Fjölbreytt háskólanám sem smíðar lykil að framtíðinni Háskóli Íslands býður upp á mjög fjölbreytt háskólanám í STEM-greinum en STEM er alþjóðleg skammstöfun og stendur fyrir fræðagreinar á sviði verkfræði, stærðfræði, raunvísinda og náttúruvísinda. Menntun í STEM-greinum opnar fólki dyr að gríðarlega fjölbreyttum og spennandi störfum á öllum sviðum samfélagsins þar sem hugvitið er hagnýtt til að bæta líf okkar. Kynntu þér hér fjölbreytt úrval STEM-námsleiða í HÍ. Hægt er að lesa sér til um hvað hver og ein STEM-grein býður í námi auk þess að fá vísbendingar um þau fjölbreyttu störf sem standa til boða á vinnumarkaði að námi loknu. STEM-nám hefur líka þá eiginleika að fólk getur jafnvel skapað sín eigin störf að háskólanámi loknu á grunni hugmynda og nýsköpunar sem er kjarninn í öllum STEM-greinum. STEM-bakgrunnur styður einnig oft fólk til stjórnunarstarfa í fyrirtækjum og til leiðtogahlutverka í samfélagi. Ekki hika við að hafa samband við Nemendaráðgjöf HÍ og bóka viðtal til að fá stuðning við námsval út frá hæfileikum og áhuga. STEM er tækifærið - Gríptu það! Hvað er STEM? STEM er framtíðin. Skammstöfunin kemur upprunalega úr enskri tungu og er tengt orðunum: Science (vísindi/raunvísindi) – Technology (tækni) – Engineering (verkfræði) og Math (stærðfræði). Háskólanám í raunvísindum veitir djúpstæðari skilning á heiminum í kringum okkur. Nemendur verða ekki bara færari í rannsóknum og gagnrýnni hugsun heldur líka öflugri að takast á við æ flóknari verkefni í heimi örra framfara. Undir raunvísindi falla meðal annars eðlisfræði og efnafræði. Tæknin býr ungt fólk undir vinnu í umhverfi hátækninýjunga ásamt því að taka þátt í að uppgötva þær og innleiða. Tækni og nýsköpun má líta á sem tvær hliðar á sama peningnum. Verkfræðin gerir nemendum kleift að auka hæfni sína við að leysa áskoranir og flókin verkefni og beita þekkingu sinni í þágu nýrra lausna. HÍ kennir fjölmargar greinar verkfræðinnar, allt frá byggingarverkfræði yfir í hugbúnaðarverkfræði. Stærðfræðin er undirstaðan í flestum lausnum á flóknum viðfangsefnum. Með fulltingi hennar læra nemendur að greina upplýsingar og taka meðvitaðar ákvarðanir við þróun og hönnun alls kyns lausna. Þó að þessi fjögur fagsvið séu í skammstöfuninni STEM þá falla líka greinar eins og tölvunarfræði og líffræði undir STEM. Menntun í STEM-greinum tengir þessi grundvallarsvið saman í eitt heildstætt kerfi. Þannig undirbýr STEM-menntun fagfólk fyrir fjölbreyttan vinnumarkað framtíðarinnar með það að leiðarljósi að umbreyta samfélaginu til hins betra í krafti nýsköpunar og sjálfbærni. STEM fæst við stóru áskoranirnar Á tímum hraðra hnattrænna breytinga og örrar tækniþróunar er brýnt að leita stöðugt lausna á mjög flóknum viðfangsefnum og óteljandi áskorunum. Á Íslandi, eins og annars staðar í heiminum, er mikill skortur á sérfræðingum í verkfræði, alls kyns tækni, raunvísindum og náttúruvísindum. Það þýðir að mikil eftirspurn er eftir STEM-færni í samfélaginu, enda eru flestar atvinnugreinar meira og minna tengdar vísindum og tækniþróun. Mjög stór hluti af framþróun samfélagsins byggist á aukinni þekkingu á þeim sviðum sem snúa að STEM, en þar má til dæmis nefna gervigreind sem er að koma inn í fjölmörg svið samfélagsins á miklum hraða. Aukin menntun í STEM styrkir hagkerfi sem þarf ekki að reiða sig alfarið á náttúruauðlindir, heldur byggir vöxt og velferð sína á þekkingunni. STEM undirbýr okkur þannig