Skip to main content

Mál og læsi, M.Ed.

Mál og læsi, M.Ed.

Menntavísindasvið

Mál og læsi

M.Ed. gráða – 120 einingar

M.Ed. nám í mál og læsi er fyrir fólk sem lokið hefur grunnnámi og hefur einnig kennsluleyfi. Í náminu öðlast nemendur staðgóða þekkingu á hugtökum, kenningum, kennsluaðferðum og rannsóknaraðferðum á sviði máls og læsis.

M.Ed. námi lýkur með 30 eininga rannsóknarritgerð.

Skipulag náms

X

Fjöltyngi og læsi (KME116F)

Námskeiðinu er ætlað að efla skilning og faglega þekkingu nemenda á þeim áhrifum sem fjöltyngi getur haft á þróun læsis. Fjallað verður um lestrarnám fjöltyngdra barna, sem tekur mið af ritkerfum tungumála þeirra, árangursríkar kennsluaðferðir í íslensku sem öðru máli fyrir nemendur á ólíkum aldri sem eru nýflutt til Íslands, en einnig með börnum sem eru fædd hér eða komu ung til landsins og þurfa gæðastuðning til námsárangurs. Fjallað verður um nýtt námsefni Íslenskur námsorðaforði og stigvaxandi fjölbreytni íslenskrar tungu: Námsefni og kennsluhættir með fjöltyngdum grunnskólanemendum, sem hlaut Vísinda- og nýsköpunarverðlaun HÍ í flokknum Samfélag vorið 2023. Námsefnið er styrkt Rannsóknasjóði HÍ, Markáætlun um tungu og tækni og Íslenskusjóðnum. Höfundar textanna, meistaranemar í ritlist, kynna þróun textagerðarinnar, þar sem orð af Lista yfir íslenskan námsorðaforða er komið fyrir og byggt á nýjum viðmiðum um íslenskt tungumál, frá einföldu til hins flóknara. 

Þá eru nemendur hvattir til að beita gagnrýninni hugsun, að byggja á eigin reynslu og að nýta sér inntak námskeiðsins á sínu sérsviði. Námskeiðinu er enn fremur ætlað að vera stökkpallur fyrir stöðuga þekkingarleit, byggða á nýjum hágæðarannsóknum hér á landi og erlendis, sem leiðir til sífelldrar endurskoðunar og framfara í kennsluháttum með fjöltyngdum börnum.

Vinnulag: Kennsla fer fram bæði í tímum og á vef námskeiðsins. Fyrirlestrar eru settir eru á vef námskeiðsins og nemendur taka þátt í umræðum í rauntíma og á vef.

X

Málþroski og þróun málnotkunar (KME104F)

Námskeiðinu er ætlað að efla skilning nemenda á þróun málþroska barna frá fæðingu og fram á unglingsár og á mikilvægum áhrifsþáttum á málþroska þeirra. Megin áhersla námskeiðsins er á að auka færni nemenda við að veita börnum árangursríka málörvun sem undirstöðu undir nám og lestur. Ennfremur eru nemendur hvattir til að tengja saman fræði og vettvang og máta viðfangsefnin við eigin reynslu. Áhersla er lögð á að nemendur kynnist íslenskum og erlendum rannsóknum á sviðinu og ígrundi hvaða lærdóm kennarar geta dregið af rannsóknaniðurstöðum um það hvers konar reynsla, uppeldi, samskipti og örvun heima og í skóla veita bestu forsendur fyrir góðan málþroska.

Meginumfjöllunarefni: Þróun málnotkunar í sögulegu samhengi, hvati, lífshættir og meðfæddir hæfileikar. Þróun málþroska frá fæðingu, hljóðþróun, þróun orðaforða, málfræði, og setningagerðar. Mikilvægi málörvunar heima og í skóla. Tengsl málþroska við annan þroska svo sem vitsmuna, félagsþroska og læsisþróun. Helstu frávik í máli og tali svo sem málþroskaröskun (DLD), framburðarfrávik og stam. Málþroski fjöl/tvítyngdra barna. Mikilvægi snemmtækrar íhlutunar og almennrar málörvunar. Mat á málþroska barna og margvísleg málörvun með það að meginmarkmiði að gefa börnum næg tækifæri til að efla málþroska sinn og til að verða öflugir málnotendur

X

Tengsl málþroska og læsis (KME204F)

Meginmarkmið námskeiðsins eru að gefa nemendum traustan fræðilegan grunn um tengsl málþroska og læsis á ýmsum stigum námsins: í leik-, grunn- og framhaldsskóla og að þeir efli færni sína í að beita árangursríkum kennsluaðferðum. Nemendur taki mið af þeim aldri sem hæfir sérsviði þeirra.

