Skip to main content

Tekjutengdur ójöfnuður og heilsa

Tinna Laufey Ásgeirsdóttir, prófessor við Hagfræðideild 

Tengsl milli tekna og heilsufars eru eitt af þeim viðfangsefnum sem heilsuhagfræðingar glíma við í rannsóknum sínum. Tinna Laufey Ásgeirsdóttir, prófessor í hagfræði, beindi nýverið sjónum sínum að því hvað það er í stofnana- og samfélagsgerð landa sem dregur úr tekjutengdum ójöfnuði varðandi heilsufar.

„Tekjuhærri einstaklingar búa jafnan við betri heilsu en þeir tekjulægri. Þetta kemur ekki á óvart. Það kemur hins vegar á óvart að rannsóknir benda oft til meiri ójöfnuðar í þessu tilliti á Norðurlöndum en víðast hvar annars staðar í Evrópu. Þetta hefur valdið heilabrotum, ekki síst í ljósi þeirra umfangsmiklu heilbrigðis- og velferðarkerfa sem rekin eru á Norðurlöndunum. Þetta þarf að skýra,“ segir Tinna, sem vann verkefnið, sem styrkt var af Rannsóknarsjóði Íslands, ásamt Dagnýju Ósk Ragnarsdóttur hagfræðingi.

Tinna Laufey Ásgeirsdóttir

„Tekjuhærri einstaklingar búa jafnan við betri heilsu en þeir tekjulægri. Þetta kemur ekki á óvart. Það kemur hins vegar á óvart að rannsóknir benda oft til meiri ójöfnuðar í þessu tilliti á Norðurlöndum en víðast hvar annars staðar í Evrópu.“

Tinna Laufey Ásgeirsdóttir

Hún segir viðfangsefnið mjög mikilvægt í ljósi þess að gríðarlegum fjármunum sé varið í opinber heilbrigðiskerfi og aðrar íhlutanir sem eru að hluta til gerðar til að draga úr tengslum á milli tekna og heilsufars.

Við rannsóknina nýttu Tinna og Dagný ítarlegar upplýsingar um 440 þúsund manns í 26 Evrópulöndum. „Þannig höfðum við töluverðar upplýsingar bæði um breytileika á milli einstaklinga innan sama samfélags og jafnframt milli einstaklinga sem búa við ólíka stofnanagerð í ólíkum samfélögum,“ útskýrir Tinna.

„Rannsóknin sýnir að tilfærslur á fjármunum sem verða í gegnum norrænu skattkerfin draga úr heilsufarslegum ójöfnuði en útgjöld til heilbrigðismála gera það síður. Niðurstöður fyrri rannsókna má að einhverju leyti skýra með því að rannsakendur notuðu eingöngu heildartekjur fyrir skatta og tilfærslur á fjármunum en ekki ráðstöfunartekjur í rannsóknum sínum. Við notuðum hvort tveggja. Af niðurstöðum okkar má álykta, eins og af fyrri niðurstöðum, að heilbrigðisútgjöld hins opinbera séu ekki veigamikið tæki til þess að draga úr tekjutengdum ójöfnuði hvað heilsufar varðar,“ segir Tinna um niðurstöður rannsóknarinnar sem birtust í tímaritinu International Journal for Equity in Health.