Skip to main content

Valdís Huld Jónsdóttir

Valdís Huld Jónsdóttir
Iðnaðarlíftækni, MS

Reynslan mín af Iðnaðarlíftækni við Háskóla Íslands var einstaklega áhugaverð og spennandi. Ég var með grunn í lyfjafræði en hafði einnig löngun til að læra lífefna- og sameindalíffræði. Þetta nám gaf mér möguleika á að bæta við mig þekkingu á þeim sviðum og velja mér nánar það sem ég hafði áhuga á. Námið var bæði fræðilegt og praktískt, þar sem stór hluti þess var að tengja það við raunverulegar aðstæður og vinnumarkaðinn. Þetta var lítill bekkur sem gerði okkur kleift að tengjast leiðbeinendum og prófessorum persónulega sem ég tel vera mikinn kost við þetta nám, og gerði mér kleift að uppskera meira úr því.

Hefði helst viljað halda áfram og læra meira

4. apríl 2024

Héðinn Unnsteinsson, stefnumótunarsérfræðingur og rithöfundur, lauk námi í sálgæslu frá Endurmenntun HÍ í fyrra. Héðinn hefur komið að geðheilbrigðismálum í rúm 30 ár með einum eða öðrum hætti og var formaður Geðhjálpar í þrjú ár. Hann segir námið hafa komið sér vel og að það hafi dýpkað reynslu sína.

„Það sem stendur upp úr í náminu er fyrst og fremst hvernig það tók hamskiptum. Fyrst lærir maður um eitthvað; sorg, missi, áföll, kenningar og slíkt. Fyrr en varir er maður svo farinn að vinna með þætti sem snúa að eigin reynslu,“ segir Héðinn og að hann hafi skynjað að samnemendur hans hafi verið honum sammála um að lífsreynsla þeirra varð viðfang námsins með tímanum.

Fjölbreytt tækifæri til starfsþjálfunar

18. ágúst 2020

Nemendum á þriðja ári við Viðskiptafræðideild býðst frá og með haustinu 2020 einstakt tækifæri til starfsþjálfunar hjá fjölmörgum framsæknum fyrirtækjum, stofnunum og félagasamtökum í kjölfar samstarfssamninga sem gerðir hafa verið á undanförum mánuðum. Á annan tug samninga hafa þegar verið gerðir og fleiri eru í burðarliðnum. Stutt námskeið fyrir nemendur vegna mögulegrar starfsþjálfunar hefjast núna í vikunni.

Bjargvættir á bráðavaktinni

Bergrós K. Jóhannesdóttir, deildarlæknir á skurðsviði Landspítala og MS-nemi við Læknadeild 

Mikla athygli vakti í vetur þegar heilbrigðisteymi, undir stjórn Tómasar Guðbjartssonar hjarta- og lungnaskurðlæknis á Landspítala og prófessors við Háskóla Íslands, bjargaði manni eftir lífshættulega hnífsstungu. Hnífurinn hafði numið staðar í hjarta mannsins. Þetta er ekki einsdæmi því síðastliðinn áratug hefur tekist að bjarga fjölda sjúklinga á Landspítala með bráðaskurðaðgerð eftir lífshættulega áverka, meðal annars vegna blæðinga frá hjarta og lungum.

Ástæða þótti til að kanna hver árangur þessara aðgerða væri hér á landi með hliðsjón af því sem tíðkast í nágrannalöndunum en þetta eru flóknar aðgerðir og sjúklingarnir eru oftast í mikilli lífshættu við komu á sjúkrahúsið. Rannsóknin er samvinnuverkefni Landspítala og Háskóla Íslands og beinist aðallega að aðgerðunum og árangri þeirra en einnig að tíðni þessara áverka hér á landi.

Fæðingatíðnin og hrunið

Stefán Hrafn Jónsson, prófessor við Félags- og mannvísindadeild

Fæðingum á Íslandi hefur fækkað jafnt og þétt frá hruni. Árið 2009 var slegið met í fæðingum þegar 5.026 börn fæddust en þau reyndust aðeins 4.129 árið 2015. Tímasetningin gefur til kynna að þessi þróun gæti hugsanlega tengst hruninu og kreppunni sem kom í kjölfar þess. Stefán Hrafn Jónsson, doktor í lýðfræði og félagsfræði, hyggst kryfja þetta mál til mergjar en hann rannsakar félags- og efnahagslega áhrifaþætti fæðinga fyrir og eftir efnahagshrun.

Lokaverkefnið í MBA-námi sjálfbærnistefna fyrir Öryggismiðstöðina

15. nóvember 2023

Fjallað er um lokaverkefni Auðar Lilju Davíðsdóttur í MBA-námi hennar við Háskóla Íslands á vef AMBA, sem er alþjóðlegur vottunaraðili MBA náms (Association of MBA's), en í verkefninu innleiddi hún sjálfbærniáætlun á vinnustað sínum, Öryggismiðstöðinni. 

Auður Lilja stundaði MBA-nám við Háskóla Íslands á árunum 2019-2021 og í viðtalinu við hana á vef AMBA, sem birtist undir liðnum „Sögur af velgengni MBA-nema“, ræðir Auður Lilja reynsluna af náminu og hvernig hún hefur nýst henni í störfum sem markaðsstjóri Öryggismiðstöðvarinnar. 

