Skip to main content

Samráð og samningar við ESB

Baldur Þórhallsson, prófessor við Stjórnmálafræðideild

Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði, hefur frá ársbyrjun 2010 unnið að rannsókn sem tengist aðildarviðræðum Íslands og Evrópusambandsins. Í henni er skoðað hvort samráð eigi sér stað í undirbúningsferlinu milli stjórnsýslunnar og ólíkra hagsmunasamtaka og hvort smæð stjórnsýslunnar hafi áhrif á undirbúningsferlið.

Í rannsókninni er skoðað hvernig íslensk stjórnvöld standa að mótun samningsmarkmiða í þremur málaflokkum: sjávarútvegsmálum, landbúnaðarmálum og byggðamálum. „Við skoðum að hvaða marki stjórnsýslan starfar með hagsmunasamtökum í þessum málaflokkum,“ segir Baldur en þrír vinnuhópar eru að störfum hjá utanríkisráðuneytinu. Í þeim eru m.a. aðilar frá Bændasamtökum Íslands, Landssambandi íslenskra útvegsmanna og Sambandi íslenskra sveitarfélaga. „Þetta eru þeir málaflokkar sem einna mestum breytingum taka ef Ísland gengur í Evrópusambandið. Í rannsókninni er skoðað, ef um samráð er að ræða, hvort það sé greinabundið eða hvort það sé víðtækara og nái til neytenda og annarra hópa í samfélaginu sem láta sig greinarnar varða,“ segir Baldur.

Baldur Þórhallsson

Baldur hefur frá ársbyrjun 2010 unnið að rannsókn sem tengist aðildarviðræðum Íslands og Evrópusambandsins. Í henni er skoðað hvort samráð eigi sér stað í undirbúningsferlinu milli stjórnsýslunnar og ólíkra hagsmunasamtaka og hvort smæð stjórnsýslunnar hafi áhrif á undirbúningsferlið.

Baldur Þórhallsson

„Með rannsókninni er horft til smæðar íslenskrar stjórnsýslu og reynt að svara því hvort hún hafi burði til að sinna verkinu. Við könnum hvort næg sérfræðiþekking sé til staðar í stjórnsýslunni ásamt mannafla til að sinna stefnumótun. Í rannsókninni er þannig leitað svara við því hvort stjórnsýslan þurfi að leita til utanaðkomandi sérfræðinga og starfsfólks til að sinna verkefninu.“

Rannsóknin styðst við gögn frá stjórnvöldum og hagsmunasamtökum og er byggð á viðtölum við einstaklinga innan áðurgreindra vinnuhópa. Baldur segir að góð viðbrögð hafi fengist frá stjórnsýslunni og frá hagsmunasamtökunum í verkefninu.

Rannsóknin stendur enn yfir og ekki er búist við niðurstöðum fyrr en samningsmarkmið og jafnvel aðildarsamningur liggja fyrir. „Það skiptir engu máli fyrir rannsóknina hvort Íslendingar verða aðilar að ESB eða ekki, við höfum í raun engan áhuga á því. Við viljum bara sjá hvort og þá að hvaða marki samráð hefur verið við stefnumótunina, við gerð samningsmarkmiðanna og svo í gerð hugsanlegs aðildarsamnings við ESB,“ segir Baldur að lokum.

Tengt efni