Meginumfjöllunarefnin eru:

  • Læsi og forsendur lestrarnáms: lestrarkennsla, snemmtæk íhlutun og stuðningur við börn sem gengur illa að ná tökum á tæknilegri lestrarfærni.
  • Hvernig málþroski og læsisþróun breytast samhliða aldri og aukinni alhliða námsfærni.
  • Hvernig virkni í leik-, grunn- og framhaldsskóla er bæði markmið í öllu námi og leið til að efla málþroska.
  • Hvað skynsamlegast er að gera þegar nemandi sýnir engan áhuga og/eða tómlæti (e. apathy) gagnvart lestri.
  • Hvernig kennarar geta nýtt niðurstöður rannsókna til að fjölga tækifærum allra barna til að efla stöðugt málþroska sinn og læsisfærni.
  • Hvernig hægt er að nýta hæfniviðmið við mat á málþroska og læsi barna

Kennsla fer fram bæði í tímum og á vef námskeiðsins. Fyrirlestrar eru settir á vef námskeiðsins og nemendur taka þátt í umræðum í rauntíma og á vef.

X

Inngangur að megindlegum rannsóknaraðferðum (MVS213F)

Markmiðið er að nemendur

  • hafi innsýn í megindlega aðferðafræði á sviði rannsókna í uppeldis- og menntunarfræði
  • þekki helstu rannsóknaraðferðir og hugtök sem þeim tengjast
  • geti beitt algengum rannsóknaraðferðum og þannig aflað gagna, unnið úr þeim og túlkað á agaðan og viðurkenndan hátt
  • séu færir um að rýna í rannsóknir og nýta sér niðurstöður þeirra
  • hafi tileinkað sér rannsakandi hugarfar og gagnrýna hugsun

Kynnt verða algeng rannsóknarsnið megindlegra rannsókna, aðferðir við öflun gagna og greiningu þeirra, og fjallað um ritun og framsetningu niðurstaðna. Nemendur nota tölvuforrit til að reikna algenga tölfræðistuðla og halda utan um og vinna úr gögnum. Sérstök áhersla verður lögð á þjálfun í túlkun matsniðurstaðna sem líklegt er að verði á vegi þeirra hópa sem taka námskeiðið.

Fyrirlestrar á vef, umræður og verkefni. Námskeiðið er kennt vikulega en fyrirlestrar verða eingöngu á vef. Verkefnatímar verða ekki teknir upp. Ekki er mætingarskylda í námskeiðið en nemendur eru hvattir til að mæta í kennslustundir.

Nemendur verða að hafa Jamovi (sjá nýjustu útgáfu á https://www.jamovi.org) uppsetta á fartölvum sem þeir mæta með í kennslustundir. 

Lesefni: Kaflar 1-11 í Navarro DJ and Foxcroft DR (2019). Learning statistics with jamovi: a tutorial for psychology students and other beginners. (Version 0.70). DOI: 10.24384/hgc3-7p15. Rafræn ókeypis kennslubók sem hala má niður á síðunni https://www.learnstatswithjamovi.com.

X

Inngangur að eigindlegum rannsóknaraðferðum (MVS212F)

Fjallað verður um ólíkar rannsóknarstefnur og tengsl þeirra við uppbyggingu og útfærslu rannsókna. Einnig um siðfræði vísinda með áherslu á hagnýt atriði og um gæðahugtök, s.s. réttmæti, trúverðugleika og ólíka sýn á þessi hugtök. Í námskeiðinu beinist athyglin að eigindlegum aðferðum. Kynnt verða algeng rannsóknarsnið eigindlegra rannsókna, aðferðir við öflun gagna og greiningu þeirra, og fjallað um ritun og framsetningu niðurstaðna. Nemar fá nokkra þjálfun í að beita algengum aðferðum rannsókna m.a. vettvangsathugunum, viðtölum og heimildaathugunum. Þá vinna nemar með öflun, skráningu, flokkun, greiningu og túlkun gagna, og með framsetningu þeirra og gera heildstæða rannsóknaræfingu.

Fyrirlestrar, umræður og verkefni. Skyldumæting er í staðlotum.

X

Kenningar í félagsfræði og heimspeki menntunar (MVS101F, MVS009F)

Í þessu námskeiði eru ræddar ýmsar áhrifamiklar kenningar á sviði félagfræði og heimspeki menntunar og þær settar í samhengi við álitamál í samfélaginu hversu sinni svo sem kynjajafnrétti, fjölmenningu, stéttaskiptingu, uppeldishætti, kennslufræði, lýðræði og skóla án aðgreiningar.

Á fyrri hluta misseris er röð fyrirlestra og umræðutímar. 

Á seinni hluta misseris vinna nemendur tiltölulega sjálfstæð verkefni í hópum og fá leiðsögn um notkun kenninga við mótun rannsóknaráætlana eða þróunarverkefna á sviði kennslu eða uppeldisfræða.

