Skip to main content

Hvað segja skiptinemar?

Um tvö hundruð nemendur við Háskóla Íslands fara í skiptinám um allan heim á hverju ári. Hér má lesa nokkrar reynslusögur frá fyrrum skiptinemum sem getur verið gagnlegt að skoða ef stefnt er á skiptinám.

Hvað varð um hörpuskelina?

Árni Kristmundsson, fisksjúkdómafræðingur við Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum

„Þetta er ekkert einfalt mál og því afskaplega mikil áskorun,“ segir Árni Kristmundsson, fisksjúkdómafræðingur og forystumaður rannsóknar um hrun á stofni hörpuskeljar í Breiðafirði. Hann starfar við Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum.
„Hörpuskelin er nytjastofn og gríðarlega mikilvæg tekjulind fyrir smærri byggðarlög á svæðinu, t.d. Stykkishólm. Þetta var bara áfall,“ segir Árni en frá árinu 2004 hafa allar veiðar verið lagðar af vegna hrunsins. Árið 2002 hófust umfangsmiklar sjúkdómsrannsóknir að Keldum sem var ætlað að kanna mögulegan þátt sjúkdóma í hruni stofnsins, sem fór niður í 10% af meðalstærð áranna á undan.

Stríði og kreppu komið fyrir í þjóðarminni

Gunnþórunn Guðmundsdóttir, dósent við Íslensku- og menningardeild

„Það er mjög mikilvægt fyrir þjóðfélag að átta sig á því hvernig atburða og fortíðar er minnst. Þetta á t.d. við um hvernig stórviðburðum, eins og stríði og kreppu, er komið fyrir í þjóðarminninu. Rannsóknin okkar mun varpa ljósi á einmitt þetta,“ segir Gunnþórunn Guðmundsdóttir, dósent í almennri bókmenntafræði.

Ásamt samstarfsmanni sínum, Daisy Neijmann, rannsakar Gunnþórunn minni og gleymsku í bókmenntum, einkum sjálfsævisögum og skáldsögum. Hún hefur skoðað hlutverk minnis og birtingarmyndir tráma og gleymsku í spænskum bókmenntum og Daisy hefur kannað íslenskar bókmenntir sem fjalla um heimsstyrjöldina síðari.

Áburður framleiddur á hagkvæmari hátt

Egill Skúlason, sérfræðingur við Raunvísindastofnun Háskólans

„Ég hef unnið að þessum hugmyndum í tæpan áratug með samstarfsmönnum mínum við Háskóla Íslands, Danmarks Tekniske Universitet (DTU) og Stanford-háskóla. Vísindamenn hafa reynt við þetta draumaefnahvarf í áranna rás því að ákveðnar bakteríur í náttúrunni hafa gert þetta í milljónir ára,“ segir Egill Skúlason, sérfræðingur við Raunvísindastofnun Háskólans. Þar lýsir hann rannsóknum sínum og samstarfsmanna sinna sem miða að því að framleiða ammóníak með rafefnafræðilegum aðferðum en þar eru rafspenna og rafskaut notuð til framleiðslunnar. Sú framleiðsla er lykilskrefið í að búa til áburð til matvælaframleiðslu á hagkvæmari og umhverfisvænni hátt en annars er unnt.

Vill gera eldsneyti úr engu

„Orkan sem kemur frá sólinni og skellur á flatarmál á stærð við Sahara-eyðimörkina myndi nægja til að koma í staðinn fyrir alla aðra orkugjafa í heiminum. Vandamálið er hins vegar að finna efni sem getur gleypt nógu mikið af sólarljósinu og umbreytt raforkunni í efnaorku.“ Þetta segir Egill Skúlason, lektor og hugvitsmaður við Háskóla Íslands. Þetta kann að hljóma gríðarlega flókið en það sem Egill hyggst gera er í raun að umbreyta gróðurhúsalofttegundinni koltvísýringi í eldsneyti. Egill hefur lagt stund á tölvureikninga sem miða að því að breyta koltvísýringi, sólarljósi og vatni í eldsneyti, eins og metanól eða metan.

Hrunið jók háþrýsting karla

Í lokaverkefni sínu til BS-prófs í hagfræði rannsakaði Dagný Ósk Ragnarsdóttir áhrif efnahagshrunsins á hjartasjúkdóma og háþrýsting og hvaða breytingar sem fólk gerði á lífi sínu hefðu áhrif á hjartaheilsu þess. „Það var einfaldlega rannsóknartækifæri í sjálfu efnahagshruninu sem ég gat ekki látið fram hjá mér fara. Samband efnahagsástands og hjartaheilsu hefur verið skoðað en niðurstöður rannsókna eru ekki einróma. Þetta samband er flókið þar sem langtímaþróun og ýmsir truflandi þættir hafa reynst rannsakendum fjötur um fót. Það að hrunið hafði skýrt upphaf gerði það að verkum að við vorum með hálfgerða „tilraunastofu“ í höndunum þar sem efnahagslífið fór snögglega úr böndunum, uppsveifla varð að hruni og því var hér tilvalið tækifæri til að meta þetta samband,“ segir Dagný.

