Skip to main content

STEM-greinar og atvinnulífið

STEM-greinar og atvinnulífið - á vefsíðu Háskóla Íslands

Brautskráðir nemendur úr STEM-greinum hafa komið víða við í atvinnulífinu, raunar á öllu sviðum, og látið mikið að sér kveða. Fáðu hér ráð um hverju nám í STEM-greinum getur skilað frá fólki sem hefur einmitt haslað sér völl í atvinnulífi og samfélagi. Þetta fólk er með STEM-menntun héðan úr HÍ og jafnvel úr öðrum öflugum háskólum víða í heiminum. 

Edda Sif Pind Aradóttir

Edda Sif Pind Aradóttir

“Fólk úr STEM-greinum fær fjölbreytt tækifæri!”
Edda Sif Pind Aradóttir
Framkvæmdastýra Carbfix
Efnafræði og efnaverkfræði HÍ

Segja má að Edda Sif Pind Aradóttir hafi skapað sitt eigið starf á grundvelli rannsókna í doktorsnámi sínu í HÍ og vinnu hjá Orkuveitunni samhliða námi og í framhaldi af því þar sem hún var forstöðumanneskja nýsköpunar og framtíðarsýnar. Hún er nú framkvæmdastýra hjá þekkingarfyrirtækinu Carbfix sem bindur gróðurhúsalofttegundina koldíoxíð í berg með því að hraða náttúrulegum aðferðum. Mikilvægi þeirra lausna sem Carbfix leggur heiminum til er gríðarlegt. Loftslagsbreytingar sökum hækkandi styrks koldíoxíðs í andrúmslofti eru enda með alvarlegustu áskorunum sem mannkynið tekst á við. Edda Sif hefur unnið til fjölmargra viðurkenninga fyrir uppgötvanir sínar og samstarfsteyma. Árið 2022 hlaut hún hvatningarviðurkenningu FKA árið 2022 og árið 2023 var Edda Sif valin ein áhrifamesta manneskja í heiminum á sviði loftslagsmála af Time-tímaritinu. Það kemur vart á óvart að Edda Sif er með STEM-bakgrunn. Hún lauk grunnnámi í efnaverkfræði frá HÍ og svo meistara- og doktorsprófum þaðan í efnafræði. Edda Sif hefur hlotið fjölda innlendra og alþjóðlegra styrkja til rannsókna en hin síðustu ár hefur hún alfarið helgað sig stjórnun Carbfix, fyrirtækis sem hefur vakið heimsathygli fyrir brýnar lausnir í þágu mannkyns á sviði loftslagsmála.

Viðtal: Edda Sif Aradóttir Pind

Emil Sölvi Ágústsson

Emil Sölvi Ágústsson

„Hæfnin sem ég öðlaðist í náminu hefur nýst mér í lífi og starfi.“
Emil Sölvi Ágústsson
Líffræðikennari í Kvennaskólanum
Líffræði í HÍ
 
Emil Sölvi Ágústsson er hartnær þrítugur framhaldsskólakennari við Kvennaskólann í Reykjavík. Hann starfar einmitt við að miðla þekkingu í STEM-grein sem hann nam út frá áhuga og ástríðu sem kviknaði í barnæsku á lífríki og umhverfi. Emil hefur starfað sem líffræðingur, leiðsögumaður og unnið að rannsóknarverkefnum sem snúa að íslenskri náttúru. Emil er með STEM-grunn í líffræði frá HÍ og University of Melbourne. Hann hefur hreinlega blómstrað við að koma þeirri vitneskju sem hann öðlaðist í háskólanámi áfram til næstu kynslóðar í kennslunni. Emil leggur ríka áherslu á upplýsingalæsi og rökhugsun og þakkar grunni sínum í STEM-greinum hversu góðum árangri hann hefur náð á því sviði.
 
„Nám mitt í STEM-greinum veitti mér ótrúlega mikið sem ég gat tekið með mér út í samfélagið og atvinnulífið. Ekki nóg með að öðlast færni í upplýsingalæsi, rökhugsun og gagnrýnni hugsun heldur mynduðust og uxu tengsl við samnemendur mína sem haldast sterk enn í dag. Eins og málum er háttað núna fæ ég ótal tækifæri til að nýta þá hæfni sem ég öðlaðist í STEM-náminu á hverjum einasta degi,“ segir Emil Sölvi.