X

Kenningar um nám: Hagnýting og rannsóknir (MVS101F, MVS009F)

Markmið
Markmið námskeiðsins er þríþætt. Í fyrsta lagi, að nemendur fái innsýn í valdar námskenningar, einkum þær sem hafa haft áhrif á uppeldis- og skólastarf á okkar tímum. Í öðru lagi, að nemendur öðlist skilning á hvernig nýta megi kenningarnar í framkvæmd við uppeldi, kennslu og skipulagningu náms fyrir fólk á öllum aldri. Í þriðja lagi, að nemendur þekki til rannsókna á áhrifum mismunandi kennslunálgana og hverjar þeirra teljast gagnreyndar til að ná tilteknum námsmarkmiðum.   

Inntak / viðfangsefni

  • Fjallað verður um nokkrar af meginkenningum um nám svo sem atferlishyggju (behaviourism), hugfræðilega nálgun (cognitive psychology) og félags- menningarkenningar (socio-cultural theories)
  • Áhersla er lögð á helstu hugtök sem beitt er í ofangreindum kenningum og að þær geta byggt á ólíkum skilgreiningum á námi
  • Nemendur lesa rannsóknargreinar þar sem þessum kenningum er beitt í uppeldis- og skólastarfi og þjálfast í að skilja notkun hugtaka og kenninga í rannsóknum á vettvangi
  • Fjallað verður um hvað gerir aðferðir gagnreyndar (evidence-based) og hvernig er hægt velja viðeigandi og áhrifaríkar aðferðir til að stuðla að námi fjölbreytts hóps á ólíkum sviðum.
  • Nemendur gera áætlun um námsferli á vettvangi uppeldis- og skólastarfs þar sem þeir beita viðeigandi kenningum að eigin vali og dýpka þar með þekkingu sína í einhverri af þeim kenningum sem fengist er við í námskeiðinu. Áhersla er lögð á tengsl áætlunar við rannsóknir og kenningar í verkefninu og að sama tíma sé hugað að hagnýtingu og útfærslu.
X

Mál og lestrarerfiðleikar (KME108F, KME206F)

Markmið námskeiðsins er að nemendur kynnist helstu kenningum og rannsóknum á lestrarörðugleikum og geti lagt mat á þær. Skoði uppruna og tengsl lestrarörðugleika við mál- og taugasálfræðilega þætti og samspil við kennslu og kennsluaðferðir. 

Viðfangsefni: Farið verður ítarlega í kenningar um tengsl lestrar- og málerfiðleika, þróun lesturs og lestrarlíkön verða rædd. Fjallað verður um helstu birtingarform mál- og lestrarörðugleika, og þær afleiðingar sem slíkir erfiðleikar geta haft á sjálftraust einstaklingsins, nám og námsárangur. Fjallað verður um helstu rannsóknir og kenningar á orsökum og einkennum dyslexíu og lagt mat á skilgreiningar. Skoðað verður hvernig meta má stöðu barna í lestri með hliðsjón af fræðikenningum og hvernig hægt er að draga úr og fyrirbyggja lestrarerfiðleika með snemmtækri íhlutun og einstaklingsmiðaðri kennslu í leikskóla og fyrstu bekkjum grunnskóla. Nemendur hljóta þjálfun í að meta stöðu eins eða fleiri nemenda í lestri (í leikskóla, grunnskóla eða framhaldsskóla) með tilliti til umskráningar og lesskilnings, kynnast aðferðum við að skima í áhættuhópa og leggja mat á kennsluaðferðir og kennsluefni með hliðsjón af rannsóknum og fræðikenningum.

Vinnulag: Fyrirlestrar og ígrundun fræðitexta með þátttöku nemenda, umræður, vettvangsathuganir, kannanir, hópverkefni, einstaklingsverkefni.

X

Lestur og lestrarkennsla: áherslur og þróun (KME108F, KME206F)

Helstu viðfangsefni í námskeiðinu varða fimm meginþætti lestrarnáms: hljóðkerfis- og hljóðavitund, umskráningu, lesfimi, orðaforða og lesskilning/hlustunarskilning ásamt ritun, hjá byrjendum og lengra komnum. Lögð er áhersla á að skoða áhrifaríkar, raunprófaðar kennsluaðferðir sem efla sem best færni nemenda í völdum þáttum og þær metnar í ljósi rannsóknaniðurstaðna og fræðilegra kenninga um lestrarnám og lestrarkennslu. Skoðaðar verða kennslu- og matsaðferðir  í umskráningu/lesfimi og orðaforða/lesskilningi. Hugað verður að mikilvægum áhrifaþáttum í þróun umskráningar, lesfimi, orðaforða, lesskilnings  og ritunar og verður í því tilliti litið til náms- og kennsluaðferða.

X

Lokaverkefni (NOK444L)

Lokaverkefni til M.Ed.-prófs er einstaklingsverkefni sem nemandi vinnur sjálfstætt undir leiðsögn leiðbeinanda/leiðbeinenda. Það getur talið 30 eða 40 einingar.

