Fæðingatíðnin og hrunið | Háskóli Íslands Skip to main content

Fæðingatíðnin og hrunið

Stefán Hrafn Jónsson, prófessor við Félags- og mannvísindadeild

Fæðingum á Íslandi hefur fækkað jafnt og þétt frá hruni. Árið 2009 var slegið met í fæðingum þegar 5.026 börn fæddust en þau reyndust aðeins 4.129 árið 2015. Tímasetningin gefur til kynna að þessi þróun gæti hugsanlega tengst hruninu og kreppunni sem kom í kjölfar þess. Stefán Hrafn Jónsson, doktor í lýðfræði og félagsfræði, hyggst kryfja þetta mál til mergjar en hann rannsakar félags- og efnahagslega áhrifaþætti fæðinga fyrir og eftir efnahagshrun.

„Við fyrstu sýn virðist sem hrunið hafi ekki haft mikil áhrif,“ segir Stefán sem ekki hefur fengið neinar haldbærar niðurstöður enn „en þetta er áhugavert tækifæri til að skilja betur ákvörðun fólks um að eignast barn.“ Stefán segir mörg öfl vera á bak við ákvörðunina, til dæmis hvort fólk hafi tíma til þess yfir höfuð eða hvort það telji sig þurfa barn til að gera sig hamingjusamt. „Þetta er ekki bara spurning um peninga. Þetta er spurning um hvernig fólk vill verja lífi sínu.“

Kveikjan að rannsókninni var áhugi fjölmiðla á því hvort hrunið hefði áhrif á fæðingatíðni Íslendinga en hún hefur verið há miðað við önnur Evrópulönd í sögulegu ljósi. Rannsóknin fellur vel að áhugasviði Stefáns en doktorsverkefni hans fjallaði um fæðingatíðni mexíkóskra kvenna í Bandaríkjunum. „Fæðingin og dauðinn eru merkilegustu atburðir í lífi hvers manns og finnast mér þeir mjög spennandi viðfangsefni,“ segir Stefán og að hans mati vantar fleiri félagsfræðilegar rannsóknir í þeim efnum hér á landi.

„Við fyrstu sýn virðist sem hrunið hafi ekki haft mikil áhrif en þetta er áhugavert tækifæri til að skilja betur ákvörðun fólks um að eignast barn.“ 

Stefán Hrafn Jónsson

Góðar líkur eru á því að rannsóknin verði hluti af samnorrænu verkefni sem Háskólinn í Stokkhólmi mun halda utan um. Norrænir lýðfræðingar eru að rannsaka fæðingar, búferlaflutninga og fleiri þætti á Norðurlöndunum og ætlar Stefán að verða samferða þeim. Rannsóknin mun því ekki hefjast fyrr en styrkur fæst til verkefnisins.

Með því að átta sig betur á fæðingarhegðun Íslendinga má byggja nákvæmari mannfjöldaspá en hún hefur mikið hagnýtt gildi fyrir hagstærðir framtíðarinnar, til dæmis vinnumarkaðinn. Slíkar upplýsingar eru einnig grundvöllur fyrir markvissri og vel mótaðri fjölskyldustefnu en því betri sem hún er, þeim mun eftirsóknarverðara verður að búa með börn á Íslandi.