Skip to main content

Ísland í skjóli norska sjóveldisins

Baldur Þórhallsson, prófessor við Stjórnmálafræðideild

„Við erum hluti af hinni alþjóðlegu þróun á hverjum tíma. Við fylgjum voldugum nágrannaríkjum eftir,“ segir Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði, um niðurstöður rannsóknar á utanríkismálum Íslands á miðöldum.

Baldur hefur lengi velt því fyrir sér hvort umfang alþjóðasamskipta hafi verið vanmetið í sögu þjóðarinnar. Í rannsókninni fór hann yfir alþjóðasamskipti Íslendinga allt frá landnámi til aldamótanna 1400 með það að leiðarljósi að skoða tengsl landsmanna við umheiminn. Hann gekk út frá kenningu í smáríkjafræðum um að lítil samfélög þurfi á efnahagslegu og pólitísku skjóli voldugra nágrannaríkja að halda.

Baldur Þórhallsson

„Við erum hluti af hinni alþjóðlegu þróun á hverjum tíma. Við fylgjum voldugum nágrannaríkjum eftir.“

Baldur Þórhallsson

Baldur segir að Ísland hafi verið á áhrifasvæði norska sjóveldisins á miðöldum og í félagslegu skjóli þess, ekki síður en efnahagslegu og pólitísku. „Það er viðbót við kenninguna þar sem hún gerir ekki ráð fyrir að smáríki séu í félagslegu skjóli nágranna sinna. Fjarlægð landsins frá meginlandi Evrópu ýtti undir mikilvægi þess að vera í alþjóðasamskiptum,“ útskýrir Baldur.

Baldur segir að valdastéttinni hafi verið í mun að tengjast valdastétt nágrannaríkjanna, til dæmis með samningi við Noregskonung um siglingar. Með erlendum tengslum hafi íslenska valdastéttin skapað sér frekari virðingu og sess innanlands. Íslendingar hafi fylgt eftir þróun í alþjóðasamfélaginu eins og hvað varðar ríkjamyndun og kristnitöku. „Kristnitakan tengdi menningu landsmanna í meira mæli en áður við menninguna á meginlandi Evrópu og þangað sótti valdastéttin sér menntun,“ segir Baldur.

Baldur segir efnahagslegt skjól norska sjó- veldisins meðal annars hafa falið í sér sameigin- legan norskan markað og aðgang að fjarlægum mörkuðum eins og Englandi og löndunum við Eystrasaltið. Kostnaður hafi stundum fylgt skjólinu í formi skatta til Noregskonungs og viðskipta- hindrana og íþyngjandi reglna um siglingar og birgðaflutninga.

Baldur segir legu landsins hafa veitt því hernaðarlegt skjól og leitt til minni afskipta Noregskonungs en ella, sem dró úr áhættunni við að tengjast Noregi. „Samband landanna fól í sér framsal á valdi til Noregskonungs en á móti kom að konungur veitti Íslendingum pólitískt skjól, kom á framkvæmdarvaldi, tryggði landsmönnum diplómatískt skjól á siglingaleiðum og bundinn var endir á borgarastríð. Komið var á lögum og reglu,“ segir Baldur að lokum.

Tengt efni