Nemendur skulu hafa samráð við formann námsbrautar um val á leiðbeinanda. Leiðbeinandi er að jafnaði valinn úr hópi fastra kennara Menntavísindasviðs.

Nemandi velur viðfangsefni og stærð verkefnis í samráði við formann námsbrautar og leiðbeinanda. Þess skal gætt að efni lokaverkefnis tengist vettvangi og sérsviði því sem nemandi hefur valið, það er að segja, að verkefnið tengist viðfangsefnum viðkomandi námsleiðar og einnig kjörsviði/sérsviði/námssviði þar sem það á við.

Verkefni til M.Ed.-prófs getur verið af ólíku tagi, til dæmis rannsóknarritgerð (heimildarannsókn), rannsóknarskýrsla (ritgerð sem byggir á rannsókn), starfstengt þróunar- eða matsverkefni, námskrárgerð eða námsefnisgerð. Öllum verkefnum, öðrum en rannsóknarritgerðum og rannsóknarskýrslum, skal fylgja fræðileg greinargerð.

Nemandi sem vinnur að lokaverkefni skráir sig í lokaverkefni í árlegri skráningu, miðað við áætlaða framvindu á haustmisseri og vormisseri. Að öllu jöfnu er gert ráð fyrir að undirbúningur og vinna lokaverkefnis til M.Ed.-prófs dreifist á tvö misseri eða fleiri. Á tilteknum námsleiðum í Kennaradeild er gert ráð fyrir að vinna verkefnis skiptist á þrjú misseri, sjá nánari upplýsingar undir krækjunni skipulag náms fyrir hverja námsleið í kennsluskrá.

Ekki eru gefnar tölueinkunnir fyrir lokaverkefni til meistaraprófs heldur er gefið annað hvort staðið eða fallið. Við mat á meistaraverkefnum er farið að reglum Menntavísindasviðs.

Nemendur skulu fylgja nánari leiðbeiningum og reglum Menntavísindasviðs um verklag við M.Ed.-verkefni. Sjá á innri vef Menntavísindasviðs, UgluFræðasvið >> Menntavísindasvið >> Meistaraverkefni (MA og M.Ed.)

X

Megindlegar rannsóknaraðferðir I (MVS302F, MVS301F, MVS011F)

Markmið
Að nemendur þekki og geti beitt algengustu tölfræðiaðferðum við úrvinnslu gagna og geti metið tölfræðilegar niðurstöður. Að nemandi hafi kunnáttu og þekkingu til þess að greina og miðla tölulegum upplýsingum skv. APA útgáfustaðlinum (t.d. í lokaritgerð) og geti sýnt frumkvæði við tölfræðilega úrvinnslu gagna. Einnig að nemendur kynnist helstu rannsóknarsniðum í megindlegri aðferðafræði.

Inntak og viðfangsefni
Fjallað verður um megindlegar rannsóknaraðferðir og rannsóknarsnið. Í tölfræði verður mest áhersla lögð á fylgni og fjölbreytuaðhvarfsgreiningu. Einnig verður unnið með aðferðir dreifigreiningar og þáttagreiningar (leitandi og staðfestandi). Að lokum verða nemendur kynntir fyrir grunnhugsun Bayesískrar tölfræði og mati á heildarvillu (e. Total survey error). Nemendur læra að vinna greiningar með tölfræðiforriti. Sérstök áhersla verður á túlkun gagnasafna sem tengjast jafnréttismálum og inngildandi menntun. 

Vinnulag
Námskeiðið verður kennt vikulega á fjarfundum. Tvær staðlotur eru á önninni. Skyldumætingu er í staðlotunum. Þeir sem eiga um langan veg að fara geta tekið þátt í staðlotunum í fjarfundi.  Nemendur verða að hafa nýjustu stöðugu (e. solid) útgáfu af Jamovi (sjá jamovi.org) uppsetta á fartölvum sem þeir mæta með í kennslustundir. 

X

Eigindlegar rannsóknaraðferðir I (MVS302F, MVS301F, MVS011F)

Í námskeiðinu verða teknar fyrir eigindlegar rannsóknaraðferðir, einkenni þeirra og saga.  Rauður þráður í gegnum námskeiðið verður gildi og hlutverk rannsókna við þróun skólastarfs og tengsl við fagmennsku í uppeldis-, menntunar- og þjálfunarstörfum.  Kynntar verða helstu rannsóknarleiðir eða nálganir innan eigindlegar aðferða, s.s. etnógrafía, fyrirbærafræði. Fjallað verður um aðferðir við gagnasöfnun og mismunandi tegundir gagna, s.s. vettvangsathuganir, áhorfsathuganir, viðtöl af ýmsum gerðum, vettvangsnótur og fyrirliggjandi gögn bæði sjónræn og textar. Kynntar verða mismunandi leiðir til að túlka og greina gögnin t.d. þema-, frásagnar- og orðræðugreining og nemendur þjálfaðir í að koma niðurstöðum frá sér á skipulegan og vandaðan hátt.

