Skip to main content

Raddir barna sem missa foreldra

Sigrún Júlíusdóttir, prófessor emerita við Félagsráðgjafardeild

„Niðurstöður rýnihópa fagfólks og rannsóknar viðtala við börn, eftirlifandi maka og móður- fjölskyldu benda til að börnin séu afskipt, þjónustufarvegi skorti og fjölskyldur fái ónógar upplýsingar og stuðning. Niðurstöðurnar sýna líka að fagfólk búi við ófullnægjandi aðstæður, álag, skort á sérfræðiþekkingu og handleiðslu.“

Þetta segir Sigrún Júlíusdóttir, prófessor emerita, sem varpar skýru ljósi á stöðu barns við andlát foreldris í rannsókn sem hún stýrði og styrkt var af innanríkisráðuneytinu. Í þáttaröðinni Fjársjóður fjallar Sigrún sérstaklega um þessa rannsókn sína en markmiðið með henni var að Sigrúnar sögn öðru fremur að stuðla að vitundarvakningu um þetta viðkvæma efni, að rjúfa þöggun um málefnið um leið og sköpuð yrði ný þekking.

Sigrún Júlíusdóttir

„Niðurstöður rýnihópa fagfólks og rannsóknar viðtala við börn, eftirlifandi maka og móður- fjölskyldu benda til að börnin séu afskipt, þjónustufarvegi skorti og fjölskyldur fái ónógar upplýsingar og stuðning.“

Sigrún Júlíusdóttir

„Þannig yrði hægt að setja fram viðeigandi ábendingar um lagabreytingar, stefnumótun og úrræði,“ segir Sigrún.

Ástæða þess að hún réðst í verkefnið var sú tilgáta að á Íslandi væri ekki nægilegur gaumur gefinn að aðstæðum barna við fráfall foreldris og að sjálfstæðum rétti þeirra í fjölskyldunni, í heilbrigðis-, félags- og skólakerfi og í löggjöfinni. Því væri þörf á úrbótum. Sigrún segist hafa valið verkefnið vegna reynslu sinnar af meðferðarvinnu með uppkomnum einstaklingum og ungmennum sem hafi reynt sorg og áfall í fjölskyldu, ýmist vegna skilnaðar eða foreldramissis.

„Þetta verkefni er einnig til komið vegna meðferðarvinnu með ömmum og öfum sem áttu um sárt að binda vegna missis eigin barns eða vegna rofinna tengsla við barnabarn í kjölfar skilnaðar eða andláts foreldris.“

Sigrún segir að líkt og með fyrri rannsóknir sínar varði hún réttarstöðu barna og þekkingarsköpun sem geti gagnast fjölskyldum og stjórnvöldum til að mæta betur þörfum barna.

Sjón er sögu ríkari en meira er um þetta efni í lokaþætti Fjársjóðs framtíðar.