Skip to main content

Vöðvaþreyta og álagsmeiðsli

Þórarinn Sveinsson, prófessor við Læknadeild

„Íþróttir og hreyfing til heilsubótar hefur gríðarlega mikilvægt samfélagslegt gildi við að vega upp á móti vaxandi kyrrsetu í störfum og afþreyingu. Hins vegar hefur það líka neikvæða fylgifiska sem eru álagsmeiðsli og svokölluð ofþjálfun. Álagsmeiðsli ýmiss konar eru t.d. óæskilega há meðal þeirra sem stunda hlaup sér til heilsubótar,“ segir Þórarinn Sveinsson, prófessor við námsbraut í sjúkraþjálfun. Hann vinnur að því þessi misserin að þróa aðferðir til að greina hvaða áhrif vöðvaþreyta hefur á hreyfingar fótleggja hjá hlaupurum.
 

Þórarinn Sveinsson

„Álagsmeiðsli ýmiss konar eru t.d. óæskilega há meðal þeirra sem stunda hlaup sér til heilsubótar.“

Þórarinn Sveinsson

Þórarinn segir íþróttir og hreyfingu lengi hafa verið bæði áhugamál hans og fræðilegt viðfangsefni. „Rannsóknir mínar snúast um að auka skilning á því hvernig ónóg endurheimt, þ.e. þreyta, eftir líkamlega áreynslu getur leitt til álagsmeiðsla og ofþjálfunar. Þá þekkingu verður svo hægt að nýta í forvörnum og til að bæta þjálfunaraðferðir í íþróttaþjálfun, líkamsræktarþjálfun og sjúkraþjálfun.“

Þórarinn bendir á að mikil þekking liggi fyrir um jákvæð áhrif líkamlegrar hreyfingar og íþrótta á andlega og líkamlega þætti en minna hafi farið fyrir rannsóknum á neikvæðum áhrifum. „Markmiðið með rannsókninni sem ég vinn nú að er að skoða hvernig álag í liðamótum og vöðvum fótleggja breytist þegar hlauparar þreytast og hvernig það hugsanlega tengist auknum líkum á álagsmeiðslum.“

Frumniðurstöður rannsóknarinnar sýna að þreyta á meðan á hlaupi stendur breytir hreyfiferlum og vöðvavirkni í fótleggjum á þann hátt að álag á liðamót og liðbönd getur aukist og þar með líkur á meiðslum. „Ítarlegri mælingar standa fyrir dyrum sem munu betur varpa ljósi á þetta samband og gefa betri grunn til að byggja forvarnir á og ráðgjöf,“ segir hann. Þórarinn segir það í sjálfu sér áhugavert vísindalegt viðfangsefni að átta sig á neikvæðum áhrifum hreyfingar. „Það er ekki síður mikilvægt fyrir samfélagið þar sem það leggur grunn að áhrifaríkum forvörnum og bættri þjálfun. Með því að auka forvarnir gegn neikvæðu áhrifunum þá tryggjum við að almenningur njóti betur og lengur jákvæðra áhrifa heilsuræktar og líkamlegrar hreyfingar,“ segir hann.