Vinnulag:
Fastir kennslutímar verða vikulega. Tímarnir (fyrir utan staðlotur) verða teknir upp og verða aðgengilegir fjarnemum.  Kennslan samastendur af fyrirlestrum, umræðum og/eða verkefnum. Nemendur vinna virkniverkefni saman sem þeir skila vikulega. Staðnemar  vinna þau í tímum en fjarnemar vinna þau saman í hópum. Einnig er gert ráð fyrir umræðum um efni fyrirlestranna á facebook.

X

Starfendarannsóknir (MVS302F, MVS301F, MVS011F)

Inntak / viðfangsefni
Á námskeiðinu verður farið yfir tilurð og þróun starfendarannsókna í ýmsum löndum, m.a. Japan, Ástralíu, Bandaríkjunum og Bretlandi. Rýnt verður í hugmyndafræði slíkra rannsókna og hinar margvíslegu myndir sem þær hafa tekið á sig og birtast í ólíkum orðum sem notuð eru um slíkar rannsóknir, t.d. starfendarannsóknir (action research), kennararannsóknir (teacher research), kennslurýni (lesson study), starfstengd sjálfsrýni (self-study) og practitioner research. Sérstök áhersla verður lögð á starfendarannsóknir í skólum og öðrum vettvangi menntunnar, þar á meðal á Íslandi og ákveðin dæmi skoðuð í því sambandi. Megináherslan í námskeiðinu er á að þátttakendur geri rannsókn á eigin starfi/starfsháttum og kynni hana í námskeiðinu. Ekki er skilyrði að nemendur séu í starfi þegar þeir taka námskeiðið.

Vinnulag
Námskeiðið er vettvangs- og samstarfsmiðað. Grunnhugmyndin er sú að þátttakendur geri rannsókn í tengslum við eigið starf í samráði við kennara og aðra þátttakendur í námskeiðinu og vinni úr henni í nánu samstarfi við kennara og aðra þátttakendur, t.d. í gegnum ígrundanir, kynningar og samræður. Nemendur halda leiðarbók eða rannsóknardagbók um rannsókn sínar og gera lestrardagbók í tengslum við lestur fræðigreina. Að auki taka þeir þátt í ýmis konar verkefnum og umræðum á netinu.

X

Samþætting námsgreina, skapandi nám og teymiskennsla (KME009F)

Mikilvægt er að hafa í huga að nemendur sem nú stunda nám í grunnskólum verða virkir þjóðfélagsþegnar langt fram á þessa öld. Margir þeirra munu vinna störf og með tækni sem enn hefur ekki verið fundin upp. Með hliðsjón af þessu þarf að haga námi þannig að það ýti undir áræðni nemenda, að þeir þori að koma hugmyndum sínum á framfæri og geti bæði gagnrýnt og tekið gagnrýni. Samþætting námsgreina felur í sér fjölmörg tækifæri til samvinnu kennara, og um leið teymiskennslu, um flest þau viðfangsefni sem glíma þarf við og þjálfar nemendur í margvíslegum vinnuaðferðum.

Fjallað verður um hugmyndir um samþættingu ýmissa námsgreina grunnskólans og skapandi starf, þar sem nemendur fá tækifæri til að taka virkan þátt í undirbúningi og mótun heildstæðra viðfangsefna. Farið verður í hugmyndafræði og skipulagningu samþættingar út frá ólíkum aðferðum og nálgunum. Þá kynnast nemendur kennsluaðferðum leiklistar og verða verkleg viðfangsefni mótuð út frá hugmyndum nemenda og sköpunargleði. Tekin verða margvísleg dæmi úr kennslu. Þátttakendur fá tækifæri til að skipuleggja viðfangsefni til að reyna í eigin kennslu út frá þessum hugmyndum. Jafnframt er lögð áhersla á að þátttakendur miðli hugmyndum og deili reynslu sinni.

Vinnulag
Fyrirlestrar, umræður, samvinna, verkefni og leiðsögn. Lögð er áhersla á samræðu og skoðanaskipti um efnið. Einnig að þátttakendur fái tækifæri til að skipuleggja viðfangsefni sem þeir geta prófað í eigin kennslu.
Kennsla fer fram eftir hádegi á fimmtudögum.

X

Fjöltyngi og kennslufræði (MAL103F)

Tungumál er nauðsynlegt tæki til tjáningar og samskipta og opnar dyr að þekkingu og skilningi á samfélögum. Þekking á tungumálum eykur víðsýni, stuðlar að vitsmunaþroska og betri skilningi á eigin menningu. Fjöltyngi tengist menntun, árangri og vellíðan nemenda.
Markmið námskeiðsins eru að þátttakendur kynnist leiðum til að meta og nýta tungumála- og menningarauðlindir nemenda,  og geti beitt kennsluaðferðum sem byggja á tungumálaforða fjöltyngdra barna og ungmenna til að efla nám þeirra.