Auður Lilja segist hafa valið MBA-námið við Háskóla Íslands þar sem mælt hafi verið með því en auk þess sé það í góðum tengslum við atvinnulífið og kennararnir vel þekktir og virtir. „Þetta var því frekar auðvelt val,“ segir hún. 

Tekjutengdur ójöfnuður og heilsa

Tinna Laufey Ásgeirsdóttir, prófessor við Hagfræðideild 

Tengsl milli tekna og heilsufars eru eitt af þeim viðfangsefnum sem heilsuhagfræðingar glíma við í rannsóknum sínum. Tinna Laufey Ásgeirsdóttir, prófessor í hagfræði, beindi nýverið sjónum sínum að því hvað það er í stofnana- og samfélagsgerð landa sem dregur úr tekjutengdum ójöfnuði varðandi heilsufar.

„Tekjuhærri einstaklingar búa jafnan við betri heilsu en þeir tekjulægri. Þetta kemur ekki á óvart. Það kemur hins vegar á óvart að rannsóknir benda oft til meiri ójöfnuðar í þessu tilliti á Norðurlöndum en víðast hvar annars staðar í Evrópu. Þetta hefur valdið heilabrotum, ekki síst í ljósi þeirra umfangsmiklu heilbrigðis- og velferðarkerfa sem rekin eru á Norðurlöndunum. Þetta þarf að skýra,“ segir Tinna, sem vann verkefnið, sem styrkt var af Rannsóknarsjóði Íslands, ásamt Dagnýju Ósk Ragnarsdóttur hagfræðingi.

Þungburar fá frekar fæðingaráverka

Harpa Viðarsdóttir, doktorsnemi við Læknadeild

„Þessi rannsókn snýst um að skoða áhættuþætti við fæðingu mjög þungra barna, sem eru um og yfir fimm kíló við fæðingu. Ég kannaði einnig afdrif bæði mæðranna og barnanna við fæðinguna,“ segir Harpa Viðarsdóttir, læknir og doktorsnemi.

„Fyrir fáeinum árum hafði ég áhuga á fæðinga- og kvensjúkdómalækningum og vildi því vinna verkefni á því sviði. Ég talaði við prófessorinn í faginu, Reyni Tómas Geirsson, sem viðraði þetta viðfangsefni við mig og mér þótti það afar áhugavert. Í dag á þetta enn vel við mig þar sem ég er á leið í sérnám í barnalækningum.“

Rannsóknin sjálf hófst sem þriðja árs verkefni í Læknadeild. „Fljótlega kom þó í ljós að athugun á þyngd við fæðingu gat auðveldlega orðið mun viðameira verkefni. Mér þótti þetta rannsóknarefni skemmtilegt og áhugavert og tók því ekki annað í mál en að klára rannsóknina,“ segir Harpa.

Fermast unglingar bara fyrir gjafirnar?

Þuríður Björg W. Árnadóttir, mag. theol. frá Guðfræði- og trúarbragðafræðideild

„Í gegnum námið í Guðfræði- og trúarbragðafræðideild heyrum við að fermingar séu gagnrýndar og spurt er hvort þetta sé ekki orðið úrelt og af hverju kirkjan sé að standa í þessu. Í kjölfarið ákvað ég að spyrja unglingana sjálfa hvað þeim fyndist um ferminguna.“ Þetta segir Þuríður Björg W. Árnadóttir sem í rannsókn sinni til meistaragráðu í guðfræði rannsakaði fermingarfræðsluefni og trúarþroskakenningar og í kjölfarið hvað fermingarbörn staðfesta á fermingardaginn.

Í rannsókninni greindi Þuríður hvernig þjóðkirkjan og Siðmennt haga sinni fermingarfræðslu og komst að því að í raun er sama efni kennt, annars vegar með trúarlegum aðferðum og hins vegar húmanískum. Eftir samtöl við hóp unglinga sá Þuríður að einungis einn hafði fermst fyrir gjafirnar en hin sáu að þetta snerist um meira en gjafirnar og voru ánægð með ferminguna.

Rannsakar ofbeldi gegn öldruðum

Kristbjörg Sóley Hauksdóttir, MA-nemi við Félagsráðgjafardeild

Erlendar rannsóknir benda til þess að ofbeldi inni á hjúkrunarheimilum sé mjög algengt en efnið sem slíkt hefur ekki verið rannsakað hér á landi fyrr en nú. Kristbjörg Sóley Hauksdóttir, meistaranemi í öldrunarfræðum við Félagsráðgjafardeild, vinnur að rannsókn um viðhorf, þekkingu og reynslu starfsfólks af ofbeldi gegn öldruðum inni á hjúkrunarheimilum á höfuðborgarsvæðinu.

Áhugi Kristbjargar á viðfangsefninu kviknaði eftir að hafa unnið sem sjúkraliði á hjúkrunarheimilum síðastliðin tólf ár. „Mér fannst ekkert annað koma til greina sem rannsóknarverkefni. Ég ákvað þetta sem sagt áður en ég fór í öldrunarfræði. Mig langaði að skoða þetta betur því að ég hafði kynnt mér greinar og þetta hafði ekki verið rannsakað inni á hjúkrunarheimilum, aðeins í heimaþjónustu árið 2010. Erlendar rannsóknir sýna að ofbeldi inni á hjúkrunarheimilum er alveg ótrúlega algengt,“ segir Kristbjörg.

Pages