fyrir framtíðina. STEM-námið er skemmtilegt og krefjandi STEM-menntun ýtir undir jákvæðar breytingar í samfélaginu með því að setja færni til breytinga í háskerpu. Námið byggist á fræðilegri undirstöðu og verklegri kennslu auk þess sem nemendur taka þátt í skemmtilegum þverfræðilegum samskiptum sem oft leiða til uppgötvana innan veggja skólans. Aðbúnaður og aðstæður til náms í STEM-greinum í HÍ er mjög góður og kennarar eru gjarnan afkastamiklir vísindamenn sem njóta mikillar alþjóðlegrar virðingar fyrir störf sín. Félagslíf innan STEM-greina er einnig fjölskrúðugt og lifandi og HÍ býður öfluga þjónustu sem styður við framvindu náms hjá nemendum. Störfin eru ótrúlega fjölbreytt og spennandi Menntun í STEM opnar nemendum dyr að ótrúlega fjölbreyttum og spennandi störfum sem byggja á þekkingu, ekki síst á verkfræðilegum og raunvísindalegum grunni, og á nútímatækni af ýmsum toga. Störfin eru á öllum sviðum samfélagsins. Hér má skoða námsvalshjól HÍ þar sem hægt er að finna sína STEM-grein út frá hæfni og áhugasviðum. Menntun í STEM virkjar að auki leiðtogann í fjölmörgum og oft er fólk með STEM-grunn í stjórnunarstöðum í fyrirtækjum eða í leiðtogahlutverkum. STEM gerir líka fólki kleift að þróa ný störf í heimi örra breytinga, eða alveg sín eigin. Mikilvægar raddir ykkar – raddir unga fólksins Í STEM-greinum er lögð áhersla á að finna lausnir á stærstu áskorunum samtímans sem margar tengjast losun mengandi efna og gróðurhúsaloftegunda út í vistkerfin auk þess að vinna gegn afleiðingum af áratugalangri ósjálfbærinni sókn í fjölmargar náttúruauðlindir. Ný þekking til að takast á við þetta er afar brýn og bregðast þarf skjótt við. STEM hjálpar okkur í átt að sjálfbærri framtíð sem byggir á víðtækri menntun, hugviti, færni, reynslu og þeirri þverfræðilegu nálgun sem STEM býður upp á. STEM er fyrir öll Á heimsvísu stunda einungis 18 prósent kvenna nám í STEM-greinum á háskólastigi samanborið við 35 prósent karla. Það þýðir að skortur er á fjölbreytni meðal nemenda alþjóðlega sem skilar sér að sjálfsögðu út í atvinnulífið og hérlendis getum við líka bætt okkur verulega. Með því að auka hlut kvenna í STEM-greinum styðjum við samfélagið til framtíðar þar sem við fjölgum brýnum þekkingarstörfum og aukum jafnvægi. Jafnfrétti er ein af grunnstoðunum í stefnu HÍ auk þess að vera burðarásinn í heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Þar er undirstrikað hversu brýnt það er að tryggja tækifæri kvenna og kvár og aukna þátttöku þeirra á öllum sviðum samfélagsins. Konur og kvár eiga enda að vera hluti af stafræna hagkerfinu og hasla sér völl í STEM-greinum til að sporna við kynjahalla sem hefur afar neikvæð áhrif. Áhrif gervigreindar á samfélagið og alla forgangsröðun innan þess á eftir að aukast og því er brýnt að fá sjónarmið kvenna, kvára og jaðarsettra hópa að vinnu við öll verkefni og þróun allra lausna. Nálgun kvenna, kvára og jaðarsettra hópa, ásamt lausnaleit og verklagi á þeirra forsendum, skiptir sköpun svo þarfir allra skili sér ásamt því að fjölbreytileiki í hönnun á lausnum, vörum og tækni hafi jákvæð áhrif á daglegt líf okkar allra – ekki bara sumra. Þess vegna hikum við ekki við að hvetja konur og kvár alveg sérstaklega til að skoða STEM mjög vandlega og kíkja á öll tækifærin sem felast í STEM-greinum og störfum að námi loknu. Tengt efni STEM-greinar í HÍ Nemendaráðgjöf HÍ Dæmi um störf að loknu námi facebooklinkedintwitter