X

Nám og kennsla: Að mæta sérþörfum (MAL102F)

Meginviðfangsefni námskeiðsins eru kennsluhættir og námsaðstæður sem miða að því að efla árangur fjölbreyttra nemendahópa, huga að styrkleikum þeirra og veikleikum í skóla án aðgreiningar með manngildi, lýðræði og félagslegt réttlæti að leiðarljósi. Fjallað er um algengustu sérþarfir nemenda og sérstök áhersla lögð á árangursríkar (gagnreyndar) leiðir til að mæta margbreytilegum þörfum nemenda og efla þá í námi, meðal annars til að draga úr vanda varðandi lestrarnám, hegðun, líðan, einbeitingu, ofvirkni og einhverfu. Samhliða er rætt um mikilvægi þess að hafa hæfileika og styrkleika nemenda ávallt í forgrunni og aðgreina erfiðleika frá eiginleikum einstaklinga. Einnig er fjallað um fjölmenningarkennslu og kennslu nemenda með annað móðurmál en íslensku. Kynntar eru helstu aðferðir við bekkjarstjórnun og einstaklingsmiðuð úrræði til að bæta hegðun, félagsfærni, líðan og námsárangur fjölbreytts hóps nemenda. Fjallað er um þverfaglegt samstarf, teymisvinnu og samvinnu við foreldra barna með sérþarfir. Umfjöllunarefni námskeiðsins grundvallast á hugmyndafræði skóla án aðgreiningar og rannsóknum á því sem vel hefur gefist við að mæta fjölbreytilegum nemendahópi, með það að markmiði að veita öllum nemendum jafngild tækifæri í námi.

X

Kennslufræði íslensku sem annars máls (ÍET102F)

Um námskeiðið

Námskeiði þessu er ætlað að efla þekkingu og skilning þátttakenda á íslenskunámi barna og nemenda með erlendan bakgrunn. Fjallað verður um  kennslufræði og kenningar í kennslu íslensku sem annars máls. Öll viðfangsefni hafa það meginmarkmið að auka færni þátttakenda til að beita markvissum og faglegum kennsluaðferðum í kennslu íslensku sem annars máls og stuðning við íslensku í faggreinakennslu, en einnig að hvetja til gagnrýnnar hugsunar við beitingu kennsluaðferða. Til viðbótar verður fjallað um fjölmenningarleg hæfni, samstarf við fjölskyldur, móðurmál og fjöltyngi í skólum,  og tungumálanám á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi. Námskeiðinu er enn fremur ætlað að hvetja til stöðugrar þekkingarleitar þannig að þátttakendur taki mið af nýjustu rannsóknum og kenningum hér á landi sem erlendis. 

X

Læsi og leshömlun (dýslexía) í tungumálanámi (ÍET005M)

Meginmarkmið námskeiðsins er að

  • þátttakendur öðlist haldgóða og fræðilega þekkingu og innsýn í helstu skilgreiningar, kenningar og rannsóknir um læsi og leshömlun í tengslum við tungumálanám,
  • gefa þátttakendum kost á að dýpka þekkingu sína og skilning á kenningum og rannsóknum á læsi og leshömlun í tengslum við tungumálanám.

Viðfangsefni:
Á þessu námskeiði munu þátttakendur kynnast rannsóknum, kenningum og vinnuaðferðum sem tengjast lesskilningi og ritun í tungumálanámi og sem hjálpa kennurum að koma til móts við nemendur sem eiga erfitt með að skilja og skrifa erlent mál. Farið verður ítarlega í kenningar um þróun lestrar, lestraraðferðir í tungumálanámi, tengsl lestrar og erlendra tungumála, orsakir og einkenni lestrar- og ritunarörðugleika og skilgreiningar á þessum erfiðleikum.

Vinnulag:
Námskeiðið byggist á fyrirlestrum og umræðum. Einnig munu þátttakendur vinna einir eða í smærri hópum að efnissöfnun og kynningum í málstofum á efni sem tengist áhugasviði þeirra.

X

Inngangur að foreldrafræðslu og uppeldisráðgjöf (FFU101M)

Viðfangsefni
Markmið námskeiðsins er að nemendur kynnist helstu kenningum og rannsóknum um uppeldi barna og undirbúi sig undir að geta frætt foreldra um þær aðferðir sem best hafa reynst. Fjallað verður um efnið á breiðum grunni, þannig að nemar fái sem víðasta sýn á uppeldishlutverkið og aðferðir til að sinna því sem best.

Vinnulag
Námskeiðið er skipulagt sem staðbundið. Kennsla fer fram í samræðum og gagnvirkum fyrirlestrum. Námið er auk þess byggt upp á lestri, hópvinnu, kynningum og skriflegum verkefnum.

