpun þess. Stefnumótun í málefnum fatlaðs fólks og alþjóðlegir mannréttindasamningar verða skoðaðir í þessu samhengi með áherslu á mannréttindasjónarhornið á fötlun.

Vinnulag: Fyrirlestrar, hópavinna og umræður í tímum. Áhersla er lögð á virka þátttöku nemenda í umræðum og að þeir fylgist vel með umfjöllun um fötlun í fjölmiðlum með tilliti til birtingarmynda fötlunar og ólíkra æviskeiða. Jafnframt að nemendur tileinki sér fræðileg vinnubrögð í skrifum og við heimildaleit.

Öll fög eru skyldufög nemaVValfagBBundið val er háð skilyrðum ENámskeiðið er ekki kennt á misserinuNámsleiðin í Kennsluskrá

Hvað segja nemendur?

Jónína Sigurðardóttir
Jón Vilberg Jónsson
Jónína Sigurðardóttir
Uppeldis- og menntunarfræði

Ég hef alltaf haft áhuga á velferð barna og þess vegna valdi ég nám í uppeldis- og menntunarfræði. Námið er fyrir alla þá sem hafa hug á að móta komandi kynslóðir og gera þær enn betri.

Jón Vilberg Jónsson
Uppeldis- og menntunarfræði

Ég valdi námið vegna þess að ég tel að uppeldi og menntun skipti lykilmáli í nútímasamfélagi. Námið hefur farið fram úr öllum mínum væntingum og er bæði gefandi og áhugavert. Ég hlakka til að starfa á þessum mikilvæga vettvangi í framtíðinni.

Hafðu samband

Kennsluskrifstofa Menntavísindasviðs
Stakkahlíð, 1. hæð í Enni
Opið kl. 8.15 – 15.00 alla virka daga
Sími 525 5950
mvs@hi.is

""

Hjálplegt efni

Ertu með fleiri spurningar? Hér finnurðu svör við ýmsum þeirra og upplýsingar um ýmislegt annað sem gott er að hafa í huga þegar þú velur nám.