Skip to main content
13. maí 2022

Nýir sprotar, gönguferð og barsvar hjá HÍ í Nýsköpunarvikunni

Nýir sprotar, gönguferð og barsvar hjá HÍ í Nýsköpunarvikunni - á vefsíðu Háskóla Íslands

Fæðuhringurinn í Reykjavík, stefnumót við sprotafyrirtæki sem byggjast á rannsóknum innan HÍ og afhending Vísinda- og nýsköpunarverðlauna HÍ er meðal framlags skólans til hinnar árlegu Nýsköpunarviku (Iceland Innovation Week) sem fram fer dagana 16.-20. maí. Stór hluti viðburðanna á hátíðinni fer enn fremur fram í Grósku, hjarta nýsköpunar í Vatnsmýri í landi Vísindagarða skólans.

Þetta er í þriðja sinn sem hátíðin er haldin en markmið hennar er að draga fram þau fjölbreyttu nýsköpunarverkefni sem íslenskir frumkvöðlar, fyrirtæki og stofnanir vinna að um þessar mundir. Alþjóðlegur blær mun einnig svífa yfir vötnum því Norrænu nýsköpunarverðlaunin verða í fyrsta sinn veitt hér á landi.

Í boði í Nýsköpunarvikunni verða spennandi viðburðir, bæði í streymi og á staðnum. Sem einn af bakhjörlum hátíðarinnar leggur Háskóli Íslands ekki sitt eftir liggja enda skólinn vettvangur fjölbreyttar nýsköpunar, rannsókna og þróunar.

Hátíðin verður sett formlega mánudaginn 16. maí kl. 9 með viðburðinum „Voices of Innovation“ í Grósku þar sem Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ráðherra nýsköpunarmála, flytur erindi og fjölbreyttur hópur frumkvöða segir nýsköpunarsögur sínar. Þeirra á meðal er Lotta María Ellingsen, dósent í rafmangs- og tölvuverkfræði við HÍ, sem mun m.a. fjalla um nýsköpunarverkefni sem hún hefur unnið að ásamt samstarfsfólki og snerta m.a þróun sjálfvirkra myndgreiningaðferða til að finna fyrr merki um alvarlega heilabilunarsjúkdóma. 

Daginn eftir, þriðjudaginn 17. maí, verða svo Vísinda- og nýsköpunarverðlaun Háskóla Íslands afhent við athöfn í Hátíðasal skólans sem hefst kl. 15. Verðlaunin, sem hétu áður Hagnýtingarverðlaun Háskóla Íslands, eru nú veitt í 24. sinn en keppnin er samstarfsverkefni Háskóla Íslands, Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins, Árnason|Faktor og Auðnu-tæknitorgs. Hátt í 30 tillögur bárust í samkeppnina í ár og verða verðlaun veitt í fjórum flokkum auk þess sem sigurvegari keppninnar verður krýndur.

Viðburðurinn er opinn öllum en honum er jafnframt streymt

Í hádeginu fimmtudaginn 19. maí verður svo veitt innsýn í starf fjögurra sprotafyrirtækja, sem öll hafa verið stofnuð á grunni rannsókna við Háskóla Íslands, í viðburðinum „Stefnumót við sprotafyrirtæki Háskóla Íslands“ í Hátíðasal skólans. Fulltrúar sprotafyrirtækjanna Heilsugreind, Núnatrix, Risk og Taramar fjalla um áskoranir í starfi og framtíðarsýn í snörpum og skemmtilegum erindum.

Viðburðurinn er öllum opinn en honum verður líka streymt

Síðar þann dag, nánar tiltekið kl. 16, leiðir Sólveig Ólafsdóttir, doktorsnemi í sagnfræði við Háskóla Íslands, gönguferð um sögu íslenskrar matarmenningar og nýjunga í íslenskri matargerð í miðborg Reykjavíkur. Við sögu í göngunni koma fyrstu búskaparár Ingólfs og Hallgerðar í Reykjavík, sláturvellir, hamprækt, verksmiðjuframleiðsla á rúgbrauðum og gorkúluát svo fátt eitt er talið. Gangan er öllum opin og ókeypis.

Gangan kallast á við Matarsprotasýninguna Iceland Innovation Week Food Expo í Iðnó sem markar lok Nýsköpunarvikunnar föstudaginn 20. maí kl. 16. Þar verður hægt að kynna sér og bragða á ýmsum nýjungum af nægtarborði íslenskra matarfrumkvöðla.

Að kvöldi fimmtudagsins 19. maí, nánar tiltekið  kl. 20, standa nýsköpunar- og frumkvöðlanefnd Stúdentaráðs Háskóla Íslands og Nýsköpunarvikan fyrir barsvarinu Nýsköpunarnördinn á Stúdentakjallaranum þar sem öll áhugasöm geta spreytt sig á spurningum með nýsköpunarþema.

Dagskrá Nýsköpunarvikunnar í heild sinni má finna á vef vikunnar.
 

logo Nýsköpunarvikunnar