Fyrirkomulag kennslu miðar við að nemendur geti stundað námið óháð búsetu. Þá er fjarfundabúnaður notaður í rauntíma fyrir nemendur sem búsettir eru fjarri höfuðborgarsvæðinu.

X

Foreldrafræðsla: Stuðningur við foreldra í uppeldishlutverkinu (FFU301F)

Fjallað verður um tilgang þess að styðja við hæfni foreldra og um hugtök, rannsóknir og kenningar um nám og þroska fullorðinna/foreldra. Þýðing þessara kenninga fyrir foreldrafræðslu og uppeldisráðgjöf verður skoðuð í gagnrýnu ljósi og greindir þættir sem hafa áhrif á samskipti foreldra og barna. Stuðlað verður að fagmennsku hvers og eins með áherslu á að kanna þá þekkingu og hæfni sem mikilvægt er að þeir sem sinna foreldrafræðslu og uppeldisráðgjöf búi yfir.

X

Hagnýting marglaga líkana með notkun jamovi (UMD077F)

Megináhersla námskeiðsins er á hagnýtingu marglaga líkana (e. multilevel models; mixed models; random-effects models). Marglaga líkön víkka notkunarmöguleika hefðbundinnar aðhvarfsgreiningar með því að stjórna fyrir hæði (e. dependencies) í úrtökum og gera þannig mögulegt að vinna með breytileika sem á upptök sín í ólíkum lögum (e. levels) úrtaksins. Þetta þriggja daga námskeið mun hefjast á upprifjun á aðhvarfsgreiningu með dæmum um fjölbreytuaðhvarfsgreiningu (e. multiple regression), samvirknigreiningu (e. moderated regression) og greiningu fyrir margliða aðhvarf (e. polynomial regression). Annar dagurinn verður helgaður tveggja laga líkönum sem mátuð verða við þversniðsgögn (t.d. frá klasaúrtaki nemendakönnunar þar sem fjöldi skóla hefur verið slembivalinn í stað nemendanna sjálfra). Þriðji dagurinn verður helgaður tveggja laga langtímalíkönum (t.d. þegar nemendur taka endurtekið þátt sömu könnun). Námskeiðið verður kennt þrjá daga í röð með fyrirlestrum, þar sem spurningum nemenda er svarað jafnóðum, og gagnvirkum dæmum sem nemendur eru hvattir til að endurtaka. Eftir hádegi leysa nemendur verkefni í jamovi á eigin tölvum. Stór hluti kennsluefnisins ásamt dæmum eru aðgengileg í opnum aðgangi (sjá https://gamlj.github.io).

X

Inngangur að megindlegri gagnagreiningu með notkun jamovi (UMD078F)

Jamovi er opið og aðgengilegt notendaviðmót sem byggt er á R tölfræðiforritunarmálinu (sjá jamovi.org). Markmið námskeiðsins er að gera nemendum mögulegt að framkvæma gagnagreiningar á eigin gögnum, setja gögn fram sjónrænt og beita algengustu tölfræðilíkönum með notkun jamovi. Fyrsti dagur þessa þriggja daga námskeiðs er helgaður kynningu á notendaviðmóti jamovi, notkun lýsandi tölfræði og sjónrænni framsetningu gagna. Annar dagurinn er helgaður ályktunartölfræði í vinnu með flokkabreytur og í samanburði tveggja meðaltala. Þriðji dagurinn er einnig helgaður ályktunartölfræði þar sem unnið er með línulegt samband samfelldra breyta með notkun fylgni- og aðhvarfsgreiningar. Sérstök áhersla verður lögð á sjónræna framsetningu gagna til að auka skilning og skýrleika í framsetningu. Námskeiðið verður kennt þrjá daga í röð með fyrirlestrum þar sem spurningum nemenda er svarað jafnóðum og gagnvirkum dæmum sem nemendur eru hvattir til að endurtaka. Eftir hádegi leysa nemendur verkefni í jamovi á eigin tölvum. Kennslubókin er eins og hugbúnaðurinn aðgengileg í opnum aðgangi (sjá https://www.learnstatswithjamovi.com).  

X

Gleðin í málinu: Árangursríkt leik- og grunnskólastarf (KME002F)

Tilgangur námskeiðsins er að þátttakendur efli þekkingu sína á mikilvægi málörvunar í leik og starfi með leik- og grunnskólabörnum. Þeir læri að beita árangursríkum aðferðum sem byggja á gleði og sköpun, styðja við aukinn málþroska og hvetja til virkrar málnotkunar barna.

Meginumfjöllunarefni eru: a) hvetjandi málumhverfi barna til aukinnar málnotkunar í daglegum aðstæðum b) ríkuleg gagnkvæm tjáskipti í leik barna, frjálsum og skipulögðum c) samveru- og lestrarstundir nýttar til eflingar orðaforða og samræðna þannig að öll börn taki þátt d) tónlist og söngur sem uppspretta eflingar málþroska barna e) leiklist sem tæki til aukinnar málnotkunar.