Viðtal: Emil Sölvi Ágústsson

Guðmundur Hafsteinsson

Guðmundur Hafsteinsson

„Fólk með STEM-bakgrunn er í rosalega góðri stöðu.“
Guðmundur Hafsteinsson
Frumkvöðull og stjórnarformaður Icelandair
Rafmagns- og tölvuverkfræði HÍ

Guðmundur Hafsteinsson leitaði snemma út fyrir boxið eins og oft er sagt. Strax í grunnnámi í rafmagns- og tölvuverkfræði í HÍ hóf hann leit að fjölþættum lausnum á alls kyns vandamálum sem mannkynið glímir við frá degi til dags. Þessi nýsköpunarkraftur Guðmundar, eða Gumma Hafsteins eins og hann er gjarnan kallaður, leiddi til þess að hann stofnaði snemma sprotafyrirtækið Dímon hugbúnaðarhús. Gummi var þó ekki lengi hér heima því hann leitaði hófanna fyrir vestan haf og lauk þar MBA-gráðu frá hinum heimsþekkta MIT-háskóla í Bandaríkjunum. MIT er í þriðja sæti yfir bestu háskóla í heiminum.

Gummi telur að tækifæri ungs fólks með STEM-menntun séu óþrjótandi enda byggist heimurinn á alls kyns lausnum sem STEM-drifið fólk hefur þróað og innleitt. Í því sambandi nefnir Gummi snjallsímann, rafmagnsbíla, tölvur og samfélagsmiðla sem dæmi. Gummi veit hvað hann talar um, því hann hefur sjálfur komið að því að þróa snjalllausnir sem við nær öllum þekkjum.

Í framhaldi af MBA-náminu hóf Gummi nefnilega störf hjá Google þar sem hann leiddi þróun ásamt öðrum á fjölmörgum tækninýjungum hugbúnaðarrisans, m.a. á Google Maps og Voice Search. Í framhaldi af starfinu hjá Google kom Gummi að þróun fleiri snjallkerfa. Þannig stýrði hann þróun á gervigreindarforritinu málglaða, Siri, sem Apple keypti síðar til að hagnýta sér í flestum sjalltækjum sínum. „Hey Siri!!!“

Þegar Siri sleppti tók við nýtt frumkvöðlatímabil hjá Gumma uns sproti hans og félaga, Emu, var keyptur af Google, hverjum öðrum! Það leiddi til þess að hann varð um hríð yfirmaður vöruþróunar á lausninni Google Assistant sem fjölmargir kannast við.

Vegna þekkingar sinnar á nýsköpun og þróun hátæknilausna byggða á hugviti var Gummi fenginn til að leiða stýrihóp um mótun nýsköpunarstefnu fyrir Ísland fyrir fáeinum árum. Hann hefur einnig unnið við alls kyns ráðgjöf fyrir stjórnvöld, fyrirtæki og stofnanir auk þess að hrinda eigin hugmyndum í framkvæmd í sprotafyrirtækjum.

„STEM-er grunnurinn að svo mikilli framþróun,“ segir Gummi Hafsteins og bætir því við að sú aðferðarfræði sem liggi í STEM leggi grunninn að nýjum tækifærum, nýjum störfum, betri framtíð.

„Fólk með STEM-bakgrunn er í rosalega góðri stöðu, það getur skilið vandamál og það getur leyst þau.“

Viðtal: Guðmundur Hafsteinsson

Guðrún Valdís Jónsdóttir

Guðrún Valdís Jónsdóttir

„Námið nýttist mér beint inn á vinnumarkaðinn.“
Guðrún Valdís Jónsdóttir
Öryggisstjóri hjá Syndis
Tölvunarfræði Princeton University

Guðrún Valdís Jónsdóttir hefur haslað sér völl við að tryggja gagnaöryggi fyrirtækja sem er eitt það brýnasta sem fyrirtæki og stofnanir þurfa að hafa í lagi þegar vaxandi hluti viðskipta og þjónustu er orðinn stafrænn. Guðrún Valdís lauk námi í tölvunarfræði frá hinum heimsþekkta og virta Princeton háskóla í Bandaríkjunum. Fyrstu störf hennar snerust um að leita að göllum í hugbúnaðarkerfum en nú vinnur hún við að vernda þau. Guðrún Valdís hefur vakið mikla athygli fyrir þau störf sín og var valin rísandi stjarna ársins 2022 á Nordic Women in Tech-verðlaunahátíðinni. Hópurinn sem stendur að þeim verðlaunum er alþjóðlegur og beinir sjónum að áhrifum kvenna í heimi tækninnar.

