Skip to main content

Fagháskólanám í leikskólafræði - Grunndiplóma

Fagháskólanám í leikskólafræði - Grunndiplóma

Menntavísindasvið

Fagháskólanám í leikskólafræði

Grunndiplóma – 60 einingar

Námsleið fyrir þau sem lokið hafa leikskólaliðanámi eða leikskólabrú á framhaldsskólastigi.

Námið er samstarfsverkefni HÍ og HA og er kennt í fyrsta skiptið haustið 2023.

Skipulag náms

X

Leikskólafræði (LSK001G)

Námskeiðið miðar að því að nemendur öðlist þekkingu og innsýn í hlutverk og stöðu leikskólans í íslensku menntakerfi, hvernig ólík hugmyndafræði, sýn og viðhorf endurspeglast í markmiðum og starfsháttum leikskóla og hlutverk leikskólakennara í námi barna.

Námskeiðið er inngangsnámskeið í leikskólafræði þar sem m.a. er lögð áhersla á að kynna menntunarhlutverk leikskóla og starfsvettvang leikskólakennara. Lögð er til grundvallar sú sýn að börn eigi rétt á krefjandi viðfangsefnum og tækifærum til að taka þátt í samfélagi sem byggir á jafnrétti og lýðræðislegri þátttöku.

X

Fræðileg skrif og gagnrýninn lestur (LSK002G)

Meginmarkmið námskeiðsins er að búa nemendur í háskólanámi undir lestur og ritun fræðilegra texta og þjálfa þá í gagnrýnum lestri enda er hvort tveggja grundvallaratriði í öllu háskólanámi. 

Fjallað verður um ýmsar tegundir fræðilegs efnis og framsetningar á því. Nemendur kynnast helstu einkennum fræðilegra skrifa og læra hvað felst í ritstýrðum og/eða ritrýndum textum. Nemendur öðlast þjálfun í að lesa, greina og meta slíka texta. Rætt verður um sjálfstæð, gagnrýnin og heiðarleg vinnubrögð ásamt því sem fjallað verður um höfundarrétt, ritstuld og falsfréttir.

Nemendur öðlast færni í að vinna efni upp úr fræðilegum texta, svo sem útdrætti, og að flétta saman heimildir við eigin texta. Rætt verður ítarlega um fræðilegar ritgerðir á háskólastigi og nemendur fá þjálfun við gerð slíkra ritgerða. Þá verður fjallað um viðeigandi málnotkun í fræðilegum skrifum og hún þjálfuð.

Fjallað verður sérstaklega um heimildaleit og heimildamat; gæði heimilda og hvernig greina megi vandaðar heimildir frá óvönduðum. Þá fá nemendur þjálfun í heimildaskráningu. Einnig verða nemendur þjálfaðir í að nota heimildir í eigin skrifum og greina milli eigin raddar og heimildarinnar sjálfrar.

X

Málþroski og bernskulæsi (LSK003G)

Námskeiðið skiptist í tvo nátengda meginþætti. Annars vegar er um að ræða kenningar um máltöku, rannsóknir á málþroska, þróun máls og tvítyngi hjá 0–6 ára börnum. Hins vegar bernskulæsi sem m.a. felur í sér skilning, hljóðkerfisvitund, bókstafaþekkingu og þróun ritmáls. Áhersla er lögð á barnabókmenntir, leik og samskipti sem námsleiðir við töku máls og læsis. Lögð er áhersla á mikilvægi samstarfs við foreldra í tengslum við málörvun og matsleiðir kynntar. Í námskeiðinu vinna nemendur verkefni á vettvangi þar sem þeir gera athuganir á mál- og læsisþekkingu barna.

X

Hreyfing og leikræn tjáning, úti og inni (LSK004G)

Kynntar verða leiðir í leikrænni tjáningu sem tengjast umhyggju, trausti og öryggiskennd barna sem leið til að efla umburðarlyndi, vináttu og tjáningu. Fjallað er um mikilvægi hreyfingar og hreyfiuppeldis, kynntar leiðir til tjáningar og líkamsþjálfunar sem hæfa börnum í leikskóla og yngri bekkjum grunnskóla. Fjallað er um val leikja og sköpun í tengslum við aðra þætti skólastarfs.

X

Leikur, kenningar og leikþroski (LSK005G)

Í námskeiðinu er fjallað um sögulegan bakgrunn leiksins og hugmyndir og viðhorf til hans. Kafað er í helstu kenningar um leik og leikþroska með áherslu á mikilvægi leiksins sem náms- og þroskaleiðar barna. Farið er í birtingarmyndir leiks og leikgerðir, sem og kenningar um áhrif leiks á heilaþroska og þá um leið almennan þroska einstaklinga. Einnig er viðfangsefnið hvernig leikur endurspeglar reynsluheim barna, þann menningarheim og það samfélag sem þau búa í. Hugað er að gildi vináttu í leik og leikþroska barna og hvernig samskipti geta verið bæði jákvæð og neikvæð (s.s. einelti). Í námskeiðinu vinna nemendur verkefni á vettvangi.