Vinnulag: Kennsla fer fram bæði í tímum og á vef námskeiðsins. Fyrirlestrar eru settir eru á vef námskeiðsins og nemendur taka þátt í umræðum í rauntíma og á vef.

Námskeiðið er vettvangs- og samstarfsmiðað og er gert ráð fyrir að þátttakendur myndi lærdómssamfélög. Í því felst að þátttakendur innan sama skóla eða milli skóla vinna sameiginlega að ákveðnum markmiðum sem þeir setja sér og viðhalda eftir að námskeiði lýkur. Þátttakendur fá tækifæri til að læra saman og styðja hver annan í að þróa starfshætti með börnum. Grunnhugmyndin er að þátttakendur líti á það sem sameiginlegt verkefni allra í skólasamfélaginu að styðja börn og hvetja til virkrar málnotkunar.

Þátttakendur halda leiðarbók, sem byggist á umfjöllun um hvert viðfangsefni, rýni í lesefni og eigið starf með börnum og ræða hvernig gengur að prófa leiðir sem kynntar eru á námskeiðinu. Auk þess taka þeir þátt í umræðum um valin umfjöllunarefni í tímum og á netinu.

Fyrir hverja er þetta námskeið?
Námskeiðið hentar öllum þeim sem vinna með börnum á aldrinum 1-7 ára. Námskeiðið er ætlað þeim sem starfa við leik- og grunnskóla, foreldrum og öðrum áhugasömum um málörvun barna. Námskeiðið gefur þátttakendum tækifæri til að afla sér góðrar grunnþekkingar á málþroska og helstu leiðum til að örva virka málnotkun barna. Námskeiðið gefur þannig góða undirstöðu fyrir fjölbreytt verkefni er varða málörvun barna almennt.

X

Íslenskt mál og menntun fjöltyngdra nemenda (ÍET206F)

Fjallað verður um íslensku sem annað mál og menntun fjöltyngdra grunnskólanemenda. Rætt verður um máltöku og máluppeldi og hver sé munurinn á því að öðlast færni í móðurmáli og öðru máli. Sérstök áhersla verður lögð á það sem kennarar þurfa almennt að kunna um íslenskt mál til að geta sinnt vel annars máls nemendum svo að þau nái framförum í þeirri námsgrein sem til umfjöllunar er.

Farið verður í uppbyggingu íslenska málkerfisins, framburð, orðmyndun, beygingar, setningagerð, merkingu orða og orðasambanda, lagskiptingu orðaforðans og ýmislegt sem viðkemur málnotkun, og fjallað um hvað getur helst vafist fyrir fjöltyngdum grunnskólanemendum sem eru að tileinka sér málið. Rætt verður um persónubundinn mun málhafa þegar þeir tileinka sér íslensku sem annað mál, með sérstaka áherslu á hvert móðurmál þeirra er til að geta greint hvar helst sé að vænta erfiðleika við tileinkun íslensku og til að geta brugðist við því.

Í framhaldi af þessu verður unnið með kennslu mismunandi faggreina og hvernig skipuleggja megi hana þannig að hún taki mið af mismunandi getu fjöltyngdra nemenda í íslensku. Meðal annars verður tekið fyrir hvernig hægt er að semja og einfalda texta svo að laga megi þá að getu fjöltyngdra nemenda í íslensku.

 

X

Hugmynda- og hönnunarvinna (LVG005M)

Lögð er áhersla á hugmynda- og hönnunarverkefni í tengslum við fatnað og textíl sem fléttað er sögu- og samtímalegri þróun. Áhersla er lögð á munsturgerð, liti og form, tískuteikningu, útlit og snið og tilraunir með textílaðferðir og textílhráefni. Unnin er skipulögð rannsóknarvinna við vinnuferlið frá gagnaöflun til úrvinnslu hugmyndar og hönnunar með nýsköpun að leiðarljósi. Lögð er áhersla á frágang og framsetningu verkefna í ferlilmöppu og til sýninga.

Öll fög eru skyldufög nemaVValfagBBundið val er háð skilyrðum ENámskeiðið er ekki kennt á misserinuNámsleiðin í Kennsluskrá

Hafðu samband

Kennsluskrifstofa Menntavísindasviðs

1. hæð, Stakkahlíð – Enni
s. 525 5950 mvs@hi.is

Opið kl. 8.15 – 15.00 alla virka daga

Fylgstu með Menntavísindasviði

 Instagram   Youtube 
 Facebook

Stakkahlíð

Hjálplegt efni

Ertu með fleiri spurningar? Hér finnurðu svör við ýmsum þeirra og upplýsingar um ýmislegt annað sem gott er að hafa í huga þegar þú velur nám.