Guðrún Valdís ætlaði sér alltaf í raungreinar og árangur hennar í námi í framhaldsskóla skilaði henni Afreks- og hvatningarverðlaunum Háskóla Íslands að loknu stúdentsprófi. Hún segir að STEM-námið í Princeton hafi nýst sér frábærlega um leið og hún hóf störf á vinnumarkaði. Hún segir afar gagnlegt að hafa sterkan tæknilegan bakgrunn í sínu starfi sem öryggisstjóri en hún veitir einnig stjórnunarlega öryggisráðgjöf inni í fyrirtækjum. Guðrún Valdís segir gríðarleg tækifæri fyrir konur og kvár í tæknistörfum.

„Fyrirtæki eru loksins að átta sig á því að vera með fjölbreytt teymi hjálpar þeim mikið. Fyrirtæki verða arðbærari og það er skemmtilegra að mæta í vinnuna,“ segir Guðrún Valdís sem hvetur konur og kvár til að sækja um STEM-nám.

Viðtal: Guðrún Valdís Jónsdóttir

Hildur Einarsdóttir

Hildur Einarsdóttir

“STEM-bakgrunnurinn býður upp á gríðarlega möguleika.”
Hildur Einarsdóttir
Framkvæmdastjóri rannsóknar- og þróunarsviðs Össurar

Rafmagns- og tölvuverkfræði HÍ

Hildur Einarsdóttir hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir störf sín við þróun og nýsköpun hjá einu öflugasta þekkingarfyrirtæki landsins, Össuri. Hildur er með STEM-grunn í rafmagns- og tölvuverkfræði frá HÍ og meistaragráðu í heilbrigðisverkfræði og reiknifræðilegum taugavísindum frá Imperial College í Lundúnum. Hún er framkvæmdastjóri rannsóknar- og þróunarsviðs Össurar. Hildur hefur um árabil starfað náið með sérfræðingum víðs vegar um heiminn til að tryggja aðgengi fólks að nauðsynlegum stoðtækjum sem gera því kleift að sinna bæði daglegum störfum og áhugamálum auk þess að lifa lífinu eins og það kýs helst - án takmarkana og fordóma. Hildur á sæti í stjórn fagráðs Imperial College í Lundúnum og er varaformaður Vísinda- og nýsköpunarráðs sem starfar á vegum forsætisráðuneytisins.

Viðtal: Hildur Einarsdóttir

Hilmar Veigar Pétursson

Hilmar Veigar Pétursson

„STEM hentar til að breyta hugmyndum í veruleika.“
Hilmar Veigar Pétursson
Frumkvöðull og framkvæmdastjóri CCP
Tölvunarfræði HÍ

Hilmar Veigar Pétursson er í hópi þeirra Íslendinga sem hafa hagnýtt sér menntun í STEM til nýsköpunar. Hann hefur leitt öflugt tölvuleikjafyrirtæki um árabil og hlotið ýmsar viðurkenningar. Þannig hlaut hann t.d. Upplýsingatækniverðlaun SKÝ fyrir störf á sviði tækni og vísinda. Hilmar Veigar segir að háskólanám sé svo sannarlega góður grunnur, en það sé ekki síður háskólasamfélagið sjálft, skapandi samspilið við aðra nemendur, sem geri fólki kleift að vaxa faglega og ekki síður sem manneskjur.

Í framhaldi af námi í HÍ aldamótaárið gekk Hilmar Veigar til liðs við tölvuleikjafyrirtækið CCP og varð síðar framkvæmdastjóri þess, sem hann er enn í dag. Eve Online er án vafa vinsælasti tölvuleikur CCP sem hefur hundruð þúsunda spilara í mjög virku samfélagi úr öllum heimshornum. Hilmar Veigar segir að sérkenni Íslendinga við að segja sögur og skrifa þær, jafnvel á bókfell til forna, skili sér núna í allskyns sköpunarverkum, t.d. í tónlist, skáldskap og kvikmyndum og nú síðast í tölvuleikjum. Hilmar Veigar hefur alltaf haft augun á mikilvægi þess að fá fólk úr sem flestum greinum til samvinnu við að leysa flókin vandmál með einföldum lausnum. Þannig hafa t.d. heimspekingar, bókmenntafræðingar, sagnfræðingar og kennarar, ásamt fólki úr fjölbreyttum STEM-greinum, myndað öflug teymi hjá CCP við að skapa nýja heima. Meira að segja doktorar í stjarneðlisfræði hafa fundið þar nýja fjöl við þróun tölvuleikja.

