Skip to main content

Þungburar fá frekar fæðingaráverka

Harpa Viðarsdóttir, doktorsnemi við Læknadeild

„Þessi rannsókn snýst um að skoða áhættuþætti við fæðingu mjög þungra barna, sem eru um og yfir fimm kíló við fæðingu. Ég kannaði einnig afdrif bæði mæðranna og barnanna við fæðinguna,“ segir Harpa Viðarsdóttir, læknir og doktorsnemi.

„Fyrir fáeinum árum hafði ég áhuga á fæðinga- og kvensjúkdómalækningum og vildi því vinna verkefni á því sviði. Ég talaði við prófessorinn í faginu, Reyni Tómas Geirsson, sem viðraði þetta viðfangsefni við mig og mér þótti það afar áhugavert. Í dag á þetta enn vel við mig þar sem ég er á leið í sérnám í barnalækningum.“

Rannsóknin sjálf hófst sem þriðja árs verkefni í Læknadeild. „Fljótlega kom þó í ljós að athugun á þyngd við fæðingu gat auðveldlega orðið mun viðameira verkefni. Mér þótti þetta rannsóknarefni skemmtilegt og áhugavert og tók því ekki annað í mál en að klára rannsóknina,“ segir Harpa.

Harpa Viðarsdóttir

Fyrir fáeinum árum hafði ég áhuga á fæðinga- og kvensjúkdómalækningum og vildi því vinna verkefni á því sviði. Ég talaði við prófessorinn í faginu, Reyni Tómas Geirsson, sem viðraði þetta viðfangsefni við mig og mér þótti það afar áhugavert.

Harpa Viðarsdóttir

Niðurstöður úr hluta rannsóknarinnar hafa verið birtar í grein í hinu virta vísindatímariti American Journal of Obstetrics and Gynecology. Þær helstu sýna að mjög þungir nýburar voru nær eitt prósent af öllum lifandi fæddum einburum á rannsóknartímabilinu.

„Framköllun á fæðingu hjá mæðrum mjög þungra nýbura gekk ekki með sama hætti og hjá öðrum mæðrum auk þess sem þessar mæður voru líklegri til að fara í bráðakeisaraskurð en aðrar mæður. Einnig voru axlarklemma og fæðingaráverkar líklegri hjá mjög þungum nýburum en börnum með eðlilega fæðingarþyngd,“ segir Harpa.

Í framhaldi af verkefninu er nú annað verkefni í gangi þar sem vöxtur barnanna er skoðaður með hættuna á offitu í huga.

Að sögn Hörpu hefur rannsókn hennar aukið þekkingu á áhrifum fæðingarþyngdar barna, sem sé sérstaklega mikilvægt hér á landi. „Þau börn sem fæðast þung eru hlutfallslega fleiri hér en gengur og gerist. Rannsóknin hefur gagnast við að ákveða fæðingarmáta þegar grunur leikur á að barn í móðurkviði sé mjög þungt.”

Leiðbeinendur: Reynir Tómas Geirsson, prófessor við Læknadeild, Atli Dagbjartsson, prófessor emeritus, Hildur Harðardóttir, dósent við Læknadeild, og Unnur Anna Valdimarsdóttir, prófessor við Miðstöð í lýðheilsuvísindum.