Skip to main content

Rannsakar ofbeldi gegn öldruðum

Kristbjörg Sóley Hauksdóttir, MA-nemi við Félagsráðgjafardeild

Erlendar rannsóknir benda til þess að ofbeldi inni á hjúkrunarheimilum sé mjög algengt en efnið sem slíkt hefur ekki verið rannsakað hér á landi fyrr en nú. Kristbjörg Sóley Hauksdóttir, meistaranemi í öldrunarfræðum við Félagsráðgjafardeild, vinnur að rannsókn um viðhorf, þekkingu og reynslu starfsfólks af ofbeldi gegn öldruðum inni á hjúkrunarheimilum á höfuðborgarsvæðinu.

Áhugi Kristbjargar á viðfangsefninu kviknaði eftir að hafa unnið sem sjúkraliði á hjúkrunarheimilum síðastliðin tólf ár. „Mér fannst ekkert annað koma til greina sem rannsóknarverkefni. Ég ákvað þetta sem sagt áður en ég fór í öldrunarfræði. Mig langaði að skoða þetta betur því að ég hafði kynnt mér greinar og þetta hafði ekki verið rannsakað inni á hjúkrunarheimilum, aðeins í heimaþjónustu árið 2010. Erlendar rannsóknir sýna að ofbeldi inni á hjúkrunarheimilum er alveg ótrúlega algengt,“ segir Kristbjörg.

„Oft eru það þeir sem eru í mestri hættu á að verða fyrir ofbeldi, eins og fólk með mikla heilabilun. Það er náttúrulega ekki í neinni aðstöðu til þess að verja sig á nokkurn hátt eða kvarta.“

Kristbjörg Sóley Hauksdóttir

Kristbjörg lagði spurningalista fyrir starfsfólk fjögurra hjúkrunarheimila þar sem starfsfólk skilgreindi hvað það teldi vera ofbeldi og upplýsti um hvort það hefði orðið vitni að slíku í sínu starfi. Hún tekur fram að skilgreiningin á ofbeldi geti verið afar mismunandi á milli manna. Hún tekur sem dæmi að sumum finnist í lagi að hunsa einstaklinga eða að taka þá jafnvel út úr hópnum vegna þess að þeir valdi svo miklu ónæði.

„Oft eru það þeir sem eru í mestri hættu á að verða fyrir ofbeldi, eins og fólk með mikla heilabilun. Það er náttúrulega ekki í neinni aðstöðu til þess að verja sig á nokkurn hátt eða kvarta,“ segir Kristbjörg og leggur jafnframt áherslu á að starfsfólkið sé ekki að gera þetta af illsku. Hún telur þessi viðbrögð starfsfólks fyrst og fremst stafa af þekkingarleysi þar sem stundum vanti fagfólk til umönnunarstarfa á hjúkrunarheimilum, til að mynda við sjúkraliðastörf. Hún bendir einnig á að oft geti aðstæður inni á hjúkrunarheimilum verið ansi krefjandi.

Rannsókn Kristbjargar er enn í vinnslu og því liggja niðurstöður ekki fyrir en Kristbjörg vonar að fleiri sams konar rannsóknir verði gerðar og jafnvel að stofnuð verði nefnd sem geti tekið á vandamálinu og aukið fræðslu um málefni aldraðra.

Leiðbeinandi: Sigurveig H. Sigurðardóttir, dósent við Félagsráðgjafardeild.