Kaffihúsið GÆS breytti viðhorfi til þroskahömlunar

Ágústa Rós Björnsdóttir, meistaranemi í uppeldis- og menntunarfræði

Það var á vormisseri 2013 sem fimm nemendur í starfstengdu diplómanámi fyrir fólk með þroskahömlun við Menntavísindasvið undirbjuggu og komu kaffihúsinu GÆS á laggirnar. Kaffihúsið var í Tjarnarbíói í Reykjavík og var vel sótt en þetta var sumarverkefni sem Reykjavíkurborg og Háskóli Íslands styrktu.

„Rannsóknin mín snýst um að fylgja þessum nemendum eftir, bæði á starfsnámstímabilinu og um sumarið, og skoða hvaða gildi verkefni sem þetta hefur fyrir líf þátttakenda og áhrif þess á samfélagið,“ segir Ágústa Rós Björnsdóttir, meistaranemi í uppeldis- og menntunarfræði, en hún var verkefnisstjóri diplómanámsins frá 2009 til 2013

Tinna Hrönn Óskarsdóttir

Tinna Hrönn Óskarsdóttir
BA í táknmálsfræði og táknmálstúlkun

Ég kynntist táknmálinu lítillega í menntaskóla og fann þar strax að þetta nám var eitthvað sem átti vel við mig. Ég skráði mig því í táknmálsfræði og táknmálstúlkun í HÍ og sé alls ekki eftir þeirri ákvörðun. Námið er á sama tíma krefjandi og skemmtilegt. Skyggnst er inn í heim málminnihlutahópsins ásamt því að tungumálið er skoðað í þaula. Þetta nám hentar vel þeim sem vilja vinna í persónulegu og notalegu umhverfi og hafa áhuga á að uppgötva nýja og spennandi hluti sem íslenska táknmálið hefur upp á að bjóða. Kennararnir, allir sem einn, eru frábærir og hver og einn þeirra leggur sig allan fram svo maður nái sem bestum tökum á tungumálinu. Ég mæli eindregið með táknmálsfræði og táknmálstúlkun.

Andleg líðan og svefntruflanir

Arndís Valgarðsdóttir, cand. psych. frá Sálfræðideild

Svefninn laðar, líður hjá mér
lífið sem ég lifað hef.
Fólk og furðuverur
hugann baðar, andann hvílir.
Lokbrám mínum læsi uns
vakna endurnærður.

Þannig söng hljómsveitin vinsæla Nýdönsk um svefninn sem við þurfum öll á að halda. Góður nætursvefn er aftur á móti ekki sjálfsagður hlutur og ræðst af ýmsum þáttum. Þetta þekkir Arndís Valgarðsdóttir sem rýndi í þetta flókna fyrirbrigði sem svefninn er í lokaverkefni sínu til cand. psych-prófs í sálfræði.

„Verkefnið er hluti af stærri rannsókn hóps vísindamanna innan Háskólans. Þessi hluti snýst um að kanna hvort árstíðabundinn munur sé á svefnlengd, svefntruflunum, andlegri líðan og lífsgæðum og hvort munur sé á svefntíma íbúa á Austurlandi og Vesturlandi,“ segir Arndís.
 

Raddir barna sem missa foreldra

Sigrún Júlíusdóttir, prófessor emerita við Félagsráðgjafardeild

„Niðurstöður rýnihópa fagfólks og rannsóknar viðtala við börn, eftirlifandi maka og móður- fjölskyldu benda til að börnin séu afskipt, þjónustufarvegi skorti og fjölskyldur fái ónógar upplýsingar og stuðning. Niðurstöðurnar sýna líka að fagfólk búi við ófullnægjandi aðstæður, álag, skort á sérfræðiþekkingu og handleiðslu.“

Þetta segir Sigrún Júlíusdóttir, prófessor emerita, sem varpar skýru ljósi á stöðu barns við andlát foreldris í rannsókn sem hún stýrði og styrkt var af innanríkisráðuneytinu. Í þáttaröðinni Fjársjóður fjallar Sigrún sérstaklega um þessa rannsókn sína en markmiðið með henni var að Sigrúnar sögn öðru fremur að stuðla að vitundarvakningu um þetta viðkvæma efni, að rjúfa þöggun um málefnið um leið og sköpuð yrði ný þekking.

Pages