„Það er mjög fínt að hafa stjarneðlilsfræðinga við að hanna geimleiki. Dagvinna eins þeirra er að búa til tölvuleik úr svartholsstærðfræði.“

Hilmar segir að fólk með STEM-menntun hafi fengið ákveðna grunnþjálfun og það henti afar vel til að raungera hugmyndir. Með því að brjóta hluti niður í einhvers konar frumeindir verði einfaldara að byggja upp að nýju, segir hann.

„Við hjá CCP búum bókstaflega til nýja heima. Það hefur reynst okkur einna best að hafa eðlisfræðinga við að búa til nýjan sýndarveruleika, af því að eðlisfræðingar vita einna best hvað mjög einfaldir hlutir geta orðið að stórkostlegum ævintýrum.“

Hilmar Veigar segir mjög brýnt að fjölga konun í atvinnulífinu sem leysi verkefni í vísindum og tækni. Það leiði til þess að jafnvægi náist og um leiði skapist fleiri víddir til að ná árangri.

„Það þarf allskonar til að gera alls konar. Við erum með mjög margar konur hjá CCP sem eru að gera frábæra hluti hjá okkur en þær hafa farið í gegnum tölvunarfræði og aðrar STEM-greinar í Háskólanum. Ef öll eru með, þá hækkar standardinn fyrir okkur öll. Til að eiga erindi við heiminn þá þarf að halda standardinum nokkuð háum!“

Viðtal: Hilmar Veigar Pétursson

Kristín Jónsdóttir

Kristin Jonsdottir

„Fylgið hjartanu, lærið um vísindi, lærið um tækni!“
Kristín Jónsdóttir
Jarðeðlisfræðingur Veðurstofu Íslands
Jarðeðlisfræði HÍ
Kristín Jónsdóttir er jarðeðlisfræðingur á Veðurstofu Íslands. Fáir einstaklingar hafa reyndar jafnmarga starfstitla og Kristín en hún er oft sögð fagstjóri náttúruvár eða titluð sem deildarstjóri jarðskorpu-, jarðskjálfta- og eldfjallarannsókna á Veðurstofunni. Til viðbótar þessu er Kristín stundakennari í jarðskjálftafræði við HÍ.

Hún hefur nýtt STEM-menntun sína í jarðeðlisfræði frá HÍ til framhaldsnáms og rannsókna en ekki síður til að miðla mikilvægi rannsóknanna til almennings þar sem hún greinir gjarnan mögulega atburðarás á gosstöðvum. Sá hæfileiki Kristínar að færa fólki flókin vísindi á mannamáli hefur gert það að verkum að þegar Kristín talar, þá hlustar þjóðin. Kristín á ekki langt að sækja hæfileikana til að miðla, en foreldrar hennar eru báðir kennarar. Kristín er með doktorsgráðu í jarðskjálftafræði frá Uppsala-háskóla í Svíþjóð en hún hefur m.a. rannsakað megineldstöðvar á Íslandi. Hún hlaut öndvegisstyrk árið 2021 frá Rannís ásamt rannsóknateymi sem hún leiðir til rannsókna á jarðskjálftaóróa.

Kristín hefur hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir rannsóknastörf sín og ekki síður fyrir vísindamiðlun til almennings. Hún var t.d. sæmd fálkaorðunni í fyrra fyrir framlag sitt til vísinda, miðlunar og vöktunar tengdri náttúruvá. Fyrr á þessu ári var Kristín Jónsdóttir valin Háskólakona ársins af félagi Háskólakvenna. En Kristín hefur ekki bara þekkingu til að miðla og rannsaka því hún lumar á miklum tónlistarhæfileikum og menntaði sig líka á því sviði... en vísindin höfðu sigur á endanum. Kristín lærði fiðluleik og var t.d. um stund í hljómsveitinni Unun og líka í Múldýrinu samtímis listamanninum Prins Póló.

