Skip to main content

Fermast unglingar bara fyrir gjafirnar?

Þuríður Björg W. Árnadóttir, mag. theol. frá Guðfræði- og trúarbragðafræðideild

„Í gegnum námið í Guðfræði- og trúarbragðafræðideild heyrum við að fermingar séu gagnrýndar og spurt er hvort þetta sé ekki orðið úrelt og af hverju kirkjan sé að standa í þessu. Í kjölfarið ákvað ég að spyrja unglingana sjálfa hvað þeim fyndist um ferminguna.“ Þetta segir Þuríður Björg W. Árnadóttir sem í rannsókn sinni til meistaragráðu í guðfræði rannsakaði fermingarfræðsluefni og trúarþroskakenningar og í kjölfarið hvað fermingarbörn staðfesta á fermingardaginn.

Í rannsókninni greindi Þuríður hvernig þjóðkirkjan og Siðmennt haga sinni fermingarfræðslu og komst að því að í raun er sama efni kennt, annars vegar með trúarlegum aðferðum og hins vegar húmanískum. Eftir samtöl við hóp unglinga sá Þuríður að einungis einn hafði fermst fyrir gjafirnar en hin sáu að þetta snerist um meira en gjafirnar og voru ánægð með ferminguna.

Þuríður Björg W. Árnadóttir

Í rannsókninni greindi Þuríður hvernig þjóðkirkjan og Siðmennt haga sinni fermingarfræðslu og komst að því að í raun er sama efni kennt, annars vegar með trúarlegum aðferðum og hins vegar húmanískum.

Þuríður Björg W. Árnadóttir

Niðurstöðurnar komu Þuríði á óvart. „Ég bjóst við að unglingarnir hefðu ekki þann trúarþroska til að vita um hvað ferming snýst og hvað þau eru að staðfesta með fermingunni en rannsóknin sýndi einmitt að þau hafa þennan þroska.“

Metur Þuríður það svo að fermingarfræðslan sé mikilvægur þáttur í lífi þeirra, hvort sem hún fari fram hjá þjóðkirkjunni eða Siðmennt. Kennslan snúist um þá siðfræði sem samfélagið samþykkir og búi unglinga undir að vera hluti af samfélaginu.

Að mati Þuríðar er sú þróun, að fleiri og fleiri unglingar velji að fermast borgaralega, góð þar sem það sýni að þeir taki sjálfstæða ákvörðun um ferminguna og að þeir þori að stíga fram og segjast ekki trúa vegna þess að það séu aldrei allir í 20-30 manna bekkjum sem trúi.

„Ég kem úr guðfræðinni og mér fannst svo mikilvægt að ég talaði um það í ritgerðinni að fermingarfræðslan er misjöfn eftir kirkjum. Prestar mega haga sinni fræðslu eins og þeir vilja og prestar eru eins misjafnir og þeir eru margir. Ég held að það sé mikilvægt að kirkjan passi að hún sé í takti við tímann og því mikilvægt að bera þetta saman og sjá hvað hinir eru að gera gott. Þótt það sé gert á mismunandi forsendum er gott að sjá hvað hver er að gera sem virkar og öfugt.“

Leiðbeinandi: Pétur Pétursson, prófessor við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild.