Skip to main content
23. maí 2018

Best fyrir börnin tilnefnd til Foreldraverðlauna Heimilis og skóla

""

Fræðslufundaröð Háskóla Íslands um málefni barna og ungmenna, Best fyrir börnin, var eitt þeirra verkefna sem tilnefnd voru til Foreldraverðlauna Heimilis og skóla – landssamtaka foreldra en verðlaunin voru afhent í liðinni viku. 

Heimili og skóli eru frjáls félagasamtök sem m.a. veita ráðgjöf til foreldra og foreldrasamtaka og gefa út tímarit og ýmiss konar efni um foreldrastarf. Samtökin hafa undanfarin 22 ár veitt Foreldraverðlaunin en markmið þeirra er að vekja athygli á gróskumiklu starfi innan leik-, grunn- og framhaldsskóla og þeim mörgu verkefnum sem stuðla að öflugu og jákvæðu samstarfi heimila, skóla og samfélagsins.

Fræðslufundaröðin Best fyrir börnin var í hópi 19 verkefna sem tilnefnd voru til Foreldraverðlaunanna 2018 en Háskóli Íslands ýtti röðinni úr vör í upphafi ársins. Markmiðið með henni er að dýpka sýn bæði almennings og fagfólks á vandamál og lausnir á mikilvægum samfélagslegum þáttum og styðja fjölskyldur og samfélag í því að tryggja velferð barna og ungmenna. Vísindamenn við Háskólann og fagfólk víðar úr samfélaginu hefur þar fjallað um andlega líðan, svefn, læsi, mataræði og samskipti barna og ungmenna en síðasta erindið í fundaröðinni er fyrirhugað mánudaginn 28. maí þegar sjónum verður beint að íþróttaiðkun ungs fólks

Nánar um fundaröðina 

Jón Atli Benediktssonm, rektor Háskóla Íslands, og Steinunn Gestsdóttir, aðstoðarrektor kennslu og þróunar, voru viðstödd afhendingu Foreldraverðlauna Heimilis og skóla í Þjóðmenningarhúsinu á dögunum og tóku m.a. við viðurkenningarskjali fyrir hönd Háskólans. Verðlaunin komu að þessu sinni í hlut verkefnisins „Láttu þér líða vel“ sem Guðrún Gísladóttir, kennari í Vogaskóla, fer fyrir en þar er lögð áhersla á geðrækt ungs fólks og nemendum veitt verkfæri til að stjórna eigin líðan og hegðun. 
 

Steinunn Gestsdóttir, aðstoðarrektor kennslu og þróunar, og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, með viðurkenningarskjal frá Heimili og skóla fyrir fundaröðina Best fyrir börnin.
Fulltrúar þeirra verkefna sem tilnefnd voru til viðurkenningar Heimilis og skóla ásamt fulltrúum samtakanna og menntamálaráðherra.