Skip to main content

Áhrif ESB á lýðræði á Íslandi

Baldur Þórhallsson, prófessor við Stjórnmálafræðideild

„Við erum að rannsaka hvort aðild Íslands að Evrópusambandinu muni hafa áhrif á lýðræði í landinu. Möguleikar kjósenda til að hafa áhrif á ákvarðanir stjórnvalda eru kortlagðir og skoðað hvort aðild að ESB dragi úr eða auki möguleika kjósenda til áhrifa.“ 

Þetta segir Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði, en hann hefur unnið við tvö alþjóðleg rannsóknarverkefni um lýðræði og Evrópusamrunann síðustu misserin.

„Það fyrra snýr að því að rannsaka hvort aðild umsóknarríkja að ESB hafi áhrif á lýðræði í þessum löndum. Það síðara felst í því að meta hvaða áhrif samningar Íslands, Noregs og Sviss við ESB hafa haft á lýðræði í þessum ríkjum, þ.e. möguleika borgara til áhrifa, og hvort og þá hverju aðild að sambandinu muni breyta í þessu samhengi.“

Baldur Þórhallsson

„Íslendingar hafa framselt löggjafarvald til EES, Schengen og ESB án þess að eiga raunverulega möguleika á að hafa áhrif á þessa löggjöf.“

Baldur Þórhallsson, prófessor við Stjórnmálafræðideild

Baldur segir að í allri þeirri umræðu sem átt hafi sér stað um stjórnskipan Íslands og lýðræði frá hruni hafi framsal valds til yfirþjóðlegra stofnana ekki verið rannsakað ofan í kjölinn. „Íslendingar hafa framselt löggjafarvald til EES, Schengen og ESB án þess að eiga raunverulega möguleika á að hafa áhrif á þessa löggjöf. Þessi atriði varða því lýðræði í landinu með beinum hætti, aðkomu kjósenda að lagasetningu og gegnsæi í ákvarðanatöku og stjórnun,“ segir Baldur.

Helstu niðurstöðurnar í rannsókninni eru þær að aðild Íslands að ESB myndi hafa víðtæk áhrif á lýðræði á Íslandi að sögn Baldurs. „Kjósendur myndu hafa meira möguleika til áhrifa á þær ákvarðanir sem nú eru teknar innan EES og Schengen. Í dag eru ákvarðanir sem lögfestar eru hér á landi í stofnunum EES, Schengen og ESB teknar án aðkomu kjörinna fulltrúa á Íslandi. Það myndi gjörbreytast með aðild að ESB þar sem kjörnir fulltrúar Íslendinga myndu sitja í ráðherraráði og leiðtogaráði ESB sem og á Evrópuþinginu. Langflestar ákvarðanir ráðherraráðsins og leiðtogaráðsins eru teknar samhljóða, þ.e. með samþykki allra aðildarríkja sambandsins.“

Baldur segir að hins vegar myndi ákvarðanataka í landbúnaðar- og sjávarútvegsmálum að stórum hluta til færast til stofnana ESB, ef ekki fáist sérlausnir fyrir Ísland. „Innan ESB verður erfiðara fyrir íslenska hagsmunahópa í þessum greinum að hafa bein áhrif á lagaumhverfi þeirra. Í dag ráða þessir hagsmunahópar mestu um þá lagaumgjörð sem Alþingi setur þeim og má jafnvel tala um „sjálfreglugerðavæðingu“ í þessu samhengi. Landbúnaðurinn hefur auk þessa ekki þurft að sæta sama gegnsæja óhlutdræga opinbera eftirlitinu eins og landbúnaðargeirinn innan ESB. Það myndi breytast með aðild að ESB eins og raunin var með málaflokka sem falla undir EES. ESB rekur einnig umfangsmikla byggðastefnu þar sem gerð er krafa um virka þátttöku kjörinna sveitarstjórnarmanna í stefnumótun og framfylgd stefnunnar. Eftirlit með framkvæmdinni er gegnsætt og skilvirkt. Aðild Íslands að byggðastefnu ESB gæti þannig stuðlað að aukinni aðkomu sveitarstjórnarmanna að mótun byggðastefnunnar og gegnsærra eftirliti með henni.“

Tengt efni