X

Sköpun og samþætting (LSK008G)

Í námskeiðinu munu nemendur byggja upp þekkingu sína á skapandi starfi með ungum börnum, sköpunarferli, tjáningu og námi sem á sér stað þegar hugmyndir, tilfinningar og ímyndun ungra barna fá að njóta sín. Í námskeiðinu fá nemendur þjálfun í að vinna á skapandi hátt með börnum að myndlist, tónlist, dansi og leikrænni tjáningu, auk þess sem þeir læra að tengja skapandi vinnu fjölbreyttum viðfangsefnum, s.s. sjálfbærni, menningu, tækni og vísindum. Jafnframt verður lögð áhersla á að nemendur kynnist helstu kenningum um gildi listuppeldis fyrir ung börn.

X

Yngstu börnin í leikskólanum (LSK006G)

Í námskeiðinu er fjallað um nám ungra barna (1-3ja ára) í leikskóla. Í brennidepli er virkni ungra barna í sköpun eign þekkingar gegnum fjölbreytta tjáningu s.s. hreyfingu, leik, tónlist og myndsköpun. Fjallað er um aðlögun, samskipti og samstarf leikskólakennara við fjölbreyttan foreldra- og barnahóp. Rýnt er í hvernig umgjörð leikskólastarfsins; umhyggja, tengsl, daglegar athafnir, leikumhverfi og skráningar styðja við nám og þátttöku barna

X

Náttúruvísinda- og stærðfræðikennsla (LSK007G)

Námskeiðinu er ætlað að gefa nemendum innsýn í kennslu og vinnu í náttúruvísindum og stærðfræði á yngsta stigi grunnskóla og með eldri börnum leikskóla. Viðfangsefni miðast við aðalnámskrá leik- og grunnskóla. Skoðað verður samhengi kennslu og kenninga um náttúruvísinda- og stærðfræðinám og fjallað um kennsluhætti og námsaðstæður ungra nemenda. Nemendur kynnast verklegum tilraunum, gera sjálfir áætlanir um verklega kennslu og vinnu og kynna þær samnemendum sínum. Í námskeiðinu vinna nemendur verkefni á vettvangi.

X

Tónlist í lífi ungra barna (LSK009G)

Á þessu námskeiði kynnast nemendur fræðilegum skrifum um tónlistarþroska barna og helstu aðferðum í notkun tónlistar í faglegu starfi með börnum. Lesefnið fjallar um nýjustu þekking á áhrifum tónlistar frá fæðingu og á fyrstu árum í lífi barns.

X

Nám og starf með upplýsingatækni (LSK010G)

Í námskeiðinu er horft á viðfangsefni menntunar og starfs með börnum og ungmennum í ljósi tækniþróunar nútímans. Fjallað er um áhrif netsins, samskiptamiðla og snjalltækni á daglegt líf og nám barna og ungmenna og náms- og starfsumhverfi þeirra sem hyggjast mennta sig til starfa með þessum aldurshópi. Sjónum er beint að áhrifum tækniþróunar nútímans á markmið og viðfangsefni sem birtast í íslenskri menntastefnu og endurspeglast í skilgreindum grunnþáttum menntunar á hverjum tíma. Viðfangsefni námskeiðsins miða ennfremur að því að nemendur verði sér vel meðvitaðir um siðferðilega þætti og viðmið sem hafa þarf í huga þegar möguleikar netsins, samskiptamiðla og snjalltækni eru nýttir og í því sambandi er sjónum m.a. beint að rafrænu einelti og birtingarmyndum þess. Lögð er áhersla á að nemendur nálgist viðfangsefni námskeiðsins með greinandi og gagnrýna hugsun að leiðarljósi og setji fram hugmyndir um möguleika tækninnar til þekkingaröflunar, sköpunar, tjáningar, miðlunar, samvinnu og mats á námi.

Öll fög eru skyldufög nemaVValfagBBundið val er háð skilyrðum ENámskeiðið er ekki kennt á misserinuNámsleiðin í Kennsluskrá

Hafðu samband

Kennsluskrifstofa

1. hæð, Stakkahlíð – Enni
Opið kl. 8.15 – 15.00 alla virka daga
Sími 525 5950
mvs@hi.is

""

Hjálplegt efni

Ertu með fleiri spurningar? Hér finnurðu svör við ýmsum þeirra og upplýsingar um ýmislegt annað sem gott er að hafa í huga þegar þú velur nám.