Skip to main content
26. júní 2020

Býðst nú starfsþjálfun hjá Hvíta húsinu

Ásta Dís Óladóttir, lektor og formaður grunnnámsnefndar í Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands og Elín Helga Sveinbjörnsdóttir, framkvæmdastjóri auglýsingastofunnar Hvíta húsið, undirrituðu í dag samning um starfsþjálfun fyrir nemendur og hefst hún haustið 2020. Við undirritun samningsins sagði Ásta Dís ,,það er mikill ávinningur af því að undirrita samning við Hvíta húsið fyrir nemendur sem sérhæfa sig í markaðsmálum. Það þekki ég af eigin raun því þegar ég starfaði sem framkvæmdastjóri Fríhafnarinnar á árunum 2010–2014, þá fórum við í gegnum endurmörkun á öllu útliti, umbúðum sem og merki félagsins í samvinnu við Hvíta húsið, sem að mínu mati heppnaðist afar vel og er notað enn í dag hjá Fríhöfninni. Þarna er fagfólk sem nemendur okkar munu án efa læra mikið af.“

Elín Helga sagði við þetta tilefni ,,Við hjá Hvíta húsinu erum þakklát fyrir að fá að taka þátt í miðlun þekkingar, því við gerum miklar kröfur til okkar sjálfra um stöðuga endurmenntun. Við lítum á þetta sem gott tækifæri til að kynna auglýsingageirann fyrir nemendum Háskólans og mikilvægi faglegra markaðsmála í fyrirtækjum almennt."

Þeim fyrirtækjum sem hafa áhuga á að slást í hópinn er bent á að hafa samband við Jónínu Kárdal (joninaka@hi.is) hjá Tengslatorgi HÍ en Tengslatorg (tengslatorg.hi.is) er stafrænn samstarfsvettvangur Háskóla Íslands og atvinnulífsins þar sem hægt er að koma á samstarfi við nemendur og rannsakendur skólans.

Starfsfólk Hvíta hússins fagnar verðlaununum fyrirtæki ársins 2020