Viðtal: Kristín Jónsdóttir

Lotta María Ellingsen

Lotta María Ellingsen

“Menntun í STEM er alveg gríðarlega dýrmæt fyrir samfélagið!”
Lotta María Ellingsen
Dósent og deildarforseti Rafmagns- og tölvuverkfræðideildar HÍ
Rafmagns- og tölvuverkfræði HÍ

Lotta María Ellingsen er í hópi fjölmargra ungra kvenna með STEM-menntun sem hafa náð feiknargóðum árangri í atvinnulífi og samfélagi. Lotta María er afkastamikil vísindakona og ná afrek hennar á því sviði langt út fyrir landsteina. Rannsóknir hennar byggjast á því að nýta gervigreind og aðra þætti rafmagns- og tölvuverkfræðinnar í læknisfræðilegri myndgreiningu til að greina sjúkdóma fyrr en áður og auka þannig líkur á árangursríkri meðferð og lækningu. Lotta María er með BSc-gráðu í rafmagns- og tölvuverkfræði frá HÍ og meistara- og doktorspróf í sömu grein frá Johns Hopkins-háskólanum í Bandaríkjunum. Lotta María er dósent og forseti Rafmagns- og tölvuverkfræðideildar. Hún hefur hlotið fjölmarga samkeppnisstyrki til rannsókna auk verðlauna, síðast Vísinda- og nýsköpunarverðlaun Háskóla Íslands árið 2020.

Viðtal: Lotta María Ellingsen

Safa Jemai

Safa Jemai

“Námið gerði mér kleift að stofna eigið fyrirtæki!”
Safa Jemai
Frumkvöðull og framkvæmdastjóri Víkonnekt
Hugbúnaðarverkfræði HÍ

Safa Jemai er frumkvöðull og stofnandi þriggja sprotafyrirtækja en hún veitir einu þeirra, Víkonnekt, forstöðu. Safa er fædd og uppalin í Túnis og hefur á einungis sex árum náð að læra íslensku, ljúka BS gráðu í hugbúnaðarverkfræði frá HÍ og hasla sér völl í íslensku samfélagi og atvinnulífi svo eftir er tekið. Hún segir að STEM-námið í HÍ hafi ekki einungis fært sér vini heldur einnig aðgang að íslensku samfélagi. Sprotafyrirtæki sem Safa kemur að eru af býsna ólíkum toga. Eitt þeirra, Mabrúka, flytur inn hágæðakrydd frá Túnis á meðan það næsta, Treatably, þróar smáforrit sem styður fólk með skjaldkirtilssjúkdóma í daglegu lífi. Hugbúnaðarfyrirtækið Víkonnekt styður svo nýsköpunar- og sprotafyrirtæki við hönnun hugbúnaðar auk þess að miðla sérfræðingum til hönnunar og þróunar á hugbúnaði inn alþjóðlegt atvinnulíf. Safa Jemai var valin rísandi stjarna ársins 2023 á Nordic Women in Tech-verðlaunahátíðinni þar sem kastljósi er beint að brýnu framlagi kvenna í tæknigreinum.

Viðtal: Safa Jemai

Sigyn Jónsdóttir

Sigyn Jónsdóttir

„Konur og kvár eru súperstjörnunar.“
Sigyn Jónsdóttir
Frumkvöðull og tæknistjóri-meðstofnandi Alda
Hugbúnaðarverkfræði HÍ

Sigyn Jónsdóttir er tæknistjóri (CTO) og meðstofnandi Öldu, nýsköpunarfyrirtækis sem þróar hugbúnaðarlausnir og gagnvirka fræðslu fyrir vinnustaði til að stuðla að fjölbreytileika og inngildingu með hliðsjón af honum. Sigyn hefur þróað hæfileika sína áfram eftir nám í hugbúnaðarverkfræði við HÍ. Hún hefur meistaragráðu í stjórnun á sviði vísinda- og verkfræði frá hinum heimsþekkta Columbíu-háskóla í New York. Í framhaldi af náminu þar hefur hún haslað sér völl þar sem mjög hefur reynt á sköpunarþrótt en líka á hæfni í stjórnun. Þannig hefur hún t.d. starfað við þjónustustjórn hjá þekkingarfyrirtækinu Men&Mice. En Sigyn hefur líka verið valin til ábyrgðarstarfa af fagfólki innan tæknigeirans - hún var t.d. varaformaður stjórnar Tækniþróunarsjóðs og líka formaður Ungra athafnakvenna um skeið. Gervigreindin var orð ársins í fyrra og hún hefur æ meiri áhrif á daglegt líf okkar. Þar kemur til kasta Sigynar. Hún er nefnilega þátttakandi í stóru Evrópuverkefni til að sporna við hlutdrægni í gervigreind mannauðslausna sem verða æ mikilvægari við stjórnun fyrirtækja.

