
Ritlist
MA gráða
Í ritlist gefst áhugafólki um ritsmíðar færi á að þroska hæfileika sína undir handleiðslu reyndra höfunda. Lögð er áhersla á frjóa hugsun og miðlun hennar í listrænum texta af ýmsu tagi. Meðfram eru lesnar bókmenntir hvaðanæva úr heiminum.

Um námið
Um er að ræða fjögurra missera (120 ects) nám sem lýkur með MA-gráðu. Námið er að miklu leyti verklegt, og þá kennt í smiðjum eða rithringjum, en líka að hluta til fræðilegt.
Nemendur sem hefja meistaranám í ritlist skulu hafa lokið bakkalárprófi með fyrstu einkunn að lágmarki og a.m.k 10 eininga lokaverkefni. Þau sem ekki hafa neinn bakgrunn í bókmenntum, s.s. BA-nám í almennri bókmenntafræði, íslensku, ritlist eða öðru bókmenntatengdu námi, ljúki, auk 120 eininga á meistarastigi, námskeiðunum ÍSL111G Bókmenntafræði (eða ABF104G Aðferðum og hugtökum), einu bókmenntasögulegu námskeiði og einu bókmenntanámskeiði til viðbótar á BA-stigi (samtals 30 einingum). Þessum viðbótarnámskeiðum skal ljúka á fyrsta og öðru misseri námsins ef kostur er.
Umsækjendur skulu senda inn sýnismöppu með frumsömdu efni og verða gjaldgengir umsækjendur valdir inn í námið á grundvelli þess. Umsækjendur geta t.d. sent inn smásögur, kafla úr skáldverki fyrir börn eða fullorðna, sannsögur, ljóð, brot úr kvikmynda- eða sjónvarpshandriti, einþáttung eða esseyju; hámark 25 síður alls. Þá skulu umsækjendur einnig skila inn stuttri greinargerð um áhugasvið sitt og markmið með náminu (ein síða; efnistök mega vera listræn).