Skip to main content
23. júní 2022

Mikilvægi þverfaglegrar samvinnu sjaldan verið meiri

Mikilvægi þverfaglegrar samvinnu sjaldan verið meiri - á vefsíðu Háskóla Íslands

Dagana 20.-21. júní sl. var haldin svokölluð NIPNET-ráðstefna í Veröld - húsi Vigdísar Finnbogadóttur. NIPNET hefur undanfarin 20 ár verið samstarfsvettvangur helstu sérfræðinga á Norðurlöndunum á sviði kennslu í þverfræðilegri samvinnu. Ráðstefnan var haldin á vegum Heilbrigðisvísindastofnunar Háskóla Íslands og er þetta í fyrsta skipti sem ráðstefna NIPNET fer fram á Íslandi.

NIPNET er norrænt net sérfræðinga innan heilbrigðis-, félags- og menntunarfræða sem kenna þverfræðilega samvinnu sem hluta af starfsnámi innan þessara sviða. Mörg af brýnustu verkefnum mannkyns kalla á þekkingu margra fagstétta þar sem samþætting þekkingar og samvinna er lykillinn að farsælli úrlausn. Auðvelt er að benda dæmi um þetta innan heilbrigðiskerfisins þar sem verkefni eru oft flókin og margþætt eins og t.d. umönnun langveikra með fjölþætt vandamál. Þar er svarið oftast þverfræðileg samvinna þar sem aðilar kunna að tala saman og vinna að sama marki til heilla fyrir sjúklinginn.

Eins og fyrr segir er þetta í fyrsta skipti sem Ísland býður upp á þetta samtal á þverfræðilegri samvinnu með NipNet ráðstefnu. Hingað komu helstu sérfræðingar í kennslu á þverfræðilegri samvinnu saman og miðluðu af reynslu sinni og rannsóknum. Sérstök áhersla var á gildi þverfræðilegrar kennslu bæði fyrir að nemendur á hverju fagsviði sem og bættri þjónustu innan heilbrigðis-, félags- og menntakerfisins. Fjölmargar stuttar vinnulotur fóru fram í málstofum báða dagana eins og sjá má á dagskrá ráðstefnunnar.

Það er mikilvægt fyrir Háskóla Íslands og Heilbrigðisvísindasvið að geta boðið upp á breitt námskeiðaval þar sem lögð er áhersla á þverfræðilega samvinnu eins og gert er á fyrsta- og þriðja ári allra nemenda í heilbrigðisvísindum innan HÍ. 

Skipuleggjendur ráðstefnunnar á vegum HÍ í og fulltrúar í starfi NIPNET eru Ólöf Guðný Geirsdóttir, dósent í Matvæla- og næringarfræðideild, og Ásta Bryndís Schram, dósent og kennsluþróunarstjóri Heilbrigðisvísindasviðs og hafa má samband við þær til að fá nánari upplýsingar um starfsemi samtakanna.

Þverfræðilegt samstarf þar sem samvinna og besta þekking hvers fagsviðs eiga þátt í að leysa flókin verkefni er mikilvægt innlegg í heimi sem verður sífellt flóknari.

Ólöf Guðný Geirsdóttir, dósent í Matvæla- og næringarfræðideild og Ásta Bryndís Schram, dósent og kennsluþróunarstjóri Heilbrigðisvísindasviðs voru skipuleggjendur ráðstefnunnar.
Inga Þórsdóttir forseti Heilbrigðisvísindasviðs flutti ávarp við upphaf Nipnet ráðstefnunnar.
Jette Steenberg Holtzmann frá Danmörku flutti inngangsorð ráðstefnunnar.
Ráðstefnugestir voru flestir frá Norðurlöndunum.