Huldar Breiðfjörð ráðinn lektor í ritlist | Háskóli Íslands Skip to main content
11. maí 2020

Huldar Breiðfjörð ráðinn lektor í ritlist

Huldar Breiðfjörð rithöfundur hefur verið ráðinn í lektorsstarf í ritlist innan Íslensku- og menningardeildar og mun hann hefja störf 1. júlí næstkomandi.

Huldar lauk meistaraprófi í kvikmyndagerð og handritaskrifum fyrir kvikmyndir og sjónvarp frá New York háskóla árið 2007. Hann er viðurkenndur höfundur fagurbókmennta, hefur m.a. birt ljóðasafn, samið leikrit sem sett hafa verið á svið í atvinnuleikhúsi, og skrifað prósaverk sem hlotið hafa hylli gagnrýnenda. Sömuleiðis hefur hann samið handrit að sjónvarpsþáttum, og enn fleiri kvikmyndum og hefur m.a. unnið til Edduverðlauna fyrir handrit að kvikmyndinni Undir trénu, sem hann vann í samstarfi við leikstjóra myndarinnar, Hafstein Gunnar Sigurðsson. 

Nú verða tveir fastráðnir kennarar starfandi við ritlist í Háskóla Íslands en auk þess hafa rithöfundar gegnt starfi Jónasar Hallgrímssonar í ritlist í eitt misseri í senn. 

Ritlist við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands er kennd í meistaranámi og sem aukagrein í grunnnámi. Hér er hægt að horfa á kynningarmyndband um ritlistarnámið.

Huldar Breiðfjörð