Þótt Sigyn segi að möguleikarnir séu endalausir með því að nota vísindi og tækni þá þakkar hún náminu líka sjálfstraustið sem það gaf henni en það hefur stutt hana við að leysa flókin vandamál í atvinnulífinu. Námið hafi gert henni kleift að nálgast verkefni af ákveðinni yfirvegun. Sigyn segir að risatækifæri felist í því að auka fjölbreytileikann, bæði í náminu og á vinnustöðum. Þannig sé mjög brýnt að konur og kvár séu höfð með í ráðum við þróun nýrra lausna.

„Langflest fyrirtæki og svið hreinlega vantar konur og kvár,” segir Sigyn og þegar hún beinir orðum sínum til þessa hóps segir hún. 

„Þið eruð að fara að verða súperstjörnurnar. Þið eruð fólkið sem við erum rosalega mikið að bíða eftir.”

Viðtal: Sigyn Jónsdóttir

Sævar Helgi Bragason

Sævar Helgi Bragason

“STEM er lífið!”
Sævar Helgi Bragason
Vísindamiðlari og rithöfundur
Jarðfræði HÍ

Sævar Helgi Bragason er einn þekktasti vísindamiðlari landsins og er margverðlaunaður á því sviði. Hann er líka vinsæll rithöfundur vísindabóka og kennari auk þess að hafa starfað sem dagskrárgerðarmaður á ljósvakamiðlum. Sævar Helgi er með STEM-grunn í jarðfræði frá HÍ en hefur einna helst haslað sér völl við að skýra undur alheimsins fyrir almenningi, ekki síst börnum. Sævar hefur starfað hjá háloftadeild Raunvísindastofnunar Háskólans við segulmælingar og sem sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun í loftslagsmálum. Sævar Helgi er tengiliður Íslands við stærstu stjarnvísindasamtök heims og situr í stjórn Nýsköpunarverðlauna námsmanna. Hann er einnig í fagráði Loftlagssjóðs Rannís. Sævar Helgi starfar nú sem sérfræðingur á Náttúrufræðistofu Kópavogs auk þess að vera kennari í Háskóla unga fólksins og Háskólalest HÍ.

Viðtal: Sævar Helgi Bragason

Sæþór Ásgeirsson

Sæþór Ásgeirsson

„Námið opnaði mér dyr þannig að ég gat gert hvað sem er.“
Sæþór Ásgeirsson
Frumkvöðull og tækniþróunarstjóri hjá IceWind
Vélaverkfræði HÍ

Sæþór Ásgeirsson er einn af þeim sem nýtti sér kraumandi umhverfi Háskóla Íslands til nýsköpunar. Strax á skólabekk í vélaverkfræðinni hrinti hann þeirri hugmynd sinni í framkvæmd að þróa einfaldar vindmyllur sem gætu nýst ótrúlegum fjölda í heimi þar sem endurvinnanleg orka verður stöðugt brýnni til að mæta þörfum okkar.

Sæþór hefur ekki verið einn um að trúa á verkefnið því sprotafyrirtækið IceWind, sem hann stofnaði árið 2012 og byggir á upprunalegu hugmyndinni um vindmyllur, fékk fyrir fáeinum árum nokkur hundruð milljóna króna styrk frá Evrópusambandinu til frekari þróunar á vörunni. Það hefur einnig hlotið innlenda styrki til vaxtar og þróunar. Nú er að hefjast fjöldaframleiðsla á litlum vindmyllum í nafni IceWind eftir langt þróunarferli þar sem ætlunin er að leysa af hólmi mengandi aflstöðvar víða um heim sem keyra á olíu.

Sæþór nam vélaverkfræði í HÍ og Chalmers í Gautaborg. Hann einblíndi mjög snemma á orkuverkfræði og lærði allt sem hann komst yfir um vatns- og gufuafl auk endurnýjanlegra orkukerfa. Sæþór segir að þau sem komi inn á vinnumarkaðinn núna með STEM-grunn, hafi gríðarleg tækifæri. „Þessi grunnur veitir aðgang að svo miklum möguleikum.

Þú getur bara valið hvert þú vilt fara eftir námið. Fyrir okkur sem þjóð er mikilvægt að fá vel menntað STEM-fólk til að byggja hraðar upp, t.d. sprotafyrirtæki.“

Viðtal: Sæþór Ásgeirsson

Tengt efni